Category Archives: Fréttir

Kynning á nýliðastarfi HSSR

ER1_8104
Þriðjudaginn 2. september heldur HSSR kynningarfund á nýliðastarfi sínu sem byrjar nú í september. Nýliðaþjálfunin er fyrir alla þá sem hafa áhuga á að taka þátt í starfi björgunarsveita og hafa áhuga á útivist.

Kynningarfundurinn hefst klukkan 20:00 og er haldinn í húsnæði sveitarinnar á Malarhöfða 6. Miðað er við að félagar á fyrsta ári séu fæddir 1996 eða fyrr.

Stofnun samtaka hollra vina eða bakhjarla HSSR

Stjórn HSSR boðar til fundar um stofnun samtaka hollra vina eða bakhjarla HSSR, og eru allir sem hafa einhvern tíma verið félagar, eða eru félagar velkomnir á fundinn sem verður haldinn;

í húsnæði HSSR að Malarhöfða 6, miðvikudaginn 17.september  2014  kl 20:00.

Vorið 2013 ákvað stjórn HSSR að hefja vinnu sem miðaði að því að ná saman á einn stað  nöfnum sem flestra félaga, sem einhvern tíma hafa starfað innan vébanda HSSR.

Stjórn sveitarinnar vill með þessu  reyna að endurnýja sambandið við gamla félaga sveitarinnar og stuðla að endurnýjuðum kynnum meðal  gamalla félaga, með það að markmiði að úr geti orðið einhverskonar hollvinasamtök vina eða bakhjarla, hópur eldri og reyndari félaga sem getur stutt við starfsemi HSSR með margvíslegu móti.

Undirbúningsnefndin hefur unnið talsvert starf við að samræma ýmsa félagalista og finna frekari upplýsingar um hvern og einn, eins og t.d. netföng. Nú er búið að skrá á nýjan lista milli 600 og 700 félaga, en þar af er u.þ.b. helmingurinn enn  skráður á einhverskonar félagalista innan HSSR.

Stefnt er að því að samtökin verði málefnamiðuð samtök sem taki að sér ýmiskonar vinnu við málefni sem hinir starfandi félagar eru ekki að sinna, en koma HSSR til góða.

Hugmyndin er að á fundinum verði kosin 5-7 manna stjórn samantakanna til 2-3 ára. Stjórnin verði ábyrg gagnvart stjórn HSSR og gefur henni stutta skýrslu um starfsemi samtakanna í lok hvers árs.

Undirbúningshópurinn telur áríðandi að halda starfseminni eins einfaldri og helst skemmtilegri, þannig að reyna megi eftir megni að endurupplifa „ævintýrið“ að vera félagi í hjáparsveit, og gera í leiðinni „gömlu sveitinni“ sinni eitthvert gagn.

Stjórn Hjálparsveitar skáta í Reykjavík óskar sérstaklega eftir að SJÁ ÞIG á fundinum, og vonar að ÞÚ getir áfram átt gott samstarf með gömlum og nýjum félögum innan HSSR.

Nánari upplýsingar um fundinn verða sendar út í byrjun september.

Þeir sem vilja geta sent upplýsingar um netfang sitt á bensi.grondal@simnet.is

f.h. undirbúningshópsins:

Benedikt Þ Gröndal

Eggert Lárusson

Laufey Gissurardóttir

Hópferð á björgunarráðstefnu í New Jersey í Bandaríkjunum.

Björgunarskóli SL stóð fyrir hópferð á sameiginlega ráðstefnu MRA (Mountain Rescue Association) og NASAR (National Associaton for Search and Rescue) sem haldin var í New Jersey í Bandaríkjunum dagana 5.-7. júní sl.
Fyrir tveimur árum síðan skipulagði SL hópferð á WASAR ráðstefnuna í Washington fylki Bandaríkjanna og skemmst er frá því að segja að færri komust að en vildu og ferðalangar voru almennt mjög ánægðir með ferðina. Þess vegna var ákveðið að slá saman í aðra ferð. Í þetta skiptið var stefnan tekin á New Jersey á austurströnd Bandaríkjanna. Ráðstefnan fór fram í bæ sem heitir Woodcliff Lake í New Jersey en bærinn er í um það bil 5o mínútna fjarlægð frá Manhattan eyju New York borgar.

Þátttakendur frá Íslandi voru alls 34, frá björgunarsveitum víðs vegar að frá landinu.
Fimm björgunarmenn frá HSSR tóku þátt að þessu sinni. 

Þetta er í annað skipti sem að NASAR og MRA halda sameiginlega ráðstefnu en björgunarmenn frá Íslandi hafa oft sótt ráðstefnu NASAR í gegnum tíðina enda góð og umfangsmikil ráðstefna. Dagana fyrir ráðstefnuna voru einnig haldin námskeið fyrir þá sem höfðu áhuga á þeim.
Tóku flestir íslensku þátttakendurnir þátt í 1-2 heildagsnámskeiðum fyrir sjálfa ráðstefnuna og var m.a. stór hópur sem sat 8 tíma námskeið í Urban Search Management eða Aðgerðarstjórnun í innanbæjarleit.

Á sjálfri ráðstefnunni voru ýmsir 1 – 2 klst. fyrirlestrar í boði.
Sem dæmi má nefna; sporrakningar, fjallabjörgun, línuvinna, slysaförðun, leitartækni, aðgerðarstjórnun, snjóflóðahætta, samskipti við aðstandendur, fyrstu viðbrög í leit og björgun, viðtalstækni fyrir björgunarmenn/aðgerðarstjórnendur og svona mætti lengi telja.

Var það samdóma álit flestra þátttekenda að ráðstefnan hefði verið í alla staði mjög lærdómsrík og að  íslenskir björgunarmenn ættu fullt erindi á slíka viðburði erlendis.

Hópurinn samankominn fyrir framan hótelið 🙂
NASAR 2014

 

 

Búðahópur HSSR á Modex 2014

Í gær fór búðahópur HSSR til Danmörku til að taka þátt í MODEX 2014 sem hluti af Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni (ÍA).
MODEX er æfing á vegum Evrópusambansins í almannavörunumum (The Union Civil Protection Mechanism) þar sem æfð verða viðbrögð við nátturhamförum og mikil áheyrsla lögð á samstarf á milli þjóða.  Á æfingunni mun ÍA einnig fara í gegnum endurúttekt hjá INSARAG sem eru reghlífasamtök rústabjörgunarsveita hjá Sameinuðuþjóðunum, en sveitin þarf að fara í endurúttekt hjá UN á 5 ára fresti.
Á æfingunni verða einnig rústasveitir frá Svíþjóð og Ítalíu, ásamt TASK sveit frá Þýskalandi. Danish Emergency Management Agency (DEMA) sér um framkvæmd æfingunnar og fer hún fram á æfingasvæðinu í Tvingle í Danmörku.  Þátttaka ÍA á æfingunni er kostuð af Evrópusambandinu.

Svava Ólafsdóttir.

Öræfajökull helgina 9. – 11. maí sl.

Á föstudagseftirmiðdegi lagði lítill hópur frá M6 austur á land með stefnu á Skaftafell. Umtalsverð afföll höfðu orðið vegna veikinda þessa síðustu daga fyrir brottför, en hópurinn varð bara einbeittari í ferðagleðinni fyrir vikið. Spár voru ágætar en höfðu samt verið nokkuð á flakki síðustu daga, og þó svo að Belgingur væri farinn að spá einmuna blíðu á sunnudaginn um það leyti sem við komum austur var ákveðið að halda striki og leggja í‘ann þá um nóttina.
Á leiðinni austur hittum við góða félaga, en þeir Örvar, Ævar, Höskuldur og Pétur voru einmitt á leið austur að stýra FÍ ferð á Hrútfellstinda, og höfðu sömu ferðaáætlanir og við.
Við komum síðla í Skaftafell, reistum tjöld, fengum okkur bita og lögðum okkur í einn og hálfan tíma. Þá var ræst í göngu. Lagt var uppfrá Sandfelli rétt uppúr eitt um nóttina. Veður var milt og stillt framanaf og er birti af degi, um það bil sem við vorum komin í línu, var fjallasýnin hreint yndisleg.
0118370367e9252b8da88ecdc8b2ce4e723712ae85

Brekkugöngutangó

Færið var eilítið blautt neðst í brekkunni en fljótlega tók við nokkuð velfrosin fokskel sem hélt flestum, nema fyrsta og síðasta manni sem ávallt stigu niðurúr þekjunni. Var göngulínan því nokkuð sérkennileg álengdar þar sem öll línan gekk svo sem meter til hliðar af nýsporaðri gönguleið, markeraðri af fremsta manni, og tiplaði þar eftir óbrotinni fönninni svo varla markaði fyrir.
Blessunarlega styrktist skelin þegar ofar dró svo það fengu allir að skauta á yfirborðinu, en samhliða kólnaði eilítið og tók að hreyfa vind. Fljótlega eftir að við náðum að sjá takmarkinu bregða fyrir, þar sem Hnjúkinn bar við heiðan, bláan himinn, byrjaði að mugga og skýjaslæður lögðust yfir okkur í síðustu brekkunni uppá skálarbarm.

Skálarskán

Sjálf skálin var ekki svo erfið yfirferðar þó eitthvað væri aftur stigið niður úr snjónum. Skyggnið varð reyndar sífellt minna en svo bar við að við sáum tjöld álengdar norðan við uppstigið sem við ákváðum að kanna betur, svona til öryggis. Er við komum nær var ljóst að þarna voru vel uppsettar búðir skíðamanna og okkur datt í hug að þarna gætu Flubbar verið á ferð. Við sannreyndum það reyndar ekki, heldur ákváðum að halda beinustu leið og sjá hvort við kæmumst a.m.k. ekki uppfyrir þann punkt þar sem snúið var við í fyrra, því er hér var komið var sögu var farið að blása nokkuð hressilega og skyggnið dottið niður í nokkur hundruð metra.
Við höfðum haft af því spurnir að vikuna áður hefðu allar sprungur verið vel fylltar og harðfenni yfir öllu.  Við vonuðum að það væri enn færið, skelltum okkur á broddana og héldum á brattann. Greinilegt var að eitthvað hafði tekið upp af snjónum því sprungur voru hálffylltar en markaði samt ágætlega fyrir þeim. Töluvert frauð var líka í yfirborðinu.
0122d8b5a3a63697b20dec15d2841ad799ac24e392015734738e20c997690a83c225808d2d4856c044a1

15 metrar (bæði skyggni og blástur)

Fyrsta kastið gekk nokkuð vel en er ofar dró, brattinn jókst á sama sama tíma og skyggnið minnkaði og bætti í vindinn, var eiginlega útséð um þessa ferð. Þegar kom loks að því að skáskera eina brekkuna í um 15m/s vindi, í 10-15 metra skyggni, var komið að því að taka ákvörðun og snúa við.
Voru allir afar sáttir við þá ákvörðun, og þó enginn hafi enn verið orðinn eitthvað mikið þreyttur á sinni, þá létti yfir mannskapnum sem gladdist verðskuldað yfir að hafa náð þetta langt við afar krefjandi aðstæður. Veitti ekkert af þessu góða skapi næsta hálftímann þegar við reyndum að þræða okkur niður til baka. Tóku GPS tækin uppá undarlegum uppátækjum (sem skilaði að lokum hæsta punkti 2237m! úr einni slóðinni), sem  truflaði okkur aðeins en ekki meira en svo að heil á höldnu komumst við niður í skálina aftur, sem var eins gott því við misstum Birnu einu sinni hálfa niður í myndarlega sprungu sem var aðeins hulin fremur þunnri skel.
Leiðin niður var svo lítt eftirminnileg, eins og svo oft; stigin algerri hvítu og sí-blautari snjó. Það var samt enn glaður og sprækur hópur sem skilaði sér í bíl, sumir eftir eilítinn auka útsýnishring um Sandfellið.01505af40bc88d8e2d6a715cd8099571346bde0464

Á sama tíma að  ári

Við fórum flest snemma í bælið, eftir yndislega grillveislu, og sum hver strax farin að skipuleggja næsta könnunarleiðangur að ári: Verður áherslan þá færð af Öræfajökli á Hvannadalshnjúkinn sjálfan, sem hefur verið látinn liggja milli hluta hingað til.

Stefán Baldur Árnason

E.s. Leiðangursmenn þakka Kristni sérstakleg fyrir Mary-Poppins atriðið í tjaldbúðunum. Það mun lifa lengi með okkur.

 

 

Gönguskíðaferð HSSR yfir Langjökul 22.-23. mars.

Eftir margrómaða æfingaferð inn í Landmannalaugar í Febrúar var stefnan tekin á þverun Langjökuls.

Við leiðarval var stuðst við jöklasprungukort Landsbjargar, spjall við aðila sem þekkja svæðið, og hvernig best væri að komast að og frá jökli á 38“ breyttum bílum.

Plan A og B sprungurÁ korti má sjá leiðarval: “Plan A og B”, fylgdum bláu að hábungu og þeirri rauðu niður að Skálpanesi.

Áætlað var að leggja af stað úr bænum á föstudagskvöld og tjalda við rætur jökulsins þá um kvöldið, en vegna mjög slæms veðurs á föstudagskvöld var stefnan sett að Jaka snemma á laugardagsmorgni. Farið var í skíðin ca. 1 km norðan við skálann Jaka og stefnt í suðaustur í átt að náttstað. Gangan gekk vel og allir í góðum gír, færið vel ásættanlegt og sóttist ferðin vel þó flestir væru með púlkur eða snjóþotur í eftirdragi. Skyggni var ágætt til að byrja með en var frekar lítið þegar á leið daginn en birti þó upp síðdegis og blöstu Kerlingarfjöll, Bláfell, Hekla og Jarlhettur við göngumönnum og konum.

DSC09318

Ákveðið var að ganga rösklega til kl. 18 og koma upp tjaldbúðum á þeim tímapunkti. Endaði dagurinn í 25km göngu og allir vel sáttir með gott dagsverk í 1220m hæð yfir sjávarmáli. Slegið var upp búðum og hafist við að bræða snjó til að halda við vatnsbirgðum ,elda matinn og hella uppá kaffi.  Gengið var til náða um kl.10 og farið að heyrast hrotur úr nokkrum tjöldum fljótlega eftir það.

DSC09340      043

Á sunnudeginum var ræs kl. 7 og hafist handa við að elda morgunmat, bræða snjó, taka til tjöld og koma sér í skíðin í fimbulkulda og roki.  Ferðin niður að skálpanesi sóttist frekar hægt sökum slæms skyggnis m.a. En allt gekk þetta að lokum og var komið að skálanum við Geldingafell um kl. 15.00 eftir 20km göngu þann daginn.

035

Myndir:  Tomasz Chrapek og Kjartan Long

 

Fagnámskeið í leitartækni

Fagnámskeið í leitartækni var haldið í húsnæði Hjálparsveitar skáta í Reykjavík
dagana 27. – 30. mars sl.
Leiðbeinendur voru Sigurður Ó. Sigurðsson og Einar Eysteinsson hjá Björgunarskóla SL.

Mættu alls 8 björgunarmenn, víðsvegar frá höfðuborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum.
Á námskeiðinu var rifjað upp námsefni grunnnámskeiðsins; fjallað um leitarfræðin, líkindi, leitarsvið, hegðun týndra, sporrakningar, leitaraðferðir, stjórnun leitaraðgerða kynnt, fjallað um eldri aðgerðir og lært af þeim og fjallað um það nýjasta sem er á baugi í leitartækni hverju sinni.
Var námskeiðið þannig uppbyggt að fyrir hádegi var kennt inni en eftir hádegi var farið út að leika 🙂
Var m.a. æfð hraðleit, svæðisleit, sporaleit, vísbendingaleit, fínleit og hljóðaleit.

Námskeiðið var í alla staði mjög fræðandi og lærdómsríkt en ekki síst tókst því að skapa góðan
samræðugrundvöll fyrir okkur sem komum úr mismunandi sveitum til að miðla þekkingu og reynslu okkar á  milli.

Hér er hópurinn samankomin eftir lokaæfinguna á sunnudeginum 🙂
_MG_6116

Fjórtán nýir félagar skrifa undir eiðstaf HSSR

Á sveitarfundi þann 25. mars sl. skrifuðu fjórtán nýir félagar undir eiðstaf HSSR.
Þetta eru :
Arngrímur Einarsson
Benedikt Þorgilsson
Christina Stadler
Davíð Oddsson
Guðrún Hrund Jónsdóttir
Hilmar Bergmann
Ingi B. Paulsen
Kári Brynjarsson
Magnús Blöndal
Ómar Haraldsson
Ragnhildur Kr. Einarsdóttir
Sigurður Bjarki Rúnarsson
Valgerður Gestsdóttir
Þór Örn Flygengring

Við bjóðum þau hjartanlega velkomin og óskum þeim velfarnaðar í starfi hjá HSSR.

Nýir félagar 🙂
Nýinngengnir mars 2014

Gönguskíðaferð Eftirbáta 13. -16. mars sl.

Sigölda, um Landmannahelli, Dalakofa, Hungurfit í Keldur.

 Síðastliðinn fimmtudag lögðu sex Eftirbátar af stað í fjögurra daga gönguskíðaferð með púlkur í eftirdragi frá Sigöldu. Eiríkur Karlsson Dropi sá um að skutla hópnum í Sigöldu og eftir smá festu á Ásnum í Sigöldu skildu leiðir og hópurinn lagði af stað frá virkjuninni í mótvindi og fjúki. Þegar komið var inn á sléttuna handan við Sigöldu var vindur á hlið. Dagurinn leið í éljagangi og skafrenning þar sem við gengum um Dyngjuskarð og yfir Löðmundarvatn og enduðum í Landmannahelli þar sem gist var í fínum skála. Um kvöldið buðu Hilmar og Sigrún upp á pönnusteiktar svínalundir í rjómasósu. Fyrsta dagleiðin var var 20 km og 7 tímar.
Eftibátar gönguskíði marsÁ degi tvö var lagt í hann í ágætis veðri og þokkalegu skyggni með hægan vind á hlið, ferðinni var heitið í Dalakofa við upptök Markarfljóts. Mesta hækkun ferðarinnar var þennan dag upp Pokahrygginn á skinnum eða liðlega þrjúhundruð metra beina hækkum með einhverri viðbótarhækkun þegar öll gil eru talin. Þetta var léttasti dagur ferðarinnar þó um tíma þegar klifrað var upp úr einu gilinu héldu Sigrún og Addi að þau væru komin alpiníkst klifurnámskeið við að elta Hilmar upp eina snjóbrekkuna, og alltaf fylgdu púlkurnar. Þennan dag vorum við 6 tíma á ferðinni og höfðum þá lagt 16 km baki. Fengum fína hvíld í Dalkofanum í samneyti við jeppamenn á leiðinni í Landmannahelli.

Þriðji dagur rann upp með slydduhríð sem breyttist í rigningu og hífandi sunnanroki á með við vorum að borða morgunmatinn, en þennan dag skyldi haldið í Hungurfit. Skálafélagar okkar, jeppahópur á leið í Landmannahelli,  fannst í meira lagi athyglisvert að við skyldu ætla að fara af stað í þessu vatnsveðri og roki og spurðu hvort þeir ættu ekki bara að skutla okkur. Það var sama og þegið og var þrammað af stað þrátt fyrir beljandi rigningu og rok. Veðrið reyndist enn verra en það leit út um morguninn og þegar verst lét sýndu vindmælar 18 – 19 m/s á móti og nokkuð örugglega eitthvað meira í hviðum. Þrátt fyrir þetta var ekkert annað að gera en að berjast á móti sunnanrigningunni. Eftir erfiðan níu tíma dag þar sem 20 km lágu að baki komu við loks í skálana í Hungurfit. Samkvæmt plani ætluðum við að vera í gömlum óupphituðum bragga í Hungurfit en vorum svo heppinn að fá inni í nýjum og glæsilegum skála Fitjamanna með öllum þægindum eftir þetta slark. Þetta var óneitanlega kærkomið þar sem hluti hópsins hefði ekki verið blautari og kaldari þó hann hefði verið á sundi í Rángá sem við gátum reyndar krossað á snjó.
Eftirbátar gönguskíði mars 2                                                   Eftirbátar gönguskíði mars 1

Á síðasta degi var ætlunin að labba á móti bílunum áleiðis niður að Keldum. Þar sem spáð var talsvert stífri vestanátt og útlit fyrir fremur hæga yfirferð var ákveðið að Patrol og nýji Hiluxinn kæmu á móti okkur. Eftir að hafa labbað á skinnum alla leið frá skálanum komu þeir Helgi Rúnar og Danni á móti okkur ofan við Hafrafell  þegar klukkan var farin að halla í þrjú. En þá vorum við búin að vera tæplega fimm tíma á ferðinni með stoppum og aðeins lagt 11 km að baki.

Að lokum er óhætt að segja að ferðin hafi reynt talsvert á jafnt búnað sem og þátttakendur. Með samstilltu átaki gekk túrinn vel fyrir sig og eftir áætlun þrátt fyrir bilanir í bindingum og fl.

Kærar þakkir til bílstjóra og annarra sem voru með okkur í þessu.

Eftirbátar á fjallabaki

Eftirbátar gönguskíði mars 3

 

Snjóhúsaferð N2

Árla laugardags fóru 9 nýliðar og 1 leiðbeinandi í snjóhúsaferð í Innstadal í Henglinum – einhverjir á gönguskíðum aðrir fótgangandi. Grafin voru 5 snjóhús og gist ein nótt.
Ferðin fram og tilbaka gekk frekar hægt vegna færðar, bæði blautur og þungur snjór og skyggni ekki eins og best var á kosið.
Allt gekk þetta þó að lokum og allur hópurinn var kominn á M6 síðla sunnudags.

Hér er hópurinn, klár fyrir heimferð á sunnudeginum.
027 (1)