Category Archives: Útköll

HSSR félagar fjölmenna norður

Í dag barst hjálparsveitum á höfuðborgarsvæðinu aðstoðarbeiðni að norðan, en þar glíma heimamenn við afleiðingar mikils fannfergis þessa dagana. Eitt helsta verkefnið er að aðstoða heimamenn við að finna sauðfé sem er grafið í snjó í þúsundavís og ná því í þessari náttúrulega prísund. Alls fóru 25 félagar austur og höfðu m.a. með sér fimm vélsleða sem munu gagnast vel til þess að ferja björgunarmenn hratt og vel á milli staða.
Óvíst er hve viðamikið þetta verkefni í raun er, en mikilvægt er að hafa hraðar hendur til þess að hægt sé að koma búsmalanum til bjargar til þess að bjarga þeim verðmætum sem í þeim eru fólgin en þó fyrst og fremst til þess að losa hann úr þeirri þjáningu sem sem hann er í.
Félagar í HSSR voru óðfúsir að taka þátt í þessu verkefni, enda hafa allir fylgst vel með fréttaflutningi að norðan. Það er von allra í sveitinni að aðgerðir næstu daga verði gifturíkar og að heimtur á sauðfé verði góðar.

—————-
Texti m. mynd: Flytja þurfti margvíslegan búnað norður
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson

Útköll

Þrjú útköll voru í vikunni 13. til 18. ágúst Á þriðjudeginum var kallað út vegna týndrar konu við Glym og 32 félagar voru komnir í hús eða voru á leið í hús þegar hún kom í leitirnar. Aðfararnótt miðvikudags var virkjuð flugslysaáætlun á Keflavíkurflugvelli vegna sprengjuhótunar í rússneskri vél sem var á leið til BNA. Alls sinntu 16 félagar því útkalli og fóru með tæki og búnað á söfnunarstað í álverið í Straumsvík.

Seinni part laugardags var síðan beðið um aðstoð vegna fótbrotinnar konu í Brynjudal. Hún var töluvert frá vegi og þurfti að bera hana í sjúkrabíl. Alls sinntu 11 félagar þessu útkalli.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Slasaður ferðamaður við Glym

Um hádegisbil í gær, 11. júní, barst beiðni frá Neyðarlínu um aðstoð við slasaðan ferðamann á gönguleiðinni að Glym. Félagar HSSR brugðust vel við að vanda og var einn fjögurra manna hópur lagður af stað úr húsi fljótlega eftir að útkallið barst. Ekki var þörf á fleiri hópum frá sveitinni í þessa aðgerð en alls tóku um 20 björgunarsveitarmenn þátt í henni. Aðstæður til böruburðar voru erfiðar og því var þyrlan einnig kölluð til þ.a. tryggt væri að sem best færi um hinn slasaða. Komst hann undir læknishendur síðdegis.

Möguleikar nýja svörunarkerfisins voru virkjaðir í þessu útkalli en einn úr bækistöð hélt utan um mætingar og fjarskipti í fjarvinnslu til hagræðingar fyrir þá sem undirbjuggu brottför úr húsi. Ljóst er að nýja kerfið býður upp á möguleika sem gera undirbúning útkalla enn öruggari og markvissari en hingað til.

—————-
Texti m. mynd: Björgunarmenn og þyrla athafna sig á vettvangi
Höfundur: Þorbjörg Hólmgeirsdóttir

Annasamir dagar

Síðustu þrjá dagar hafa verið annasamir, alls hefur sveitin verið kölluð út þrisvar sinnum. Fyrst útkallið var í Helgafell til að aðstoða fólki í sjálfheldu, annað var til að sækja ferðamann sem sendi út neyðarkall frá Skeiðarárjökli og það þriðja vegna gróðurelda í Heiðmörk.

Á þriðjudagskvöldið var síðan fundur með stjórn og stjórnendum útkallshópa. Tvö helstu mál fundarinns voru skipulag og uppbygging á dagskrá næsta starfsárs og skipulag á útkallshópum. Fundurinn var mjög vel sóttur og gefur góð fyrirheit um öflugt starf næsta vetur.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Árangursrík leit félaga HSSR á Fimmvörðuhálsi

HSSR kom sterk inn við leit að pari á Fimmvörðuhálsi um helgina, en svo vel vildi til að Kristjón Jónsson og Ingibjörg Eiríksdóttir, ásamt fleira björgunarsveitarfólki, voru þar stödd og hófu leit um leið og aðstoðarbeiðni barst. Kristjón var svo heppinn að finna fólkið og megum við vera ákaflega stolt af okkar manni.

Hér fer á eftir frétt af vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar:
Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út aðfaranótt hvítasunnudags til leitar að pari sem var á göngu yfir Fimmvörðúháls en villtist á leið sinni niður á Þórsmörk. Fólkið hringdi sjálft til Neyðarlínu og óskaði eftir aðstoð og voru björgunarsveitir kallaðar út klukkan rúmlega eitt um nóttina. Sendir voru hópar upp Hvannárgil og Kattahryggi þar sem vitað var að fólkið var komið niður fyrir keðjuna við Heljarkamb og því ekki þörf á leitarhópum upp frá Skógum. Björgunarsveitir fundu fólkið rúmum tveimur tímum eftir að leit hófst og var það þá statt á gönguleiðinni yfir á Útigönguhöfða, skammt frá Heljarkambi. Var það í þokkalegu ástandi þrátt fyrir að hafa verið á göngu í 13 tíma enda ágætlega búið. Var parinu fylgt niður á Þórsmörk

—————-
Höfundur: Ingibjörg Eiríksdóttir

Leit við Meðalfellsvatn

Lettnesk kona, sem björgunarsveitir leituðu við Meðalfellsvatn í dag fannst látin nú síðdegis. Rúmlega 100 björgunarsveitamenn tóku þátt í leitinni, m.a. göngumenn, fólk á fjórhjólum, kafarar, hundateymi og leitað var í vatninu á bátum og úr lofti á fisflugvél. Tuttugu félagar HSSR tóku þátt í leitinni.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Útkall F2 rauður á Keflavíkurflugvelli

Kl. 18:46 í dag bárust F2 rauður útkallsboð frá Neyðarlínu þar sem greint var frá því að bilun hefði orðið í hjólabúnaði flugvélar frá Icelandair. Alls brugðust 32 félagar frá Hjálparsveit skáta í Reykjavík við og héldu á biðsvæði þar sem beðið var nánari fyrirmæla.

Kl. 21:17 lenti vélin án vandkvæða á Keflavíkurflugvelli og fór björgunarfólk af biðsvæði skömmu síðar.

—————-
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson

Tvö útköll á sumardaginn fyrsta

Hjálparsveit skáta var kölluð út í tvö útköll síðdegis sumardaginn fyrsta. Hið fyrra var undanfaraútkall vegna svifdrekaslyss í nágrenni Hveragerðis. Hið síðara hófst sem undanfaraútkall vegna einstaklings í sjálfheldu í Esjunni. Það breyttist fljótt í leit og kom heildarútkall í kjölfarið. Alls komu 32 einstaklingar að þessum tveimur útköllum.

—————-
Höfundur: Þorbjörg Hólmgeirsdóttir

Mikið um ófærðarútköll

Það er búið að vera mikið um ófærðarútköll á síðustu vikum. Flest hafa þau verið innanbæjar en einnig hafa þau verið upp á Hellisheiði og þá snérust verkefnin um að sækja fólk í bíla og koma því niður af heiðinni. Í flestum tilvkum hafa jeppar og Reykur 1 verið notaðir en síðastliðin föstudag var Boli einnig ræstur út á heiðina.

Þokkalega hefur gengið að manna þessi útköll þó sum þeirra hafi verið á dagvinnutíma. Samt hefur verið nokkuð um það að félagar sendi svar um hvort þeir mæti á 112 en ekki á bækistöðvarsíma eins og á að gera. Svar á 112 tefur þeirra störf. Vinsamlega atugið þetta og skráið útkallssímann í minnið hjá ykkur.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Óveðursútkall – Hellisheiði

Um kl. 21.00 á mánudagskvöldið 9. janúar var sveitin kölluð út vegna óveðurs og ófærðar á Hellisheiði. Alls fóru fjórir bílar frá okkur að sinna útkallinu og yfir 20 félagar komu að þvi. Aðgerðin gekk vel og fólst aðalega í því að ferja fólk niður af heiði og losa bíla sem komu í veg fyrir að hægt væri að ryðja. Aðgerðin stóð fram eftir nóttu.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson