Stóri dagurinn 2012!

Nú er komið að Stóra deginum! Hann verður haldinn laugardaginn 18. febrúar og kemur í staðinn fyrir árlegu Gufuskálaferðina sem mikill rómur fer af.

Boðið verður upp á verkefni af mismunandi erfiðleikastigum á nokkrum sviðum svo allir eigi að geta haft hvort tveggja gagn og gaman af. Hjálparsveitarstarfið verður rauði þráðurinn en meðal verkefna verða rötun, leitar- og böruþrautir, klifur, sig og línuævintýri.

Verkefnin skal leysa í 3-4 manna hópum en tækifæri verður til að mynda lið úr stöku fólki og pörum um morguninn. Við viljum því hvetja sveitarfólk til að koma með vini sína og vandamenn, kynna þeim starfið í sveitinni og eiga með þeim góðan dag.

Mæting er laugardagsmorguninn klukkan 10 upp í M6 þar sem hóparnir fá vegabréf til að safna saman stigum fyrir leyst verkefni. Deginum lýkur svo með grilli þar sem glæsimennin í Eriku sjá um að fæða lúinn mannskapinn. Þar verður og farið yfir frammistöðu hópanna og viðurkenningar veittar.

Ekki þarf að mæta með neinn sérlegan búnað umfram fatnað sem hæfir veðri, góða skó, eitthvað nesti og svo góða skapið.

Skráning er á D4H. Fyrirspurnum og skráningu utansveitarfólks skal beint á netfangið martin@swift.is.

—————-
Texti m. mynd: Frá Björgunarleikunum á Hellu 2011.
Höfundur: Martin Swift