Hópeflisdagur undanfara

Síðastliðinn laugardag, 23. sept, hélt undanfaraflokkur HSSR sinn fyrsta hópeflisdag.
Hugmyndin með deginum var að hrista hópinn saman fyrir starf vetrarins og skemmta sér um leið í góðra vina hópi.
Mæting var á M6 kl. 10:00 og létu 15 manns sjá sig um það leyti og gefur það um 83% skil úr flokknum. Tveir komust ekki og sá þriðji svaf yfir sig og mætti kl. 17:00.
Skipt var í tvo hópa og var ætlunin að hafa tylftarþraut, þar sem keppt væri í hinum ýmsu áhugaverðu greinum. Flestar tengdust greinarnar björgunar- og fjallamennsku en aðrar tengdust útilífi og björgunarstörfum ekki vitund og gaf þetta keppninni skemmtilega fjölbreyttan blæ. Gulli og Siggi Tommi sáu um að skipuleggja keppnina og voru greinarnar eftirfarandi:
Á sporbaug. Hópurinn var súrraður saman í hring á fótunum og var keppt um að komast ca. 50m í þessu ástandi.
Píslarvottar. Keppt var um að hanga sem lengst á ísöxum með fætur á lofti.
Fermetri. Klifurkeppni, þar sem hendur og fætur voru stöguð saman með ca. 1m slingum. Gaf klifrinu nýja vídd og áhorfendum mikla skemmtun.
Hópþrýstingur. Jeppabifreið ýtt yfir planið á HSSR.
Hin heilaga þrenning. Fjallabjörgunarþraut þar sem keppendur júmmuðu sig upp á sigpallinn, sigu niður að dúkku, félagabjörguðu henni og ströppuðu í börur og báru hana svo kringum húsið.
Gengið til náða. Keppendur sátu með fætur í 90° stöðu við húsvegg. Keppt í að endast sem lengst í þeirri stöðu.
Strikið. Keppt í að endast sem lengst í línudansi.
Leitarhundar. Einn keppandi leitaði blindandi að hlutum með aðstoð hópsins meðan hinn hópurinn truflaði og leitaði einnig.
Brekkusöngur. Spretthlaup frá hringtorginu upp að Hlöllabátum. Mikið söffer.
Svanavatnið. Keppt í að endast sem lengst í sjósundi með bringuna í kafi. Eftir 20 mínútna bað var ákvaðið að semja um jafntefli þegar tveir frá hvoru liði voru eftir. Einhverjar kvefpestir fylgdu hjá sumum keppendum næstu daga.
Bakkabræður. Björgunarsund í Laugardalslaug. Liðið synti að manni í miðri laug, kemur honum yfir að bakkanum og bjargar honum upp úr lauginni.
Gandreið. Rennsliskeppni í rennibrautinni.
Að keppni lokinni var endað í matarveislu og teiti heima hjá Brynju.
Gríðarleg ánægja var með daginn í heild sinni og flestir sammála um að gera þetta að árlegum viðburði.
Von er á myndasíðu um daginn innan skamms…

—————-
Vefslóð: hssr.is/adminimages/myndir.asp?flokkur=180
Höfundur: Sigurður Tómas Þórisson