Afmælis- Lúxustrússferð HSSR 20. – 22. júlí sl.

Það voru 37 göngugarpar sem lögðu upp frá Landmannalaugum föstudaginn 20. júlí.
Fyrsti áfangastaður var Hrafntinnusker þar sem Frímann skálavörður tók vel á móti okkur.
Eftir smá spjall og uppsetningu tjaldbúða var tekin eftirmiðdagsganga að Íshellunum (sem hrundu) og að einum öflugasta goshver landsins; Hvínanda.
Frábær dagur í góðu veðri, logni og aðallega sól 🙂
Kvöldmaturinn samanstóð af hamborgurum með sósu og salati, ekta útilegumatur sem rann ljúflega niður.

Ræst var kl. 06 á laugardagsmorgun til að vera á undan lægðinni sem spá hafði verið seinna um daginn.
Labbað var svokölluð "´óhefðbundin" leið austan Háskerðings á milli Reykjafjalla áleiðis í Hvanngil.
Þarna leyndust bullandi leirhverir, tvílitir fossar, íshellar og ölkeldur er svöluðu þorsta manna – sannkölluð náttúruperla.
Veðrið var gott framan af degi en síðdegis var komin hin alíslenska rigning með tilheyrandi roki.
Það var því alsæll ( en þó vel vökvaður), gönguhópur sem kom í skála FÍ í Hvanngili eftir 23 km göngu.
Kvöldmaturinn samanstóð af lúxusafmælismat: Smjörsteikt lambaprime með hinum ýmsu salötum og sósum – sjaldan hefur smjörsteikt lambakjöt smakkast eins vel, enda kláruðust síðustu bitarnir morgunin eftir 🙂
Lægðin alræmda gekk yfir með tilheyrandi roki og beljanda þetta kvöld, allir voru því mjög sáttir við að njóta skálagistingar enda Deluxe ferð.
Sunnudagurinn var tekinn snemma, farangri pakkað saman og gengið á móts við rútuna sem sótti okkur við göngubrúna við Kaldaklofskvísl.
Það voru afar ánægðir ferðalangar sem mættu í höfuðstaðinn, brosandi út að eyrum eftir hreint út sagt frábæra ferð.

Takk fyrir okkur,
Melkorka og Kjartan

—————-
Texti m. mynd: Lúxustrússarar í Hrafntinnuskeri
Höfundur: Melkorka Jónsdóttir