Alþjóðasveit á leið til Haiti

Þrjátíu og fimm manna hópur úr íslensku alþjóðasveitinni er lagður af stað til hamfarasvæðisins á Haiti. Þar af eru 8 félagar HSSR í mismunandi hlutverkum. Þau Hilmar Már, Gunnar Kr, Svava, Björn, Kári og Dagbjartur sjá um búðir og vatnshreinsibúnað. Ólafur Loftsson fór út sem stjórnandi og Jóhann Viggó á vegum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Einnig fylgdu fleiri félagar með til Keflavíkur og berlega kom í ljós hve mikilvægir stuðningshópar við flutning og undirbúning eru í aðgerð sem þessari.

Það er ljóst að aðstæður eru erfiðar og sveitin verður ein af fyrstu björgunarsveitum á hamfarasvæðið. Veður er þó gott en fyrstu myndir sína að miklar skemmdir hafa orðið á byggingum. Alþjóðasveitin flýgur með vél Icelandair til Boston og mun taka þar eldsneyti. Vonast er til að stoppið verði stutt og síðan tekur við þriggja og hálfs tíma flug til Haiti.
Alls vigtaði búnaður svetarinnar tæp 15 tonn og tæplega helmingurinn af því er vatn.
Nú er um að gera að senda þeim góðar hugsanir því ljóst er að þetta verður erfið ferð.

—————-
Texti m. mynd: HSSR félagar á Keflavíkurflugvelli í nótt.
Höfundur: Haukur Harðarson