Category Archives: Útköll

Leit hætt

Tekin hefur verið ákvörðun um að hætta leit að tveimur þýskum ferðamönnum sem leitað hefur verið að sl. daga í Skaftafelli og Svínafellsjökli. Er það mat þeirra sem að leitinni hafa staðið að búið sé að leita svæðið eins og hægt er miðað við þær aðstæður sem þar eru.

Leitin var mjög umfagsmikil, alls tóku um 25 félagar HSSR þátt í henni með einum eða öðrum hætti. Flest þeirra beint en einnig var stuðningslið sent á vetvang með mat og stórt tjald. Bækistöðvahópur í Reykjavík sem sá síðan um skipulag, úthringingar og vistir. Er umtalað hversu vel HSSR stóð að baki sínu fólki. Einnig er ljóst að þegar kemur að því að útvega mannskap til að vinna við þær erfiðu aðstæður sem þarna voru er staða sveitarinnar sterk.

—————-
Vefslóð: landsbjörg.is
Höfundur: Haukur Harðarson

Útkall – Flugvél í vanda

Um kl:18:00 í dag bárust boð um að flugvél frá British Airways ætti í vanda um 70 mílur suðvestur að landinu. Reykur var laus í farþegarými og var því vélinni snúið til Keflavíkur. Hún lennti þar heilu og höldnu rétt fyrir hálf sjö. Sem betur fer var ekki eins mikil hætta á ferð eins og talið var í fyrstu og sakaði engann í vélinni.

HSSR var kölluð út ásamt öðrum sveitum á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi eins og gert er ráð fyrir í viðbragðsáætlun vegna svona tilfella. Voru um 10 félagar sveitarinnar mættir í hús og klárir 10 mínútum eftir útkall og voru að leggja af stað út úr húsi þegar útkallið var afturkallað.

—————-
Höfundur: Ragnar Rúnar Svavarsson

Fyrsta “útkalli” þessara páska lokið

Tveir meðlimir tækjahóps fóru í útkall á Reyk vörubíl að bjarga “nýjum” Högglund snjóbíl Hjálpsveitar skáta í Garðabæ. Högglund þessi hafði bilað þar sem verið var að keira hann á verkstæði þar sem átti að fara að standsetja hann og gera hann klárann fyrir prufurunt.
Menn töldu að þarna væri farin heddpakning en hann komst fyrir eigin vélarafli á pallinn á vörubílnum þó að tæft hafi það staðið enda nokkuð bratt upp á bílinn.
Haft var eftir ónefndum Garðbæing að Högglund þessi hafi verið keirður rúma 6 km frá afhendingu og verður það að teljast mjög ásættanlegt þar sem innan við 6 km eru niður að sjó þar sem hægt er að kæla vélina þegar þess þarf.
Högglund virtist passa þokkalega á pallinn og gaf Land Rover bifreiðum ónefndrar sveitar lítið eftir í þokka og tígurleik.
Að lokum viljum við þakka Garðbæingum ágæta skemtun og vonandi mun þeim ganga vel að gera orminn klárann á fjöll.
Ath. myndir á myndasíðunni.

—————-
Texti m. mynd: Ormurinn langi kominn á pall.
Höfundur: Davíð Örvar Hansson

Útkall á aðfangadagskvöld

Björgunarsveitir á svæði 1 voru kallaðar út á aðfangadagkvöld kl. 20.45 Leitað var að manni í Reykjavík sem hafði verið saknað í um tvo tíma. Maðurinn var ekki klæddur til útiveru og því mikið í mun að finna hann þar sem frostið var töluvert. Leitaraðgerðir gengu vel og maðurinn fannst um kl. 22.30
15 félagar frá HSSR tóku þátt í leitinni á Reyk 1, Reyk 2 og Reyk 3.

—————-
Höfundur: Einar Daníelsson

Fjallbjörgun í Búhömrum í gær:: kindur í klettum

Undanförum barst beiðni um að fara og sækja tvær rollu skjátur sem komið höfðu sér í sjálfheldu í Búhömrum.
Halli, Steppo, Helgi Maximus, Eyþór og að sjálfsögðu var fulltrúi beltaflokksins, Lambi með í för, fóru síðdegis að liðsinna Haraldi bónda á Esjubergi. Kindurnar höfðu komið sér fyrir á syllu rétt vestan við 55°(ísklifurleið). Helgi seig niður til þeirra en þegar hann var rétt ókominn til þeirra þá kom stuggur að þeim og þær hlupu fyrir björg, sem voru nú ekki meiri en 4m. og lentu heilu og höldnu. Þá tóku þær sprettinn út hlíðina og bændurnir sem voru fyrir neðan til að taka á móti þeim höfðu ekki roð við þeim, hurfu þær því út hlíðina og upp í þokuna.

Ágætis æfing svona á sunnudags eftirmiðdegi.

—————-
Höfundur: Haraldur Guðmundsson

Leit að tveimur snjósleðamönnum á Langjökli

Búið er að finna mennina heila á húfi (kl. 11:30).
———————————————

Í gangi er leit á Langjökli að tveimur vélsleðamönnum. Tveir jeppar og snjóbíll frá Hjálparsveit skáta í Reykjavík lögðu af stað með 10 manns í gærkvöldi. Því til viðbótar taka 5 sleðamenn þátt í leitinni og byrjuðu þeir leit snemma í morgun.

Ef ekki verður búið að finna mennina í eftirmiðdaginn má gera ráð fyrir því að byrjað verði að skipta út mannskap sem er við leit núna.

———————————————

Myndin er tekin við annað tilefni.

———————————————
Fengið af vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar allt frá Suðurnesjum til Norður- og Suðurlands eru við leitarstörf á Langjökli núna.
Alls eru 225 björgunarsveitarmenn á jöklinum eða á leiðinni á svæðið. Þeir nota 76 vélsleða, 38 öfluga björgunarsveitarjeppa og 11 snjóbíla við leitina. Veður á Langjökli er ekki gott 15-20 m/sek og 15° frost.
Kl.23:20 í gærkvöldi fannst einn manna sem leitað hafði verið að ofan við Þjófadali. Hann hafði þá stoppað og grafið sig í fönn við sleðann sinn. Gat hann látið björgunarsveitir vita af ferðum sínum og að hann þyrfti aðstoð við að komast til byggða. Var hann við ágæta heilsu þegar að var komið.
Kl.04:30 í nótt fannst annar vélsleði 800 metra frá hinum sleðanum sem hafði fyrr um kvöldið.
Sleðinn var á áætlaðri leið mannanna en mannlaus og með hluti af búnaði sleðamannsins á honum.
Vonast er til að mennirnir tveir sem eftir á að finna séu saman á ferð einum sleða eða búnir að grafa sig í fönn og bíði aðstoðar.
Það að vélsleðinn skyldi finnast 800 metra frá hinum vélsleðanum 5 klst seinna gefur til kynna að aðstæður á jöklinum til leitar voru hörmulegar í nótt.
Marg sinnis var búið að keyra yfir svæðið þar sem sleðinn var án þess að menn yrðu hans varir.
Leitarhundur er í snjóbíl á svæðinu þar sem sleðinn fannst og standa vonir til þess að hægt verði að nota hann þegar veðrinu slotar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar fer í loftið á milli 7:30 og 8:00 til leitar. Með henni verður einn leitarhundur í viðbót sem freistast á að koma niður á jökulinn í nágrenni við sleðann sem fannst síðast. Þyrlan mun leita slóðina sem áætlað var að mennirnir ætluðu að fara.
Mennirnir sem leitað er að eru 34 og 45 ára gamlir.

—————-
Vefslóð: landsbjorg.is
Höfundur: Stefán

Óveðursútkall

Rétt fyrir klukkan tvö í dag var boðað út vegna óveðurs sem byrjað var að ganga yfir. Fimm manns fóru úr húsi kl. 14:00 á R-3 og annar hópur fór úr húsi á R-2 kl. 15:00. Hóparnir fóru að huga að húsum og lausum munum, einnig var bjargað nokkrum börnum úr veðrinu sem komust vart áfram. Aðgerðinni lauk svo kl. 18:00.

—————-
Höfundur: Ragnar Rúnar

Útkall 4.1.2003

Klukkan 10:00 í morgun (4.1.2003) fór 20 manna hópur í innarbæjarleit að ungri konu. Var víða leitað á höfuðborgarsvæðinu ásamt öðrum björgunarsveitum af höfuðborgarsvæðinu. Eftir hádegi var aðgerðum hætt að svo stöddu.

—————-
Höfundur: Ragnar

Óveðursútkall

Á hádegi í dag barst ósk frá Svæðisstjórn um einn flokk á bíl vegna þess veðurs sem byrjað er að ganga yfir. Fimm manns fóru úr húsi kl. 12:30 til að huga að húsum og lausum munum víða um höfuðborgarsvæðið.

—————-
Höfundur: Stefán Páll