Miðunaræfingarar með LHG

Eins og flestum ætti að vera ljóst þá eru þyrlur Landhelgisgæslunnar einhver öflugustu leitar- og björgunartæki landsins, en til að svo megi vera þá þurfa áhafnir þeirra stöðugt að halda sér í góðri þjálfun.
Eitt af því sem þarf að æfa er að miða út sendingar neyðarsenda og finna þá. Undanfarnar vikur hafa félagar HSSR aðstoðað LHG við þessa þjálfun með þeim hætti að tveir tveggja manna hópar hafa öðru hverju horfið út í náttmyrkrið og „týnst“ einhversstaðar í nágrenni Reykjavíkur. Hóparnir hafa meðferðis neyðarsenda LHG á æfingartíðni, en búnaður í þyrlunni gerir áhöfninni fært að stýra þyrlunni að uppsprettu sendinganna, uns áhöfnin getur komið auga á „fórnarlömbin“ í nætursjónaukum sínum.
Til að fullnýta tíma þyrlunnar hafa tækifærin einnig verið notuð til að æfa hífingar til fjalla með því að hífa hópana um borð – og að lokum hefur þátttakendum verið skilað aftur í Reyk-4. Æfingar þessar fara fram í algjöru náttmyrkri eins og áður segir og þar sem þyrlan er oftast almyrkvuð reynir alfarið á heyrnina við að fylgjast með því hvað er að gerast.
Einungis á björtustu tunglskinsnóttum hefur hún sést líða um næturhimininn, en þá bara eins og óljós, hávær skuggi.

Stjórn ákvað að í fyrstu verði virkasta úrkallsfólkinu boðið að taka þátt í þessum æfingum og þannig ætti þjálfunin að nýtast sveitinni best í útköllum. Bækistöðvahópurinn tók saman lista yfir virkasta úrkallsfólkið og starfmaðurinn fínpússaði hann eftir virkni í fjáröflunum. Til hagræðingar er svo unnið með u.þ.b. 15 manna lista í einu og eftir því sem fleiri „útskrifast“ af honum eftir æfingar eru teknir inn nýir einstaklingar í staðinn.

Ljósmyndin er tekin á miðunaræfingu sunnudagskvöldið 1. nóvember. Tvö fórnarlömb bíða björgunar og TF-LÍF er þarna einhversstaðar í myrkrinu, ef vel er….. hlustað.

—————-
Höfundur: Jón Gunnar Egilsson