Sleðaflokkur á ferð

Hluti sleðaflokks brá undir sig betri fætinum (og sleðanum) eftir vinnu á mánudegi og fór í heimsókn til Eiríks Karlssonar í Eskimóa í Stíflisdal. Eiríkur var að klára 20 km skíðagöngu þegar við mættum í hlað Gunnar, Páll , Hlynur og Kristinn. Karlinn var orðinn vel heitur og tilbúinn að sýna okkur bakgarðinn sinn í góðviðrinu.

Ekið var á Botnssúlur með viðkomu á Selfjalli. Þaðan var haldið austur fyrir Kvígindisfell og stefnan tekin á Tjaldafell. Ekki var stoppað lengi í Tjaldafelli heldur tekin stefnan á Þórisjökul. Útsýnið var frábært og sólin að setjast bak við Ok. Eftir harðfisk og myndatöku á toppi Þórisjökul var haldið niður í Þórisdal og stefnan tekin aftur í Botnssúlur um Kaldadal. Í rökkrinu var ekið í Eskimóa þar sem var boðið upp á kaffi og köku. 130 kílómetrar að baki undir traustri fararstjórn jarlsins á Eskimóa.

Við þökkum kærlega fyrir okkur.

Myndir á myndasíðu.

—————-
Texti m. mynd: Kræsingar í Eskimóa
Höfundur: Páll Ágúst Ásgeirsson