SAREX 2012

Í fyrradag settum við upp búðir fyrir danska greiningasveit í Mestervig á Grænlandi og aðstöðu fyrir stjórnstöð á eyjunni Elle sem er 80 km innar í firðinum þar sem Mestersvig er staðsett. Síðustu tvo daga höfum við síðan séð um að halda búðunum í gangi og aðstoða Danina við hin ýmsu verkefni. Í gær voru búðirnar í Elle teknar niður og fluttar um borð í varðskipið Þór. Í morgun var síðan síðasti hluti búðanna í Mestersvig tekinn niður, fluttur landleiðina til Nyhave þar sem mest af honum fór í báta og út í skip. Þyngstu hlutirnir, s.s. Trelleborgartjöldin, stóra rafstöðin, hitarinn, kerran og fjórhjól þeirra Suðurnesjamanna voru fluttir með þyrlu frá dönsku varðskipi út í Þór. Nú er allur hópurinn kominn um borð í Þór sem hefur tekið stefnuna á Ísland. Við erum mjög sátt og reynslunni ríkari.

Kveðja frá Grænlandsförum

PS Myndir verða að bíða heimkomu.

—————-
Höfundur: Svava Ólafsdóttir

SAREX 2012

Í nótt kl 4:00 fór fríður hópur úr búðahóp HSSR ásamt félögum í Björgunarsveit Hafnarfjarðar og Björgunarsveitinni Suðurnes með danskri Hercules C130 herflugvél til Grænlands að taka þátt í æfingunni SAREX 2012.

Nánar má lesa um æfinguna á heimasíðu SL

Það verður spennandi að fylgjast með félögum okkar í Grænlandi.

—————-
Texti m. mynd: Hercules vél danska hersins hlaðin
Höfundur: Hilmar Már Aðalsteinsson

SAREX 2012

Dagana 12.-16. september mun búðahópur HSSR taka þátt í SAREX 2012, stórri samæfingu margra þjóða í Meistaravík á Grænlandi. Æfð verða viðbrögð við því ef stórt skemmtiferðaskip strandar við austurströnd Grænlands, nánar tiltekið Ella-eyju. Leki kemur að skipinu og fjöldi smáelda kvikna, en skipið flýtur og heldur kili. Verkefni búðahóps verður að setja upp og starfrækja búðir fyrir aðra björgunaraðila í æfingunni.
Þátttakendur frá Íslandi, auk HSSR, eru Björgunarsveit Hafnarfjarðar og Björgunarsveitin Suðurnes. Aðrar þátttökuþjóðir eru Grænland, Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Færeyjar, Bandaríkin og Kanada, en þær eiga sammerkt að eiga hagsmuna að gæta á norðurskautinu.
Flogið verður utan með C-130 þungaflutningavél frá bandaríska landhernum og komið til baka með varðskipinu Þór.

—————-
Texti m. mynd: SAREX 2012
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson