Category Archives: Fréttir

HSSR félagi á fjallgönguskóla í Patagóníu

Birgir Blöndahl í Undanrennum er nú farinn til Patagoniu í Chile þar sem hann er að byrja á sex vikna námskeiði hjá fjallamennskuskóla í suður Chile (http://mountaineeringtrainingschool.com/ ). Námskeiðið byrjar í byggð þar sem verið er að undirbúa ferðina inn á jökul. Á miðvikudag fer hann inn á jökul og verður samfleytt þar í fimm og hálfa viku í tjaldi og snjóhúsum. Nemendur í hópnum eru 6 – 8 auk fjögurra leiðbeinenda. Námskeiðið felst í fjalla- og ferðamennsku við krefjandi aðstæður þar sem markmiðið er meðal annars að gera þátttakendur hæfari í að leiða og skipuleggja fjallaferðir auk þess að gera þátttakendur hæfari í að bjarga sér og öðrum við erfiðar aðstæður. HSSR veitir styrk til ferðarinnar þar sem öll slík reynsla og þekking er kærkominn inn í starfið hér heima.

Upphafsstaður námskeiðsins er Coihaique í suður Chile.

—————-
Texti m. mynd: Á leið á Hrútfjallstinda
Höfundur: Arngrímur Blöndahl

Tvö námskeið á Úlfljótsvatni

Tvö stór námskeið voru haldin um helgina að Úlfljótsvatni. Þar voru annars vegar 30 nýliðar 1 á sínu fyrsta námskeiði að læra rötun og svo hins vegar um 20 nýliðar 2 að læra leitartækni. Með leiðbeinendum, aðstoðarfólki og framúrskarandi kokkaliði sveitarinnar voru þetta alls um 70 manns. Vel heppnuð námskeið sem voru keyrð áfram að mestu leyti af sama fólki og hafði staðið vaktina fyrir norðan dagana á undan eftir óveðurshvellinn þar!

—————-
Texti m. mynd: Áttavitastefnur teknar af korti á rötarnámskeiðinu
Höfundur: Einar Ragnar Sigurðsson

SAREX 2012

Í fyrradag settum við upp búðir fyrir danska greiningasveit í Mestervig á Grænlandi og aðstöðu fyrir stjórnstöð á eyjunni Elle sem er 80 km innar í firðinum þar sem Mestersvig er staðsett. Síðustu tvo daga höfum við síðan séð um að halda búðunum í gangi og aðstoða Danina við hin ýmsu verkefni. Í gær voru búðirnar í Elle teknar niður og fluttar um borð í varðskipið Þór. Í morgun var síðan síðasti hluti búðanna í Mestersvig tekinn niður, fluttur landleiðina til Nyhave þar sem mest af honum fór í báta og út í skip. Þyngstu hlutirnir, s.s. Trelleborgartjöldin, stóra rafstöðin, hitarinn, kerran og fjórhjól þeirra Suðurnesjamanna voru fluttir með þyrlu frá dönsku varðskipi út í Þór. Nú er allur hópurinn kominn um borð í Þór sem hefur tekið stefnuna á Ísland. Við erum mjög sátt og reynslunni ríkari.

Kveðja frá Grænlandsförum

PS Myndir verða að bíða heimkomu.

—————-
Höfundur: Svava Ólafsdóttir

SAREX 2012

Í nótt kl 4:00 fór fríður hópur úr búðahóp HSSR ásamt félögum í Björgunarsveit Hafnarfjarðar og Björgunarsveitinni Suðurnes með danskri Hercules C130 herflugvél til Grænlands að taka þátt í æfingunni SAREX 2012.

Nánar má lesa um æfinguna á heimasíðu SL

Það verður spennandi að fylgjast með félögum okkar í Grænlandi.

—————-
Texti m. mynd: Hercules vél danska hersins hlaðin
Höfundur: Hilmar Már Aðalsteinsson

Boli í klössun

Nú er verið að fara yfir Bola fyrir komandi vetur. Ein afleiðing af ösku á jökli er aukið viðhald á slitflötum í undirvagni. Nú er verið að skipta um þéttingar í drifás, samsláttarpúða auk þess að nokkrar glussaslöngur verða endurnýjaðar. Eftir áramót er svo gert ráð fyrir að skipta um fjaðrir undir Bola. Þar er nokkuð kostnaðarsöm aðgerð, innkaupsverð á þeim er um 850.000.

Gert er ráð fyrir að því viðhaldi sem nú er verið að sinna verði lokið fyrir 20. september

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Fjölgar á útkallsskrá

Nýlega stóðust Hneta og Stefan B-próf á Neskaupsstað og eru því komin sem teymi á útkallsskrá hjá Leitarhundum. Fyrir eru þar frá HSSR Slaufa og Berglind þannig að nú á HSSR tvö teymi á útkallsskrá. Glæsilegur árangur og skemmtileg þróun.

—————-
Texti m. mynd: Stefan og Hneta að loknu prófi
Höfundur: Haukur Harðarson

Umsóknarfrestur nýliða HSSR er til 11. september

Nýliðastarf HSSR sem er að hefjast var kynnt þriðjudaginn 4. september. Fyrst á dagskrá hjá verðandi nýliðum er kynningarferð á Helgafell. Mæting á Malarhöfða 6 kl. 17:45 og brottför kl. 18:00.

Kynninguna má sjá hér: http://eirasi.net/nylidakynning2012.pdf

og nýliðabæklinginn má nálgast hér: http://issuu.com/olijon/docs/hssr-nylidar-2012

Skráningarform er hér: https://hssr.is/images/gogn/ALM_0905_1607_50_1.pdf

Fyrsta námskeiðið er þriðjudag 11. september kl. 20:00 þar sem farið verður í búnað sem er nauðsynlegur á fjöllum. Þá rennur einnig út frestur til að sækja um í nýliðastarfinu sem er að hefjast.

—————-
Höfundur: Einar Ragnar Sigurðsson

SAREX 2012

Dagana 12.-16. september mun búðahópur HSSR taka þátt í SAREX 2012, stórri samæfingu margra þjóða í Meistaravík á Grænlandi. Æfð verða viðbrögð við því ef stórt skemmtiferðaskip strandar við austurströnd Grænlands, nánar tiltekið Ella-eyju. Leki kemur að skipinu og fjöldi smáelda kvikna, en skipið flýtur og heldur kili. Verkefni búðahóps verður að setja upp og starfrækja búðir fyrir aðra björgunaraðila í æfingunni.
Þátttakendur frá Íslandi, auk HSSR, eru Björgunarsveit Hafnarfjarðar og Björgunarsveitin Suðurnes. Aðrar þátttökuþjóðir eru Grænland, Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Færeyjar, Bandaríkin og Kanada, en þær eiga sammerkt að eiga hagsmuna að gæta á norðurskautinu.
Flogið verður utan með C-130 þungaflutningavél frá bandaríska landhernum og komið til baka með varðskipinu Þór.

—————-
Texti m. mynd: SAREX 2012
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson

Línubrú á Höfðatorgi

Undanfararnir bjuggu til línubrú frá toppi Höfðaturns niður á jörðu á Menningarnótt. Er þetta í þriðja skiptið sem þessi sýning er haldin og heppnaðist hún að öllu leyti vel.
Oft er talað um að það sé kalt á toppnum en það átti ekki við í þetta skiptið því að svo heitt var á toppi Höfðaturns að föt fengu að fjúka!

Við þökkum aðstandendum Höfðatorgs kærlega fyrir að fá okkur í þetta skemmtilega verkefni.

—————-
Höfundur: Hanna Lilja Jónasdóttir

Hálendisvakt norðan Vatnajökuls 2012

HSSR mannaði tvær vaktir í Hálendisvakt þetta sumar. Svæðið norðan Vatnajökuls varð fyrir valinu og var sveitin við störf á tímabilinu frá 27. júlí til 10. ágúst. Samtals tóku átta félagar þátt í Hálendisvakt að þessu sinni.
Verkefnin voru margbreytileg. Lindaáin við Herðubreiðarlindir var nokkuð fastur punktur í dagskrá fyrri vaktarinnar, en Jökulsá á Fjöllum flæddi töluvert oft yfir bakka sína og yfir í hana með tilheyrandi aukningu á vatnsmagni. Fjöldi annarra úrlausnarefna beið einnig björgunarfólks og má þar nefna vandamál tengd hjólbörðum, bremsukerfum, viftureimum og hverju því sem þarf að vera í lagi svo bíllinn gangi vel. Þá var vaktfólk til taks að aðstoða og leiðbeina ferðafólki um leiðarval og hefur sú aðstoð örugglega leitt af sér fækkun slysa og óhappa.
Akstur um svæðið er hluti af verkefnum Hálendisvaktar og var víða farið. Meðal annars voru Dyngjafjalla- og Gæsavatnaleiðir eknar með viðkomu í skálanum við Kistufell þegar púlsinn var tekinn á stöðunni á Sprengisandi. Farið var í Hvannalindir, Kverkfjöll og víðar, en líklega hefur vaktfólk ekið um 2.500 kílómetra á tímabilinu.
HSSR vill koma á framfæri innilegu þakklæti til skálavarða og landvarða sem vaktfólk komst í tæri við, en þeir voru ætíð ráðagóðir og fljótir til verka ef eitthvað bjátaði á. Þá var aðstaða björgunarfólks í Drekagili prýðileg. Einnig er rétt að geta þess að þjónustufólk á Mývatni sýndi mikla lipurð í viðleitni sinni til þess að koma ferðafólki í vanda til hjálpar. Fólk kemur sannarlega ekki að tómum kofunum þegar Mývetningar eru sóttir heim!
Og þá er rétt að geta þess að Björgunarsveitin Stefán fær sérstakar þakkir fyrir kærkomna aðstoð þegar mest lá við, en þar er hvert rúm skipað úrvals góðu fólki. Það var HSSR fólki t.d. mikið ánægjuefni að hitta tvo félaga sem flust hafa búferlum norður og gengið til liðs við þessa góðu björgunarsveit.
Hjálparsveit skáta í Reykjavík hefur staðið Hálendisvakt frá því að til hennar var stofnað og er engin ástæða til að ætla annað en að hún muni svara kallinu að ári. Í þessu verkefni sameinast tækifæri til þess að láta gott af sér leiða og til þess að kynnast betur þeim náttúruperlum sem hálendi Íslands hefur upp á að bjóða.

—————-
Texti m. mynd: Eygló, landvörður í Hvannalindum, bruggar te.
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson