Vetrarafkomumælingar 2008

Eins og síðastliðin ár hefur snjóbíllinn okkar Boli verið í vinnu undanfarnar vikur við vetrarafkomumælingar Langjökuls og Vatnajökuls og með honum maður frá HSSR. Seinnipart 18. apríl héldum við þrír á Langjökul frá Brunnavatni á Uxahryggjaleið. Leiðin lá norðan Skjaldbreiðar og norður á sporð vestari Hagafellsjökuls þar sem við eyddum fyrstu nóttinni af þremur á jöklinum. Bústaðurinn Boli var að venju frábær og hentar fínt þremur til fjórum köllum eða kellingum í útilegu. Á Langjökli eru árlega boraða 25 holur niður í gegnum vetrarsnjóinn með kjarnabor. Kjarninn er síðan mældur, viktaður og umreiknaður yfir í vatnsgildi og þannig er fundin út raunákoma hvers vetrar á jökulinn. Ofan hjarnmarka eru settar niður 6 metra langar stikur sem lesið er af að hausti. Neðan hjarnmarka eru hinsvegar boraðar 8-12 metra djúpar holur með gufubræðslubor og niður í þær settur vír sem mældur er að hausti. Eftir allnokkurn reikning er svo hægt að finna út hvort að raunverulegur massi jökulsins er að aukast eða minnka. Einnig reistum við tvær veðurstöðvar á Vestari Hagafellsjökli.
Heimleiðis héldum við félagarnir að kvöldi mánudagsins 21. apríl eftir frábæran leiðangur.

Vatnajökulsferðin hófst að morgni sunnudagsins 27. apríl. Undirritaður, Bjössi og Edda brunuðu út úr bænum með hið nýja íbúðarhús Landsvirkjunar í togi aftan í Reyk 6 inn að Vatnsfelli. Þar losuðum við okkur við “Svítuna” og stappfullan pall af dóti, héldum í Sigöldu og pikkuðum þar upp Bola sem var í þurrki eftir Glaðheimaferðina. Fyrsta nótt var á hlaðinu í Jökulheimum, alvöru fólk gistir nefnilega ekki í skálum, nema nema þeim sem þeir ferðast með með sér. Á fyrsta vinnudegi náðist að mæla rúmlega hálfan Tungnaárjökul og Síðujökul. Næstu tveimur dögum var svo eitt í svonefndu “sovéti”. Við vorum ss. Veðurtepptir í rúma tvo sólarhringa. Þá er sofið og étið eins og hver getur og þaðan er nafnið komið. Þegar stytti loks upp var haldið á Köldukvíslarjökul og Tungnaárjökull kláraður sama dag. Því næst var haldið á Grímsfjall, náð í ennþá meira af dóti, allir dunkar fylltir af dísilolíu og því næst haldið ca. 30 km til austurs, að efstu upptökum Brúarjökuls, boruð afkomuhola og sett upp veðurstöð. Vestari lína Brúarjökuls var mæld næsta dag, sett upp önnur veðurstöð og endað við þá þriðju B10 í skrá veðurstofu þar sem var gist. Næsti dagur veðurstöð á Hoffelsjökli + Eyjabakkajökull. Svo eystri lína Brúarjökuls, Breiðabunga og til baka á Grímsfjall. Á heimleiðinni settum við svo upp tvær veðurstöðvar á Tungnaárjökli. Miðvikudagurinn fór í heimferð og vá, hvað var mikið vatn á Jökulheimaleið.
Á Vatnajökli voru boraðar tæplega 50 afkomuholur, ca. 20 gufuholur og settar upp 5 veðurstöðvar. Ákoma á sporðum er allstaðar tæpir 2 metrar sem er fimm sinnum meira en undanfarin ár. Ofantil á jöklinum er ákoman ca. 20% meiri en undanfarin ár.

Eknir kílómetrar voru 220 á Langjökli og 530 á Vatnajökli.

Nú er Boli í Vatnsfelli og bíður átekta. Þann 30. maí heldur hann enn eina ferðina á Vatnajökul og þá sem trússhestur og alsherjarreddari í vorferð Jöklarannsóknarfélagsins.
Hann ætti þá allavega að vera farinn að rata í þjóðhátíðarferðinni.

Myndir á myndasíðu.

—————-
Texti m. mynd: Flotinn á Tungnaárjökli
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson