Gönguskíðaferð Eftirbáta 13. -16. mars sl.

Sigölda, um Landmannahelli, Dalakofa, Hungurfit í Keldur.

 Síðastliðinn fimmtudag lögðu sex Eftirbátar af stað í fjögurra daga gönguskíðaferð með púlkur í eftirdragi frá Sigöldu. Eiríkur Karlsson Dropi sá um að skutla hópnum í Sigöldu og eftir smá festu á Ásnum í Sigöldu skildu leiðir og hópurinn lagði af stað frá virkjuninni í mótvindi og fjúki. Þegar komið var inn á sléttuna handan við Sigöldu var vindur á hlið. Dagurinn leið í éljagangi og skafrenning þar sem við gengum um Dyngjuskarð og yfir Löðmundarvatn og enduðum í Landmannahelli þar sem gist var í fínum skála. Um kvöldið buðu Hilmar og Sigrún upp á pönnusteiktar svínalundir í rjómasósu. Fyrsta dagleiðin var var 20 km og 7 tímar.
Eftibátar gönguskíði marsÁ degi tvö var lagt í hann í ágætis veðri og þokkalegu skyggni með hægan vind á hlið, ferðinni var heitið í Dalakofa við upptök Markarfljóts. Mesta hækkun ferðarinnar var þennan dag upp Pokahrygginn á skinnum eða liðlega þrjúhundruð metra beina hækkum með einhverri viðbótarhækkun þegar öll gil eru talin. Þetta var léttasti dagur ferðarinnar þó um tíma þegar klifrað var upp úr einu gilinu héldu Sigrún og Addi að þau væru komin alpiníkst klifurnámskeið við að elta Hilmar upp eina snjóbrekkuna, og alltaf fylgdu púlkurnar. Þennan dag vorum við 6 tíma á ferðinni og höfðum þá lagt 16 km baki. Fengum fína hvíld í Dalkofanum í samneyti við jeppamenn á leiðinni í Landmannahelli.

Þriðji dagur rann upp með slydduhríð sem breyttist í rigningu og hífandi sunnanroki á með við vorum að borða morgunmatinn, en þennan dag skyldi haldið í Hungurfit. Skálafélagar okkar, jeppahópur á leið í Landmannahelli,  fannst í meira lagi athyglisvert að við skyldu ætla að fara af stað í þessu vatnsveðri og roki og spurðu hvort þeir ættu ekki bara að skutla okkur. Það var sama og þegið og var þrammað af stað þrátt fyrir beljandi rigningu og rok. Veðrið reyndist enn verra en það leit út um morguninn og þegar verst lét sýndu vindmælar 18 – 19 m/s á móti og nokkuð örugglega eitthvað meira í hviðum. Þrátt fyrir þetta var ekkert annað að gera en að berjast á móti sunnanrigningunni. Eftir erfiðan níu tíma dag þar sem 20 km lágu að baki komu við loks í skálana í Hungurfit. Samkvæmt plani ætluðum við að vera í gömlum óupphituðum bragga í Hungurfit en vorum svo heppinn að fá inni í nýjum og glæsilegum skála Fitjamanna með öllum þægindum eftir þetta slark. Þetta var óneitanlega kærkomið þar sem hluti hópsins hefði ekki verið blautari og kaldari þó hann hefði verið á sundi í Rángá sem við gátum reyndar krossað á snjó.
Eftirbátar gönguskíði mars 2                                                   Eftirbátar gönguskíði mars 1

Á síðasta degi var ætlunin að labba á móti bílunum áleiðis niður að Keldum. Þar sem spáð var talsvert stífri vestanátt og útlit fyrir fremur hæga yfirferð var ákveðið að Patrol og nýji Hiluxinn kæmu á móti okkur. Eftir að hafa labbað á skinnum alla leið frá skálanum komu þeir Helgi Rúnar og Danni á móti okkur ofan við Hafrafell  þegar klukkan var farin að halla í þrjú. En þá vorum við búin að vera tæplega fimm tíma á ferðinni með stoppum og aðeins lagt 11 km að baki.

Að lokum er óhætt að segja að ferðin hafi reynt talsvert á jafnt búnað sem og þátttakendur. Með samstilltu átaki gekk túrinn vel fyrir sig og eftir áætlun þrátt fyrir bilanir í bindingum og fl.

Kærar þakkir til bílstjóra og annarra sem voru með okkur í þessu.

Eftirbátar á fjallabaki

Eftirbátar gönguskíði mars 3