Kirkjufell við Grundarfjörð

Kirkjufell við Grundarfjörð er einstaklega formfagurt og tignarlegt þar sem það stendur nánast í flæðarmálinu og gnæfir 463 m yfir sjó. Glaðbeittur, 11 manna hópur frá HSSR, gekk á fjallið sunnudaginn 7.7. s.l.

Kirkjufell er nokkuð bratt, einkum þegar komið er upp í u.þ.b. 300 m hæð. Leiðin liggur á köflum í sikk sakk til að elta uppi þægilegustu leiðina um klettabeltin en kaðlar eru á þremur stöðum til að auðvelda uppgönguna. Nokkuð hvasst var á uppleið en vindurinn stóð í bakið. Þegar upp var komið var nánast logn – brúnalogn – og útsýni ægifagurt um nágrennið. Einfalt var að fara niður, öfugt við það sem maður hefði haldið í byrjun. En bratt er Kirkjufellið og það reif í lærin á niðurgöngunni.

Áður en lagt var á fjallið ráðfærðum við okkur við bóndann á Hálsi um leiðarval. Annað er glapræði.