Þráin í Þjórsárdal

Eins og kemur fram í frétt hér að neðan þá tóku tveir undanfarar í HSSR sig til og klifruðu ísklifurleiðina Þráina í Þjórsárdal síðastliðinn þriðjudag. Þráin er í sama gili og Háifoss í Þjórsárdal.

Þráin var fyrst klifruð árið 1997 af þeim Páli Sveinssyni, Þorvaldi V. Þórssyni og Hallgrími Magnússyni og var það þeirra þriðja tilraun við leiðina. Þráin er í hópi erfiðustu ísklifurleiða á Íslandi og fær gráðuna WI5+, "og þykir mönnum nú fimmta gráðan vera orðin ansi teygjanleg" er ritað í ársrit Íslenska alpaklúbbsins 1997. Leiðin hefur jafnframt vakið heimsathygli og lenti á forsíðu klifurblaðsins Rock and Ice fyrir nokkrum árum.

Í þetta skipti var bætt um betur og voru allar leiðirnar í gilinu klifraðar sama daginn. Fyrst Botnýja WI3, 150 á hlaupandi tryggingum, næst var Þráin klifruð WI5+, 100m, og endað á Granna WI4, 150m. Að auki voru leiðirnar klifraðar fetlalaust. Samtals voru þetta um 400m af ís upp í loftið og mætti telja það ágætis dagsverk. Erfitt aðgengi er að þessum leiðum á veturna vegna snjóþyngsla og þökkum við HSSR fyrir afnot af frábæru tæki til þess að komast uppeftir.

Róbert Halldórsson og Sigurður Tómas Þórisson

—————-
Höfundur: Róbert Halldórsson