Author Archives: Ólafur Jón Jónsson

Fjallahjólaferð HSSR

Þann 6. – 8.september sl. var farið í árlega Fjallahjólaferð HSSR.

013Dagur 1: 26km

Leiðin lá í Úthlíð þar sem byrjað var að hjóla um kvöldmatarleytið. Hjólað var slóða sem liggur austan við Högnhöfða og yfir Hellisskarð um Rótarsand að Hlöðuvöllum í nýuppgerðan skála Ferðafélags Íslands.

Dagur 2: 63km

104

Hjólað var vestan við Hlöðufell að Þórólfsfelli og inn á línuveginn norðan við Skjaldbreið áleiðis að Litla-Brunnavatni þar sem snæddur var hádegisverður. Þaðan var farið inn á Uxahryggjaleið, inn á línuveg við Eiríksvatn, niður Skorradal og meðfram Skorradalsvatni að næsta gististað við Stóra-Drageyri með viðkomu á Vöfflustöðum. Þessi leggur var fljótfarinn enda með mikið meðvind alla leiðina öllum til ómældrar gleði.

Dagur 3:27km

194Þennan dag skipti hópurinn sér niður á tvær leiðir að áfangastað í Leirársveit. Annar hópurinn fór Dragann,  austur Svínadal að Neðra Skarði á meðan hinn hópurinn fór yfir Skarðsheiðina og niður snarbrattar hlíðar Snóksfjall. Leiðin sóttist hægt sökum mikils mótvinds og úrkomu.

Ferðin tókst í alla staði vel og var strax farið að leggja drög að næstu ferð sem farin verður fyrstu helgina í september 2014.

204

Umsóknarfrestur og fyrsta námskeið nýliða

RötunNæstkomandi miðvikudag, 11. september kl. 20 að Malarhöfða 6, verður fyrsta viðburðurinn í þjálfun nýrra nýliða. Það er undirbúningur fyrir námskeiðið Ferðamennska og rötun og verður farið yfir pökkun í bakpoka og önnur nauðsynleg þekkingaratriði. Við minnum á að umsóknarfrestur rennur út að kvöldi þess sama dags. Umsóknum er skilað rafrænt og er slóðin bit.ly/hssr-umsokn-2013.

Um næstu helgi, 13.-15. september, verður fyrsti stóri viðburðurinn fyrir nýliða 2013-15 haldinn, en það er helgarnámskeiðið Ferðamennska og rötun sem haldið verður við Úlfljótsvatn. Þetta er mikilvægt grunnnámskeið sem liggur til grundvallar flestu því sem gerist eftirleiðis í þjálfuninni þannig að áríðandi er að nýliðar mæti þar.

Bæklingur til kynningar nýliðaþjálfun 2013-15 er hér issuu.com/hssr/docs/nylidakynning-2013. Sé frekari upplýsinga þörf er hægt að senda nýliðaforingjum póst á netfangið hssr.nylidar.2013@gmail.com.

Við vonumst til þess að sjá sem flesta í sterkum og öflugum hópi nýliða.

Kynning á nýliðaþjálfun HSSR

Kynningarbæklingur 2013Hjálparsveit skáta í Reykjavík mun halda kynningu á nýliðaþjálfun sveitarinnar nk. þriðjudag 3. september kl. 20 að Malarhöfða 6. Þar verður farið vel yfir alla þætti nýliðastarfsins í máli og myndum og geta gestir fengið þar svör við öllum spurningum sem upp kunna að koma í tengslum við málefnið. Allir sem hafa áhuga á því að kanna hvort nýliðaþjálfun í björgunarsveiti henti þeim eru hvattir til þess að mæta og kynna sér málið.

Kominn er út bæklingur sem inniheldur margvíslegan fróðleik um nýliðastarfið og er hægt að nálgast hann hér.

Hægt er að fylla út umsókn hér: bit.ly/hssr-umsokn-2013. Frekari upplýsingar má fá með pósti á netfangið hssr.nylidar.2013@gmail.com.

Viðbót 4. september kl. 21:20: Fimmtudaginn 5. september verður farið í létta göngu á Helgafell í Hafnarfirði. Væntanlegir nýliðar geta annað tveggja mætt kl. 17:45 á Malarhöfða 6, en þaðan verður lagt af stað með rútu kl. 18 eða mætt beint á bílaplanið við Helgafell, en lagt verður af stað þaðan kl. 18:30. Við vonumst til þess að sjá sem flesta, veður verður með besta móti þannig að þetta verður hin besta skemmtun!

Flugeldar

Flugeldasýning á Menningarnótt

FlugeldarUndanfarna daga hafa skotmeistarar HSSR staðið í ströngu við undirbúning flugeldasýningarinnar á Menningarnótt. Í ár verða nokkrar breytingar gerðar á framkvæmd sýningarinnar, t.d. hvað varðar umfang hennar og því ættu áhorfendur að fá enn meira fyrir sinn snúð en venjulega. Undirbúningur svona sýningar útheimtir mikla vinnu og hafa félagar í HSSR staðið vaktina síðan 16. ágúst. Uppsetning flugeldasýningar af þessari stærðargráðu er mikil nákvæmnisvinna, enda þarf öll framkvæmd að ganga snurðulaust fyrir sig svo útkoman verði góð. Sem betur fer hefur sveitin mikla reynslubolta í sínum röðum sem geta tryggt áhorfendum frábæra skemmtun.

Sýningin, sem er í boði Vodafone, hefst kl. 22:45 við Arnarhól og eru áhugasamir hvattir til þess að mæta tímanlega svo þeir geti notið hennar til fullnustu. Hægt er að lesa meira um framkvæmd sýningarinnar á vef Vodafone.

Inga og Björg

HSSR konur bjarga deginum!

Inga og Björg

Inga og Björg

Þann 12. júní sl. kl. 12:22 barst útkall F1 Rauður vegna slyss í fjalllendi, en tilkynnt hafði verið um einstakling í vanda á Esjunni. Félagar í HSSR brugðust hratt við og tóku tólf þeirra beinan þátt í aðgerðinni í tveimur hópum sem héldu strax áleiðis á vettvang.

Meðal þeirra sem móttóku útkallið voru Björg Guðmundsdóttir og Ingibjörg Markúsdóttir sem fengu réttindi sem fullgildir björgunarmenn í HSSR í vor. Þær voru í venjubundinni heilsubótargöngu á leiðinni upp að Þverfellshorni og voru komnar rúmlega hálfa leið þegar kallið barst. Brugðust þær skjótt við og hlupu við fót áleiðis upp fjallið þar til þær komu á vettvang. Þegar þangað var komið tóku þær strax yfir formlega stjórn og deildu svo með sér verkum. Björg, sem er starfandi hjúkrunarfræðingur, hóf strax að sinna þolandanum og Ingibjörg setti sig í samband við Neyðarlínu til þess að koma á framfæri upplýsingum um framgang á vettvangi. Eftir góða aðhlynningu braggaðist þolandinn sæmilega og gat fljótlega staðið upp. Mátu björgunarkonurnar stöðuna þannig að þær myndu aðstoða hann við að koma sér niður af fjallinu og var hópurinn farinn af stað þegar þyrlusveit Gæslunnar bar að. Þá fóru björgunarkonurnar í þann ham að gera þolandann kláran til flutnings og að taka á móti sigmanni. Gekk sú aðgerð hratt og greiðlega fyrir sig og komst þolandinn fljótt á sjúkrahús.

Félagi í svæðisstjórn á svæði 1 lauk lofsorði á aðkomu okkar kvenna og sagði að viðbrögð þeirra hefðu verið rétt og hefðu þær m.a. komið fljótt á framfæri réttum upplýsingum um staðsetningu vettvangs.

Það er gaman að greina frá því að þetta er í annað skiptið sem Ingibjörg er fyrst björgunarfólks á vettvang á Esjunni því í vetur lenti hún í álíka kringumstæðum. Því er ljóst að það eru töggur í nýjustu liðsmönnum Hjálparsveitar skáta í Reykjavík!

Landsþing Landsbjargar

Haukur tekur við nýjum kortagrunni frá Marteini S. á Landsþinginu á Akureyri

Haukur tekur við nýjum kortagrunni frá Marteini S. á Landsþinginu á Akureyri

Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar var haldið á Akureyri fyrir stuttu. Þetta var nokkuð friðsælt þing, farið var yfir skýrslu stjórnar, reikninga og unnið var með framtíðarsýn. Það var ánægjulegt að sjá að jafnvægi virðist vera að komast á rekstur þrátt fyrir minnkandi tekjur. Stjórn var að mestu endurkjörinn, Hörður Már verður formaður áfram en nýliðar í stjórn eru Leonard Birgisson frá Súlum Akureyri og Þorvaldur Friðrik Hallsson Ársæl Reykjavík. Fulltrúar stjórnar HSSR á þinginu voru Kristjón, Sigþóra, Þorbjörg og Haukur. Auk þess tók lið frá okkur þátt í Björgunarleikunum og stóð sig vel. Einnig tókum við þátt í blönduðu liði.

Continue reading

Bakvarðasveitin

Bakvarðasveitin

Við minnum á skemmtilega sjónvarpsdagskrá sem hefst í kvöld kl. 19.40 á Rúv þar sem fjallað verður um björgunarstarf á Íslandi frá ýmsum sjónarhornum. Hverjir eru í björgunarsveitunum og hvað gerir þetta fólk? Þessum spurningum og mörgum öðrum verður svarað í kvöld í skemmtilegum fróðleiksmolum í bland við drama, grín og spennu.

Megin tilgangurinn með þessari dagskrá er þó sá að fá fólk í Bakvarðasveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem styður við starfið með reglulegum fjárframlögum. Annríki í starfi björgunarsveita hefur aukist á undanförnum árum og þess vegna er nauðsynlegt að sem flestir gangi til liðs við Bakvarðasveitina og leggi sitt lóð á vogarskálarnar.

Útkall F2 gulur

Útkall F2 gulur, týndur einstaklingur á höfuðborgarsvæðinu

Útkall F2 gulurSveitin var boðuð út til leitar að týndum einstaklingi á höfuðborgarsvæðinu rétt fyrir hádegi í dag, föstudaginn 12. apríl. Aðgerðin hefur verið umfangsmikil og voru allar sveitir á höfuðborgarsvæðinu boðaðar auk sveita frá svæðum 2 og 4. Yfir 50 félagar í HSSR hafa tekið þátt í leitinni í dag. Leit verður haldið áfram á morgun, laugardag og hafa yfir 20 félagar boðað komu sína. Tjald sveitarinnar var einnig verið notað í aðgerðinni í dag og verður sett upp á morgun.