Category Archives: Fréttir

Gönguleiðin á Kerhólakamb gerð öruggari

Léttsveit tók nýverið að sér að setja upp tryggingar á neðsta hluta gönguleiðarinnar á Kerhólakamb. Þessi hluti er á köflum brattur og getur reynst göngufólki erfiður yfirferðar. Í leiðinni var ákveðið að setja upp megintryggingar fyrir línuvinnu í aðgerðum, en á þessum kafla er lítið um góðar náttúrulegar tryggingar. Samtals fóru sex manns í þessa ferð, fimm frá HSSR ásamt fulltrúa landeigenda. Verkið tók eina kvöldstund og var það mat manna að vel hefði heppnast.
Það var byggingavöruverslunin BYKO sem lagði til allt efni í þetta verkefni og á það fyrirtæki góðar þakkir skildar fyrir.

—————-
Texti m. mynd: Mikið var spáð í spilin á fjalli
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson

Prinsessudagur við Öskju

Félagar HSSR í hálendisgæslu norðan Vatnajökuls héldi hátíðlegan svokallaðan prinsessudag 5. ágúst. Ástæða þess var að þeir Óli Jón og Gunnar (Lambi) fagna samtals tæplega níræðis afmæli sinu á fjöllum. Þeim fannst við hæfi, komnir á þennan aldur og verandi í fersku fjallaloftinu að nefna daginn prinsessudag þeim til heiðurs.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Nýliðakynning verður þriðjudagskvöld 4. september

Áhugasamt fólk sem hefur hug á að hefja þjálfun fyrir starf hjá HSSR getur tekið frá þriðjudagskvöld 4. september þegar nýliðastarf komandi vetrar verður kynnt. Þjálfun fyrir nýliða hjá HSSR tekur að öllu jöfnu eitt og hálft ár þannig að þeir sem hefja þjálfun núna í haust geta gengið inn í sveitina fyrri hluta árs 2014.

Nýliðaþjálfunin er fyrir alla sem hafa áhuga á að taka þátt í starfi björgunarsveitarinnar og gera ráð fyrir að geta tekið þátt í starfinu næstu árin. Miðað er við 18 ára lágmarksaldur þeirra sem hefja þjálfun.

Kynningarfundurinn verður sem fyrr segir þriðjudag 4. september og þjálfunin hefst viku seinna. Helgina 14. til 16. september er svo fyrsta stóra námskeiðið. Nánari dagskrá verður kynnt seinna.

—————-
Texti m. mynd: Það er gaman á fjallamennskunámskeiðum
Höfundur: Einar Ragnar Sigurðsson

Nýr sjúkrabúnaður HSSR

HSSR fékk á vormánuðum í hendur styrk til búnaðarkaupa frá styrktarsjóði ISAVIA sem hugsaður var til þess að að styrkja viðbragð björgunarsveita í hópslysum. (sjá frétt neðar á síðu frá 11.maí 2012). HSSR fékk styrk að upphæð 350 þúsund og á stjórnarfundi var ákveðið að HSSR legði 150 þúsund til viðbótar við upphæðina. Ákveðið var að stýring á ráðstöfun væri í höndum sjúkrahóps.
Í sumar höfum við í sjúkrahóp endurnýjað sjúkratöskur í öllum bílunum, sem voru komnar til ára sinna og endurskipulagt búnaðinn. Keyptar voru 4 stórar töskur sem innihalda súrefniskút í tösku ásamt fylgihlutum og stóra sjúkratösku til að sinna ýmsum vandamálum allt frá smásárum upp í stærri blæðingar, bruna og brot. Í töskunum eru einnig bráðaflokkunartaska, hálskragar, blóðþrýstingsmælir, teppi og minni sérhæfður búnaður, ásamt reykbombu og neyðarblysum. Hugmyndin var að sameina allan neyðarbúnað sveitarinnar á einn stað í hvert farartæki og geta þá auðveldlega tekið hann með út í feltið til notkunnar í heild sinni, en einnig hægt að taka minni einingar úr töskunni til að létta burð ef ekki þarf eins stórt viðbragð. Töskurnar eru auk þess mjög hentugar til að flytja með björgunarmanni á vélsleða þar sem hægt er að breyta þeim í bakpoka.
Búnaðurinn verður vonandi fljótlega kynntur fyrir bílahóp og síðan fyrir öllum félögum á sveitarfundi strax í haust. Einnig er áætlað að búa til lítið kynningarskjal í máli og myndum hvernig búnaður er uppsettur og geta félagar þá kynnt sér málið. Mikilvægt er að þeir sem starfa með HSSR þekki vel til sjúrabúnaðar bæði uppsetningu og notkunn og átti sig þá betur á getu sinni til að takast á við fyrstu hjálp á vettvangi.
Við þökkum ISAVIA kærlega fyrir stuðninginn og óskum ykkur öllum til hamingju með nýjan sjúkrabúnað. Helgi og Katrín

—————-
Texti m. mynd: R4 ásamt nýjum sjúkrabúnaði
Höfundur: Helgi Þór Leifsson

Stikað um Hengilinn

Félagar HSSR hafa unnið að lagfærinum á gönguleiðum á Henglinum undafarna daga. Veðrið hefur leikið við þátttakendur verkefnisins og vel hefur gengið. Helstu verkefni eru að lagfæra og mála stikur. Þeir félagar sem hafa ekki mætt í þetta skemmtilega verkefni eru hvattir til að skrá sig.

—————-
Texti m. mynd: Vaskur hópur málara með Þingvallavatn í baksýn
Höfundur: Kristinn Ólafsson

Síðasti fundur fyrir sumarfrí

Þann 19. júní var haldinn síðasti stjórnarfundur fyrir sumarfrí. Aðallega var fjallað um tvö mál, annarsvegar gerði laganefnd grein fyrir sínum tillögum sem lagðar verða inn í umræður á sveitarfundi i september og hins vegar bílakaup. Ákveðið var að kaupa stækka bílaflota sveitarinnar, kaupa einn 9 manna þjóðvegabíl til viðbótar en reyna á móti að draga úr notkun á breyttum jeppum. Markmiðið er að minnka kostnað við rekstur tækja.

Fyrir valinu var Ford Transit 350 M AWD Trend og er með læstum millikassa. Um er að ræða eftirársbíl, árgerð 2011 og verður hann klæddur að innan og sett í hann sæti í Póllandi. Heildarkostnaður við bílinn verður um 7 milljónir króna og þá er gert ráð fyrir að hann sé tilbúin til notkunar með öllum tækjum og talstöðvum. Hann verður líklega tilbúin til notkunar í október. Myndin hér til hliðar er af sambærilegum bíl en eftir að fjölga gluggum og setja í hann sæti.

—————-
Texti m. mynd: Ekki alveg eins en næstum því
Höfundur: Haukur Harðarson

Góða ferð Sigrún

Nokkrar hressar konur lögðu af stað í rúmlega sexhundrað og fimmtíu kílómetra gönguferð nú rétt fyrir kvöldmat. Þær ætla að ganga landshorna á milli, frá Hornströndum til Austfjarða. Leiðin er um 650 kílómetrar og stefna þær á að ljúka ferðinni á fjórum til fimm vikum.
Að sjálsögðu á Hjálparsveit skáta í Reykjavík sinn fulltrúa í hópnum en það er Sigrún Hallgrímsdóttir sem starfar með bækistövarhóp og Eftirbátum.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Tindabrölt í Eyjafirði 8. – 10. júní

Vegna veðurs var 13 tilvonandi Hnúksförum snúið norður í Eyjafjörð.
Þar kleif hópurinn hæsta fjall Norðurlands, Kerlingu (1536m) ásamt Hverfanda, Þríklakka, Stórakrumma, Litlakrumma, Bónda og Súlur.
Alls voru gengnir 23 km, hækkun um 2800m og tók ferðin í heildina 12,5 klst.

Aðstæður voru talsvert krefjandi; brattar skriður og snjóbrekkur, klungur og brölt.
Einnig eru miklar snjóaleysingar á svæðinu og urðum við vör við nokkur smáflóð á leið okkar.
Tekinn var prófíll til að meta aðstæður en hætta talin óveruleg.
Lítið smáflóð féll þó á gönguleið okkar þegar farið var niður af Kerlingu…sem var góð áminning um hversu mikilvæg
"hin heilaga þrenning" er við þessháttar aðstæður.

Í alla staði velheppnuð ferði í brakandi blíðu á Norðurlandinu.

—————-
Texti m. mynd: Hópurinn með Kerlingu í baksýn
Höfundur: Melkorka Jónsdóttir

Tveir nýir bætast í hópinn á stjórnarfundi

Tveir nýir félagar bættust við í hóp fullgildra björgunarsveitarmanna HSSR á stjórnarfundi 22. maí síðastliðinn. Það voru feðgarnir Sindri Stefánsson og Stefán Ingi Hermannsson sem hófu þjálfun haustið 2010. Þá eru alls 18 fullgildir félagar búnir að bætast við frá áramótum.

—————-
Texti m. mynd: Haukur, Sindri og Stefán við inngönguna
Höfundur: Einar Ragnar Sigurðsson