Fjallafjarskalangar komnir heim.

Síðasta dag júlímánaðar héldu 10 manns í sumarferð HSSR og var stefnan sett á NA-landið, í nokkuð víðri merkingu þó, því markmiðið var að skoða staði sem eru of fjarri til að komast að í venjulegum helgarferðum. Nokkur vinna hafði verið lögð í skipulagninguna, með það að markmiði að lágmarka aksturinn en hámarka upplifunina. Eitthvað átti sá metnaður nú eftir að riðlast og var skipuleggjanda umsvifalaust um það kennt, en á móti kemur að hann á ekki því að venjast að ferðast um með fólki sem telur það sjálfsögð grundvallarmannréttindi að fá nýuppáhellt kaffi og nýsmurðar samlokur, hvar sem þorsti eða hungur sækir að. Var jafnvel hellt uppá í slíku úrhelli að skýla þurfti kaffikönnunni til að það héldist eldur á prímusnum og að kaffið þynntist ekki. Fyrsta kvöldið komumst við austur í Skaftafell og daginn eftir með útúrdúrum austur á Illakamb. Næsti dagur nýttist til að skoða sig um í Lónsöræfum og sá fjórði fór í að ganga niður í Lón og aka síðan upp að Snæfelli. Ekki gaf á fjallið það daginn eftir sökum roks og þoku þar uppi og var þá tækifærið notað til að skoða hluti sem lægra lágu og nær fótum manna. Þann daginn komumst við uppí Kverkfjöll, þar sem dvalið var í tvær nætur. Þar var gengið á hin ýmsu fell, ásamt því að taka hring um jökulinn neðanverðann og kíkja í íshellinn. Enn var veðrið fremur til ama en hitt og átti það eftir að elta okkur einn dag til, í Öskju. Hindraði það enn ferð á hærri tinda, en á móti kom að nóg er að skoða af því sem nær liggur á stöðum sem þessum og það þarf mjög vont veður til að hindra bað í Víti. Í prýðilegu veðri næstu tvo daga var farið um Jökulsárgljúfur, bæði að austan- og vestanverðu og að lokum kíkt við í Mývatnssveit og Öxnadal á leiðinni heim, þar sem bað á Hveravöllum var lokahnykkurinn. Hugmyndin hafði verið að gista í tjöldum alla ferðina og gerðu sumir slíkt, en þegar “harnaði á hálendinu” skriðu aðrir í skála og hugtök eins lúxus og mannréttindi náðu sér á flug. Ferðin tókst í alla staði vel og þar sem mikill meirihluti þátttakenda voru nýliðar á milli N1 og N2 nýttist þetta ágætlega sem verkleg ferðamennska, ásamt því að kynnast öðrum svæðum landsins. (Á leiðinni var farlausri, ungri, kanadískri snót kippt upp í bílinn og komið til byggða – og sýndi hún af sér slíka hæfileika í ferðamennsku og íslenskunámi að nú er leitað með logandi ljósi að efnilegu mannsefni handa henni á meðal yngri og ólofaðra félaga sveitarinnar. Er hér lýst eftir tilnefningum.)

—————-
Texti m. mynd: Á Jökulsárbrú við Eskifell í Lóni
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson