Í fyrradag settum við upp búðir fyrir danska greiningasveit í Mestervig á Grænlandi og aðstöðu fyrir stjórnstöð á eyjunni Elle sem er 80 km innar í firðinum þar sem Mestersvig er staðsett. Síðustu tvo daga höfum við síðan séð um að halda búðunum í gangi og aðstoða Danina við hin ýmsu verkefni. Í gær voru búðirnar í Elle teknar niður og fluttar um borð í varðskipið Þór. Í morgun var síðan síðasti hluti búðanna í Mestersvig tekinn niður, fluttur landleiðina til Nyhave þar sem mest af honum fór í báta og út í skip. Þyngstu hlutirnir, s.s. Trelleborgartjöldin, stóra rafstöðin, hitarinn, kerran og fjórhjól þeirra Suðurnesjamanna voru fluttir með þyrlu frá dönsku varðskipi út í Þór. Nú er allur hópurinn kominn um borð í Þór sem hefur tekið stefnuna á Ísland. Við erum mjög sátt og reynslunni ríkari.
Kveðja frá Grænlandsförum
PS Myndir verða að bíða heimkomu.
—————-
Höfundur: Svava Ólafsdóttir