Category Archives: Útköll

Þakkir til björgunarfólks á Skessuhorni.

Þakka ykkur öllum af öllu hjarta fyrir ykkar frábæra starf við björgun okkar á Skessuhorn þann 28 mars s.l. er ein úr hópnum féll og slasaðist.

Aldrei hef ég kynnst eins miklum velvilja, hjálpsemi og umhyggju eins og okkur var sýnd. Því mun ég aldrei gleyma. Vonandi fer allt vel og hún nái sér að fullu og gangi aftur á fjöll.

Heill og hamingja verði yfir ykkur og ykkar starfi.

Bestu kveðjur, Soffia R Gestsd.

—————-
Höfundur: Örn Guðmundsson

Útkall í Skessuhorn

Félagar HSSR fóru í útkall í Skessuhorn til aðstoðar við að ná í konu sem hafði slasast í fjallinu. Um var að ræða bæði undanfarahóp og tækjahóp á vélsleðum og snjóbíl. Alls tóku 17 félagar þátt í aðgerðum.

—————-
Texti m. mynd: Slasaða konan borin úr snjóbíl yfir í TF-GNA
Höfundur: Jónína Birgisdóttir

Leitir.

Nú á fjórða tímanum aðfaranótt sunnudags voru sérhæfir leitamenn kallaðir út til leitar að manni í Grafarholti. Leit var afturkölluð skömmu eftir að hópur HSSR fór úr húsi.

Þá var leit að Aldísi Westergren framhaldið á laugardagsmorgun. Lík Aldísar fannst skömmu fyrir hádegi í Langavatni. 10 HSSR félagar tóku þátt í leitinni.

—————-
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Óveðursaðstoð á Hellisheiði og í þrengslum

Reykur 1 var sendur um klukkan 23 (þann 13) á Hellisheiði og að þrengslavegamótum til aðstoðar við fólk sem er þar fast á bílum sínum. Mjög slæmt veður er á heiðinni og margir í vandræðum vegna þess. Mjög blint er, skyggni minna en fimm metrar, hiti -2°C, vindur ANA 20 metrar og hviður allt upp í 27 metra með mikilli ofankomu. Fólk verður selflutt að Litlu Kaffistofunni og síðan áfram í Bæinn eða austur eftir því sem við á hverju sinni. Vegurinn yfir heiðina er lokaður við Rauðavatn þegar þetta er ritað.

—————-
Höfundur: Helgi Reynisson

Útkall í Þverfellshorn á laugardagskvöld.

HSSR félagar, þyrlusveit gæslunnar og aðrir björgunarsveitarmenn af höfuðborgarsvæðinu fóru til aðstoðar slösuðum göngumanni í Þverfellshorni sl. laugardagskvöld. Þyrlusveitin náði manninum upp en björgunarsveitarmenn fylgdu félögum mannsins til byggða. Sú ferð varð nokkuð söguleg sakir erfiðra snjóalaga á bakaleiðinni og segja má að á endanum hafi þetta orðið fínasta æfing í félagabjörgun.

Útköll í Þverfellshornið eru orðin fjölmörg. Þó að Esjan sé í garðinum okkar má alls ekki vanmeta þessi útköll og einföld þyrluhífing getur td. á skammri stundu breyst í böruburð í erfiðu fjallendi.

—————-
Texti m. mynd: Hann stendur í skafli á spóli!
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Konu leitað á höfuðborgarsvæðinu.

HSSR félagar voru seinnipartinn á föstudag kallaðir út til leitar að konu sem Lögreglan í Reykjavík hafði lýst eftir. Sérhæfðir leitar menn og leitarmenn á fjórhjólum leituðu hafnarsvæði, fjörur og stíga á Kársnesi í Kópavogi. Í gær, laugardag, voru svo rúmlega 20 manns við leit í efri byggðum Reykjavíkur ásamt því sem fjörur voru gengnar frá Nauthólsvík suður í Garðabæ. Þá voru einnig þrír kajakræðarar úr HSSR sendir til leitar á Fossvogi.

Framhald leitarinnar er óljóst.

—————-
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Skarðsheiði – útkall

Útkall var að kvöldi 20.12. Leitað tveggja manna sem villtust í slæmu veðri í Skarðsheiði undir kvöld. Mennirnir eru báðir fundnir heilir á húfi en annar þeirra var orðinn nokkuð kaldur er hann fannst og var fluttur undir læknishendur. Undanfarar fóru á leitarsvæðið en einnig var sérhæfður leitarhópur og sleðamenn ferðbúnir en í biðstöðu.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Innanbæjarleit

Um 60 björgunarsveitarmenn af höfuðborgarsvæðinu leituðu í kvöld manns sem saknað var í Reykjavík 6.des. Björgunarsveitir kallaðar út rétt eftir klukkan 18. Í fyrstu voru eingöngu sérhæfðir leitarhópar kallarðir út en um 19.30 var stórt útkall. Það var afturkallað skömmu síðar þegar maðurinn fannst heill á húfi um kl. 20.00.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Stórleit að rjúpnaskyttu.

Frá því seinnipart á laugardag hefur töluverður fjöldi HSSR félaga komið að rjúpnaskyttuleit á heiðunum norðan Árness og Þjórsárdals. 20 manns tóku þátt í leit aðfaranótt sunnudags og voru síðustu menn að klára leitarsvæði sín um kl. 06.00 eftir allt að 6 tíma leit í norðangarra, 9 stiga frosti og náttmyrkri. 15 félagar tóku þátt í leit í gær, að hluta þeir sömu og um nóttina, eftir lítinn svefn á gólfi og í sætum á Reyk 1 sem hefur verið lánaður sem bækistöð vettvangsstjórnar á Skáldabúðaheiði. Um kl. 07 í morgun hélt svo 15 manna hópur austur en gert er ráð fyrir að leit hefjist að nýju nú í byrtingu.

—————-
Texti m. mynd: Reykur 1 og tjald HSSR á vettvangi.
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Leit að ungmennum eftir sprengingu

26 félagar HSSR tóku í kvöld þátt í að leita af sér grun um að fleiri unglingar séu slasaðir eftir gassprenginu sem varð í Gerðunum í Reykjavík fyrr í kvöld. Sex unglingar hafa þegar verið fluttir á sjúkrahús, þar af eru þrír mikið brenndir. Skúr sem unglingarnir voru í skemmdist mikið í sprengingunni.

—————-
Höfundur: Helgi Reynisson