Vel heppnuð ferð á Hrútfell.

Fimm félagar héldu á Hrútfell á Kili sl. föstudag.

Þegar komið var á Kjöl var að þykkna upp og fjallið breiddi yfir sig skýjahjúp.

Við þverbrekknamúla, þar sem til stóð að tjalda voru allar lindir þurrar eftir snjólausan vetur og því var gengið vestar, nær fjallinu að svæði sem heitir Hvannir og tjaldað þar í gullfallegu umhverfi í góðum félagsskap óteljandi grasmaðka sem voru búnir að eigna sér svæðið og reyndu af öllum mætti að blanda geði við okkur og fá skjól í tjöldunum.

Um nóttina rigndi hressilega og skýin náðu allt niður í 600m þegar farið var á fætur um morguninn. Þá var tíminn nýttur til að ganga norður að Hlaupum sem er magnað klettagljúfur sem Fúlakvísl rennur um og víða er hægt að stíga þar yfir beljandi jökulánna. Eftir það héldum við í átt að Hrútfelli sem farið var að létta af sér skýjakúfinum. Hópurinn fékk sér góðan blund á milli þúfna á meðan veðrið lagaðist og upp úr kl. 15 var orðið ferðafært á fjallið. Við gengum upp óvenjulega leið, sem er þó augljós að sjá úr austri, en leiðin liggur upp Y-lagaðan skafl sem reyndist svo hinn fullkomna leið til að taka fótskriðu niður fjallið. Fyrir ofan skaflinn tók við falleg jökulskál þar sem fara þurfti í línur og ganga um af varúð þar sem ekki vantaði sprungur þar sem biðu spenntar eftir að fá að gleypa óvarkára göngumenn.

Hábungu fjallsins var svo náð upp úr kl. 18 í dýrðarinnar veðri. Síðan var haldið niður í tjöld þar sem grillað var og farið snemma í pokana. Á sunnudegi var svo ekið í bæinn með viðkomu í Hvítárnesi, Brúarfossi og gígnum Trintron á Lyngdalsheiði.

Annars er svo hægt að sjá fl. myndir úr ferðinni á Feisinu hjá mér.

kv. Árni Tr.

—————-
Texti m. mynd: Hópurinn á hábungu Hrútfells.
Höfundur: Árni Tryggvason