Category Archives: Fréttir

Styrkur frá Slysavarnadeild kvenna í Reykjavík

Fulltrúar Slysavarnadeildar kvenna afhenda HSSR styrk

Fulltrúar SVDK afhenda fulltrúm HSSR veglegan styrk.

Á jólafundi Slysavarnadeildar kvenna í Reykjavík sem haldin var 6. desember síðastliðinn var HSSR færður veglegur styrkur. Styrkurinn er ætlaður til kaupa á tjaldi til að nota til að þjónusta björgunarfólk í lengri aðgerðum, sjúkragæslur og æfingar. Styrkurinn er að upphæð 800.000 kr.

Reynsla af rekstri búðahóps HSSR á síðustu árum hefur sýnt fram á hversu mikilvægur þáttur aðstaða björgunarfólks er í lengri útköllum. Það er lykilatriði þegar kemur að úthaldi björgunarfólks á vettvangi og skipulagningu aðgerða. Undanfarið hefur verið skoðað innandyra hjá HSSR hvaða búnaður væri mikilvægur til að efla þennan þátt og niðurstaðan er öflugra tjald. Í mörgum tilvikum myndu tvö tjöld nýtast þ.e. annarsvegar til þess að neyta matar og safna orku, hins vegar vegna skipulagsvinnu í aðgerðum. Heildarkostnaður við kaup á öðru tjaldi er um 2 miljónir króna og er styrkurinn stór áfangi á þeirri leið. Einnig munu SVD og HSSR skipuleggja hvernig þjónustu við björgunarfólk í lengri aðgerðum. Er gert ráð fyrir því að báðar einingar komi að því verkefni í framtíðinni og hefst vinna við þetta eftir flugeldavertíð.

Slysavarnadeild kvenna í Reykjavík eru færðar bestu þakkir fyrir styrkinn, það er ómetanlegt að hafa bakhjarla sem þekkja okkar starf og eru tilbúnar að leggja á sig mikla vinnu við að styrkja það. Takk fyrir okkur

Nýr framkvæmdastjóri SL

Jón Svanberg Hjartarson

Jón Svanberg Hjartarsvon, framkvæmdastjóri SL.

Jón Svanberg Hjartarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Jón hefur verið félagi í Björgunarsveitinni Sæbjörgu á Flateyri frá 1986 og sat í stjórn hennar frá 1989- 2002, þar af sem formaður 1996-2002. Hann var umsjónarmaður unglingadeildar sveitarinnar 1989-2003 og var kjörinn í stjórn SL árið 2011. Jón Svanberg var lögreglumaður á Ísafirði frá 1994-2009, varðstjóri frá 1996-2009 og settur aðstoðaryfirlögregluþjó nn í lögreglunni á Vestfjörðum 2007-2008. Jón Svanberg tekur við stöðu framkvæmdastjóra SL 1. janúar 2013.

HSSR býður Jón Svanberg velkomin til starfa og óskar honum velfarnaðar í vandasömu en skemmtilegu starfi

Nýir gámar standsettir fyrir flugeldasölu

Unnið að standsetningu

Fjöldi fólks kemur að standsetningu nýju gámanna.

Nú er verið að standsetja fjóra gáma fyrir tvo sölustaði í tækjageymslu. Gámarnir voru keyptir í sumar og nú er lokið við að mála þá og verið að setja í þá innréttingar sem henta sölu auk þess að breyta raflögnum. Í framhaldi af því verða útbúin auglýsingaskilti utan á þá.

Myndin er tekin í vikunni og þá var varla þverfótað fyrir rafvirkjum og smiðum.

HSSR gerir samstarfssamning við Storm

Skrifað undir samning á milli HSSR og Storms.

Haukur Harðarson og Ásdís Skúladóttir undirrita samninginn.

HSSR og Stromur hafa gert með sér samkomulag um kaup á vélsleðum og rekstrarvörum. Samkomulagið er til þriggja ára. Markmið samkomulagsins er m.a. að tryggja HSSR bestu kjör á sleðakaupum, rekstrarvörum og varahlutum. Samningurinn tryggir einnig félögum HSSR góð kjör á ýmsum búnaði sem seldur er í verslun Storms. Sleðaflokkur HSSR stefnir að þvi að vera með alla sína sleða sömu tegundar, en það einfaldar rekstur og þjálfun.

Haukur Harðarson sveitarforingi HSSR og Ásdís Skúladóttir framkæmdastjóri Storms skrifuðu undir samninginn í gær á árlegri sleðasýningu Storms þar sem nýjustu Polaris sleðarnir voru sýndir.

Fulltrúaráðsfundur SL

Fulltrúaráðsfundur Slysvarnafélagsins Landsbjargar var haldinn í Háskólanum í Reykjavík í dag. Um 130 fulltrúar eininga sátu fundinn. Fjárhagsáætlun ársins var kynnt og hún samþykkt eftir nokkrar umræður en ljóst er að fara verður í töluverðan niðurskurð á rekstrinum. Meðal annars er gert ráð fyrir samdrætti í starfsmannahaldi, fækkun björgunarskipa, minnkandi framlags til Alþjóðasveitar, lokun Gufuskála auk fleiri aðgerða.

Hörður Már Harðarson, formaður SL kynnti hugmyndir að nýjum fjáröflunarleiðum sem eru til skoðunar. Að því loknu var farið yfir stöðuna í máli fráfarandi framkvæmdastjóra, flutt skýrsla um hálendisvaktina og farið yfir húsnæðismál félagsins og Slysavarnaskóla sjómanna. Sigþóra, Kristjón og Haukur sátu fundinn fyrir hönd HSSR.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Fjallamennska 1 árið 2012

Fjallamennska 1 var haldin þetta árið á Fimmvörðuhálsi. Þriðjudaginn 13. nóvember mættu nýliðarnir á undirbúningskvöld á M6 þar sem farið var yfir helstu efnisatriði og rennt yfir búnaðarlistann, hnútar kenndir, sig æft og lánsbúnaði útdeilt.

Að kvöldi föstudagsins 16. var svo haldið austur að Skógum og upp slóðann á Fimmvörðuháls. Færið var nokkuð þungt en Eiríkur Odds náði þó að koma Ásnum um tveimur kílómetrum að vaðinu þegar ákveðið var að halda áfram fótgangandi. Þaðan var svo þrammað í nöprum norðankalda og hressilegum skafrenningi upp að nýja Baldvinsskála þar sem gist var um nóttina.

Morguninn eftir var spáð allhvössum vindi sunnan við Hálsinn og því var ákveðið að halda norðuryfir, reyna að fara yfir helstu atriði námskeiðsins á leiðinni og ná niður í Bása um kvöldið. Veður lægði eilítið eftir morgunmat en batnaði mjög þegar yfir hálsinn var komið og Tindfjallajökull og Mörkin blöstu við í allri sinni dýrð. Sunnudagsmorguninn héldu hóparnir upp að Réttarfelli og hlíðunum ofan Bása í mikilli veðurblíðu til að fara yfir þau efnisatriði sem ekki náðist að klára daginn áður. Þrátt fyrir heldur lítinn og lausan snjó fengu nýliðarnir nasaþefinn af þessum helstu atriðum fjallamennsku.

Námskeiðið varð því að öllu meiri fjallamennskuferð en gert hafði ráð fyrir og stóðst hópurinn þetta verkefni með prýði.

Continue reading

Óveður á höfuðborgarsvæðinu.

Stundum er eins og að allt þurfi að gerast á sama tíma.
Í miðri Neyðarlkallssölu skellur á landinu eitt versta illviðri sem lengi hefur gengið yfir.
Flestar björgunarsveitir landsins eru með sinn mannskap að störfum og samhliða því seljum við Neyðarkalla eins og við verður komið.
Núna eru fimm hópar frá HSSR að störfum úti auk fólks í bækistöð. Þá eru margir nýliðar og eldri félagar við Neyðarkallssölu.

Ert þ.ú búinn að fá þinn Neyðarkall?

—————-
Texti m. mynd: Yfirlit yfir útkallshópana.
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Neyðarkall.

Nú er Neyðarkallssalan hafin en hún er ásamt flugeldasölu stærsta fjáröflun björgunarsveitanna.
Sölufólk HSSR verður á Korputorgi, í Spöng og Húsgagnahöll ásamt því að selja við bensínstöðvar og matvöruverslanir á Ártúnshöfða og í Grafarvogi.

Keyptu kall. Það skiptir ekki öllu máli hvar eða af hverjum, bara að þú sýnir okkur stuðning í verki.

—————-
Texti m. mynd: Kall ársins, kafarinn, fremstur meðal jafningja.
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Tillaga að lagabreytingum

Lagabreytingatillagan sem kynnt var á síðasta sveitarfundi hefur nú verið lögð inn á heimasíðuna okkar undir hlekknum 'Gögn'.

Tillagan er unnin af stjórnskipaðri nefnd sem tók sér góðan tíma í verkið. Engar meginbreytingar felast í tillögunni þó rétt sé að vekja athygli á eftirtöldum breytingum (sjá nánari skýringar í tillögunni):

Tekið út að HSSR sé aðili að Skátasambandi Reykjavíkur.Ákvæði um gestaaðild er nýmæli.Bætt er inn kafla um nýliða. Grein um fundi er skipt upp í aðal- og sveitarfundi.Fundaskipulag stjórnar einfaldað og bætt inn að æski 3 stjórnarmenn eftir fundi skuli hann haldinn.Krafa um löggilta endurskoðun reikninga felld út og innri skoðunarmönnum fjölgað í 2.Fest í lög skylda stjórnar til að bóka ákvarðanir varðandi ráðstöfun í og úr rekstrarsjóði.Stjórn HSSR leggur tillögu að skipulagi sveitarinnar fyrir sveitarfundi í stað þess að setja reglugerð um flokka. Tillagan verður til afgreiðslu á aðalfundi HSSR sem er á dagskrá í nóvember 2012.

—————-
Texti m. mynd: Með lögum er byggt, ólögum eytt.
Höfundur: Örn Guðmundsson