Category Archives: Fréttir

Ferð vélsleðahóps í janúar 2013.

Vélsleðahópur í viðgerðum á veðurstöð

Ferð vélsleðahóps í janúar 2013.

Leiðin sem farin var í ferð vélsleðahóps í janúar 2013.

Ferðin í gær gékk vel þrátt fyrir lítinn snjó og mikinn ís. Tekið var af við Sigöldu og ekið eftir veginum í gegnum hraunið þar sem var mikill ís og stórir pollar inn á milli. Brunað var framhjá Höllinni og stoppað stutt við Glaðheima. Þaðan var ekið um Grænalón og vestan Kattarhryggja, en þar tók Stubburinn upp gamla siði og fór að ganga illa. Skildu því leiðir og héldum við fjórir áfram á meðan hinir brösuðu við sleðana.

Veðurstöðin sem gera þurfti við er staðsett við Lónakvísl skammt frá Botlangatjörn. Vindrella á stöðinni var löskuð og þurfti því að fella 10m. mastur til að skipta henni út og einnig var skipt um vigt í úrkomumæli. Þegar við komum aftur til baka voru strákarnir enn að brasa við sleðann og var því ekkert annað að gera en að draga sleðann. Þegar búið var að draga sleðan daggóðan spöl var reynt að gangsetja og komst sleðinn fyrir eiginn vélarafli niður að bíl.

Þetta var fyrsti túrinn á nýja sleðanum og reyndist hann mjög vel og þar kom berlega í ljós hvað hann er góður á svelli enda eru ansi mörg kíló af nöglum í beltinu.

Æfingin MODEX 2013

SAREX 2012

Frá æfingunni SAREX á Grænlandi haustið 2012

Síðustu daga hefur búðahópur verið önnum kafinn við að undirbúa þátttöku á MODEX 2013, en hópurinn tekur þátt í æfingunni sem hluti af Íslensku alþjóðbjörgunarsveitinni (ÍA). Æfingin fer fram í Tinglev í Danmörku dagana 25.-28. janúar nk. ÍA hópurinn mun samanstanda af 45 einstaklingum, þar af sex úr búðahópi HSSR. Einnig eru þrír aðrir HSSR-ingar þátttakendur á æfingunni í gegnum aðrar aðildareiningar ÍA. Á æfingunni verða einnig bresk rústabjörgunarsveit (MUSAR) sem við kynntumst aðeins á Haiti og tékknesk sveit (AMP) sem mun setja upp sjúkrahús (e. field hospital).

Í Tinglev er æfingasvæði fyrir rústabjörgun á vegum dönsku almannavarnanna, Danish Emergency Management Agency (DEMA). Markmið æfingarinnar er að kanna hvort ÍA standist þær kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra rústabjörgunarsveita og munu eftirlitsmenn fylgjast með sveitinni allan tímann.

Kostnaður vegna þátttöku ÍA í æfingunni er greiddur með styrk frá Evrópusambandinu.

Takk fyrir stuðninginn

Flugeldasala Hjálparsveitar skáta í Reykjavík gekk vel. Enn eitt árið sýndu borgarbúar hversu vel þeir kunna að meta okkar starf með því að versla flugelda frá okkur. Einnig var óvenju mikið um bein peningaframlög til sveitarinnar, fólk kom á sölustaði og rétti peninga yfir borðið án þess að kaupa flugelda. Það er okkur mikils virði að finna þann mikla velvilja sem er ríkjandi í okkar garð.

Flugeldasalan heldur okkur gangandi og með góðri sölu er okkar viðbragð tryggt. Takk fyrir stuðninginn.

Haukur Harðarson,
sveitarforingi Hjálparsveitar skáta í Reykjavík.

Enn meiri flugeldar!

Sölustaðir flugelda 2012.

Flugeldasölustaðir Hjálparsveitar skáta í Reykjavík 2012.

Veðurspáin fyrir miðnætti á gamlársdag er góð og því kjörið tækifæri að kveðja árið sem er að líða með stæl.

Á gamlársdag er opið frá kl. 10:00 til 16:00. Sölustaðir eru á eftirfarandi stöðum:

  • Malarhöfði 6
  • Mjódd
  • Spöng
  • Bílabúð Benna
  • Norðlingaholti
  • Við Húsasmiðjuna í Grafarholti
  • Skátaheimili Skjöldunga við Sólheima

Munið eftir öryggisgleraugum, vettlingum og víkja vel frá.

Takk fyrir stuðninginn nú í ár sem á liðnum árum

Flugeldasýning í Öskjuhlíð

Flugeldasýning.

Glæsilegir flugeldar.

Risaflugeldasýning í boði Flugeldamarkaða björgunarsveitanna verður haldin við Perluna í Öskjuhlíð í kvöld 28.12 kl 18:00. Þar gefst fólki kostur á að taka smá forskot á sæluna og virða fyrir sér frábæra ljósadýrð og allt hið flottasta í flugeldum í dag.

Þar sem oft hefur verið mikill mannfjöldi á þessari flugeldasýningu er rétt að benda fólki á að hún sést víða að og nýtur sín ekki síður úr örlítilli fjarlægð, t.d. úr Kópavogi eða af bílastæðinu við Háskóla Íslands.

Hluti björgunarfólks sem mætti á aðfangadag.

Útkall á aðfangadag

Hluti björgunarfólks sem mætti á aðfangadag.

Hluti þess björgunarfólks sem mætti í útkallið á aðfangadag.

Kl. 19.18 á aðfangadag barst björgunarfólki á svæði 1 tilkynning um týndan einstakling á stór-höfuðborgarsvæðinu. Rétt um 20 félagar í HSSR brugðust við kallinu og voru tilbúnir til brottfarar á Malarhöfða 6 þegar tilkynnt var að viðkomandi hefði fundist.

Þessar fréttir glöddu félaga mikið sem drifu sig þegar í stað heim á leið í faðm fjölskyldunnar þar sem jólamaturinn og jólapakkarnir biðu.

Flugeldasala Hjálparsveitar skáta í Reykjavík

Flugeldasala 2012.

Svipmynd tekin á gamlársdaga á sölustað HSSR að Malarhöfða 6.

Hjálparsveit skáta í Reykjavík selur flugelda á sjö stöðum fyrir áramótin. Sölustaðirnir eru í húsnæði sveitarinnar að Malarhöfða 6, við verslunarmiðstöðvarnar í Mjódd og Spöng, í Bílabúð Benna, við Húsasmiðjuna í Grafarolti, skátaheimili Sjöldunga við Sólheima og í Norðlingaholti.

Við opnum föstudaginn 28. desember klukkan 14.00 og er opið til 22.00. Laugardaginn 29. og sunnudagin 30. er opið frá 10.00 til 22.00 en gamlársdag er opið frá 10.00 til 16.00.

Um leið og við þökkum stuðningin á liðnum árum óskum við ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Munið að þótt flugeldar séu skemmtilegir þá er mikilvægt að sýna aðgæslu við notkun þeirra.

HSSR eignast GoPro myndavél

HSSR fær GoPro myndavélina afhenta.

Hilmar Már Aðalsteinsson tekur við GoPro myndavélinni úr hendi Þórhalls Skúlasonar, sölustjóra Spennandi ehf.

HSSR hefur nú eignast GoPro Hero3 Black Edition vél sem mun nýtast víða í starfi sveitarinnar. Vélin á að nýtast til að skrá heimildir um HSSR, við rýni á æfingum, skráningu heimilda í útköllum og einnig til leitar með aðstoðar almennrar tölvutækni. Vélin er af nýjustu og fullkomnustu gerð og eru allmargir fylgihlutir með vélinni til að hún nýtist sem flestum við sem flestar aðstæður. Að lokinni flugeldavinnu verður vélin kynnt frekar og hvernig notkuninni verður háttað varðandi útlán og notkun myndefnis.

Á meðfylgjandi mynd er Þórhallur Skúlason sölustjóri Spennandi ehf innflutningsaðila GoPro á Íslandi að afhenda Hilmar Má Aðalsteinssyni vélina.

Nánari upplýsingar um vélin má finna á vefsíðunni www.goice.is  eða www.gopro.com.