Vatnajökull 2003 – HSSR gerir góða ferð

HSSR – Vatnajökull á gönguskíðum – 2003

Frásögn í máli og myndum (sjá myndir frá ferðinni á HSSR-Myndir)

Dagana 7 – 14 júní 2003 gengu sjö félagar úr HSSR á gönguskíðum suður Vatnajökul, frá Kverkföllum í Grímsfjall, þaðan yfir Öræfajökul og niður Hnappavallaleiðina, með viðkomu á Hvannadalshnúk.

Þátttakendur voru:
Birgir Jóhannesson
Ævar Aðalsteinsson
Ólafur Bergmann
Ólafía Aðalsteinsdóttir
Sigrún Konráðsdótttir
Anna María Lind Geirsdóttir
Ingibjörg Eiríksdóttir

7 júní / dagur 1.
Reykjavík – Egilsstaðir –Sigurðaskáli í Kverkfjöllum
Ferðin hófst með flugferð til Egilstaða þar sem biðu okkar björgunarsveitarmenn frá Egilstöðum og Borgarfirði eystri. Þeir höfðu tekið að sér að skutla okkur upp í Kverkfjöll. Strax var lagt af stað og haldið áleiðis til Möðrudals á fjöllum. Nokkrum kílómetrum áður en komið var þangað var farinn vegur sem liggur að austanverðu við Jökulsá á fjöllum. Það var einsog að sumarlagi að keyra þarna. Allt þurrt og enginn snjór. Brátt vorum við í Sigurðarskála. Þar var ákveðið að reyna að komast lengra á bílunum í átt að Kverkjöklinum. Það gekk mjög vel og jafnvel jökuláin sem kemur úr honum var aðeins smá spræna. Þannig tókst að flytja allan búnað á auðveldan hátt í snjóröndina í 825 metra hæð þar sem gangan myndi hefjast daginn eftir. Austfirðingurinn og Héraðsbúinn héldu til síns heima og var þeim þökkuð liðveislan. Í Sigurðarskála gisti hópurinn síðan um nóttina og hafði þar góða vist. Gott skyggni var þennan dag en skýjað.
Hiti +7-10°C og gola.

8 júní / dagur 2.
Sigurðarskáli – Jörfi, efri skáli í Kverkfjöllum
Dagleið: 9,2 km.
Hækkun 907 m.
Vaknað árla morguns. Eftir morgunmat og tiltekt í skálanum var lagt af stað fótgangandi um 4 km. leið inn að Kverkjöklinum þar sem búnaðurinn beið okkar. Áður en lagt var af stað upp jökulinn var íshellirinn skoðaður. Síðan voru hælar plástraðir og lagt í hann. Eftir skriðjökulsporðinn var komið í Löngufönn. Þar var þungt færi og mikill bratti. Því hægðist á mönnum enda púlkurnar þungar í drætti. Bjart var í veðri, sól öðru hvoru en það hvessti eftir því sem ofar dró. Uppi á fjallinu skall síðan á þoka og var gengið eftir áttavita og GPS í skálann. Um kvöldið var svokallað Gengissig kannað, en það er lón sem hefur myndast vegna jarðhita sem er við jökuljaðarinn.
Hiti +2-4°C og strekkingur.

9 júní / dagur 3.
Jörfi – áleiðis í Grímsfjall
Dagleið: 27,8 km.
Lækkun 65 m.
Eftir góða hvíld í Jörfa var haldið af stað út á jökulinn. Fyrst þarf að hækka sig talsvert (í ca 1900 m hæð) en síðan tekur við lækkun niður á sjálfa ísbreiðuna sem er í 1600-1700 metra hæð. Þoka var allan daginn en úrkomulaust. 50-100 m skyggni. Strekkings vindur af austri og sæmilegt færi. Gengið var eftir GPS punktum og áttavita. Tjaldað var um kvöldið í 1664 metra hæð. Eitthvað létti til um kvöldið en vindurinn hélst alla nóttina.
Hiti + 2-4°C.

10 júní / dagur 4.
Tjaldstaður – Grímsfjall
Dagleið: 15 km.
Hækkun 69 m.
Eftir fyrstu nóttina í tjaldi á jöklinum vöknuðu leiðangursmenn hressari sem aldrei fyrr. Grímsfjall beið framundan í þokunni og var stefnunni framhaldið frá gærdeginum. Þokkalegt færi og heldur glaðnaði til öðru hvoru. Sáum Grímsfjall þegar 5 km voru eftir þangað. Leiðin var heldur undan fæti þar til komið var að Grímsfjalli, en þar tók við um 300 metra hækkun. Gott var að koma í upphituð hýbíli Jöklarannsóknafélagsins. Þurrka búnaðinn, skella sér í gufu og sturtu og grilla svo á eftir. Þoka var á fjallinu og ekkert skyggni.
Hiti +2-4°C.

11 júní / 5 dagur.
Dagleið: 20 km.
Þennan dag hafði verið ákveðið að halda kyrru fyrir á Grímsfjalli. Þegar fólk var komið á stjá og farið var að gá til veðurs var ljóst að komið var besta veður. Dálítill vindur en bjart yfir jöklinum. Var ákveðið að fara dagsferð í Grímsvötnin og skoða sig um. Veðrið hélst gott allan daginn og lægði meira að segja þegar við vorum komin af stað og komin niður í vötnin. Við fórum austur fyrir fjallið og sveigðum síðan norður fyrir það. Talsvert lón var við gosstöðvarnar síðan 1998 og rauk þar nokkuð úr iðrum jarðar beint upp í loftið í logninu. Við slepptum baði en héldum áfram vestur fyrir Grímsfjall og upp á það og síðan sem leið lá austur að skálanum, með viðkomu á vestari Svíahnúkum.. Í skálann komum við eftir 20 km skemmtilegan hring. Gufan og sturtan var notuð vel um kvöldið.
Hiti +5-10°C.

12 júní / 6 dagur.
Grímsfjall – áleiðis í Hermannaskarð.
Dagleið: 26.7 km.
Hækkun 473 m.
Endurnærð eftir góða vist á Grímsfjalli var lagt af stað í seinni hluta leiðarinnar. Nú var ágætt skyggni svo sást jafnvel suður á Þumal, niður Skeiðarárjökul og til Lómagnúps. Færið var nokkuð gott enda hafði kólnað og var komin strekkings vindur úr norðaustri. Gangan var auðveld á sléttum jöklinum þar sem um töluverða lækkun var að ræða á þessari leið. Þegar ákveðið var að tjalda um kvöldið vorum við í 1260 metra hæð og áttum þá 17 km eftir í Hermannaskarð. Hlaðnir voru góðir skjólgarðar fyrir tjöldin því allhvasst var orðið. Það kom þó ekki að sök því um kvöldið lægði og varð hið besta veður um nóttina.
Hiti +1-3°C.

13 júní / 7 dagur.
Dagleið: 20.8 km.
Hækkun 352 m.
Af tjaldstað á megin jöklinum – Hermannaskarð – norðan í Öræfajökul.
Það fór vel um mannskapinn í tjöldunum og þegar farið var á fætur var komið besta veður. Sólin sást jafnvel öðru hvoru um morguninn. En fljótlega eftir að lagt var af stað lagðist yfir jökulinn þunn skýjaslæða. Engu að síður var mjög bjart og lítill vindur. Það hlýnaði verulega þó við værum þarna í 1200-1300 metra hæð. Þegar leið á daginn þéttist þokan og hægðist á hópnum því mjög lítið skyggni var. Áttavitinn og GPS var stöðugt uppi til að halda réttri stefnu. Þegar við byrjuðum að lækka okkur niður í Hermannaskarðið fórum við niður úr þokunni og áttum því auðvelt með að finna það. Þá sáum við niður á láglendi og austur til Mávabyggða og Esjufjalla. Áfram var síðan haldið áleiðis upp á Öræfajökul. Um kvöldið var síðan tjaldað í 1612 metra hæð norðan í Öræfajökli.
Hiti +5-15°C.

14 júní / 8 dagur.
Norðan í Öræfajökli – Hvannadalshnúkur – Hnappavellir.
Dagleið: 17,9 km.
Fyrst hækkun 507 m, síðan lækkun 1.320 m.
Farið snemma á fætur eftir góða vist í tjöldunum. Þoka var á fjallinu og smá gola. Vel gekk að ganga upp brekkurnar með stefnuna á Tjaldskarð. Þegar þangað var komið var stutt eftir upp á sjálfa sléttuna. Við höfðum ekki gengið lengi þegar fór að rofa til og hópurinn hreinlega gekk út úr þokunni og í glaða sólskin. Við tókum stefnuna á Hvannadalshnúk 2119 m og vorum þar uppi um kl. 16:00 í 10 stiga hita og logni. Þar uppi var mikill mannsöfnuður frá Skýrr, auk þess sem Íslenskir Fjallaleiðsögumenn komu síðar með hóp af fólki. Þaðan var síðan haldið beina leið niður af hnúknum og yfir sléttuna að Hnöppunum sem eru á austurbrún Öræfajökuls. Vel gekk síðan að skíða niður brekkurnar þó talsvert hafi verið um sprungur, en þegar þarna var komið var heiður himinn og því auðvelt að sniðganga sprungurnar. Þetta var um 1000 m lækkun niður á heiðina þar sem bílar HSSR biðu, og þangað vorum við komin um kl. 20:00. Síðan var ekið í bæinn eftir góða ferð, með viðkomu í sundlauginni í Svínafelli (aðallega í heita pottinum!).
Hiti +5-15°C.

Samtals voru gengnir um 137 km í ferðinni.

Ævar Aðalsteinsson
Birgir Jóhannesson

—————-
Höfundur: Stefán P. Magnússon