Æfingaferð tækjahóps á Mýrdals og Eyjafjallajökul

Ferðin sjálf heppnaðist prýðilega og var hópurinn nokkuð vel samstilltur að
leyfa Frímanni að "tana" um allan jökul og hlusta á Gumma og Madda segja til um hvernig menn eiga að leggja út ferla og safna saman ferlum í tölvurnar.
Við ókum upp Mýrdalsjökul eftir ferli sem við áttum frá því við fórum í
Strút fyrir tveim árum síðan, af miðjum jökli var síðan tekin stefna á
hábungu Mýrdalsjökuls sem nefnist Goðabunga. þaðan var síðan stefnan tekin á
skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi. Þegar búið var að brölta nánast upp að
skálanum á Fimmvörðuhálsi var tekin smá hádegismatur. Við komumst ekki upp
að skálanum vegna þess að það vantar hreinlega snjó til að komast upp að
skálanum sjálfum, þannig að við áðum bara á hól við hliðina á skálanum með
útsýni yfir að honum.

Eftir mat var stefnan tekin upp á Eyjafjallajökul en stuttu eftir að við
lögðum í hann upp jökulinn kom útkall Rauður á Langjökul og settum við okkur
því snarlega í samband við bækistöðvahóp með því að hringja í útkallssíma
HSSR. Þar varð fyrir svörum Helgi Reynis og sneri hann hópnum upp á
Langjökul ef þyrfti að sækja undanfara sveitarinnar sem voru á leiðini í
þyrlu LHG.

Tekin var ákvörðun um að aka beint niður slóðann að Skógum, og vorum við
búnir að pumpa í öll dekk og komnir af stað í keyrslu eftir þjóðvegi 1 með
stefnu á Langjökul á innan við klukkutíma. Þrátt fyrir að hafa þurft á leið
okkar að spila okkur upp á bakkann á Skógaá á leið okkar niður
Fimmvörðuhálsinn.

Við vorum svo komnir á Þingvelli með stefnu á Kaldadalinn þegar okkur var
snúið frá slysstaðnum. Stefnan var því tekin á M6 og bílarnir þrifnir þar og
hópurinn settur í viðbragðsstöðu ef frekari aðstoðar væri þörf.

—————-
Texti m. mynd: Á leið upp Mýrdalsjökul með Eyjar í baksýn
Höfundur: Guðmundur Jón Björgvinsson