Páskaferðin – Suðurjöklahringur á skíðum.

Páskaferð í boði Beltó: Suðurjöklahringur – á skíðum.

Fljótsdalur -Tindfjallajökull – Emstrur – Mýrdalsjökull –Fimmvörðuháls – Eyjafjallajökull – Stóru-Mörk.

Farið frá innsta bæ í Fljótshlíð og yfir jöklana þrjá og endað á innsta bæ undir Eyjafjöllum. Þetta kallast að fara bakdyramegin milli bæja.

Miðvikudagur: Farið úr bænum kl: 19:00 og gist í skála í Tindfjöllum.

Fimmtudagur: Farið rólega yfir Tindfjallajökul og niður á Emstrur. Gist í skála eða tjöldum.

Föstudagur: Farið upp Entujökul, suður há-Mýrdalsjökul og vestur á Fimmvörðuháls. Gist í skála eða tjöldum.

Laugardagur: Dólað vestur yfir Eyjafjallajökul og komið niður þar sem heppilegast þykir.

Þetta er með allra fallegustu gönguskíðaleiðum því útsýnið er vægast sagt glæsilegt, Þórsmörkin alltaf í seilingarfjarlægð. Kostur við leiðina er einnig sá að gerist veður mjög válynd þá er tiltölulega auðvelt að koma sér niður.

Hugsanlegt er að fara snemma úr bænum á skírdegi og þá er einungis gist í tvær nætur í ferðinni. Tjöld eru nauðsynleg bæði þar sem óljóst er með skálamál og ef menn verða strand milli skála.

Ferðin er ekki beinlínis fyrir algjöra aukvisa en ég tel þetta ferð fyrir flesta sem eitthvað geta komið sér áfram á gönguskíðum. Púlkur gera svona ferð mjög þægilega en eru ekkert skilyrði.

Fundur á mánudagskvöld kl: 20:00 fyrir þá sem ætla í ferðina eða eru að spá í spilin.

Umsjón: Árni Alfreðsson
gsm: 862-5559

—————-
Höfundur: Árni Alfreðsson