Category Archives: Útköll

Óveðursútkall á Reykjavíkursvæðinu

HSSR var kölluð út um 2-leytið aðfararnótt 6.janúar ásamt nokkrum sveitum af höfuðborgarsvæðinu. Talsverð snjókoma var, skafrenningur og ófærð, og margir bílar fastir í úthverfum. Fóru báðir jepparnir út með 3 menn hvor til aðstoðar. Fjölmörg verkefni af ýmsum toga voru leyst, þar til veðri fór að slota. Lauk aðgerðum um 6-leytið. Samtals komu 8 manns að útkallinu.

—————-
Höfundur: Gunnlaugur Briem

Leit í Sólheimajökli lokið

Umfangsmikilli leit er lokið. Yfir 100 einstaklingar á vegum HSSR tóku þátt í henni, þegar mest lét voru 62 félaga HSSR á vettvangi í einu og vel gekk að manna þá daga sem á eftir komu.

Flest tæki voru virkjuð þar á meðal fór búðahópur austur með tjald og búnað. Á rýnifundi sem haldin var á M6 á sunnudagskvöldið, kom fram að aðgerðin tókst að mestu mjög vel frá okkar hendi þó vissulega sé alltaf hægt að gera betur. Meðal annars var bent að mætti koma upp betri aðstöðu til að hlaða inn ferlum og reitaskipulagi í tæki og þörf fyrir að bæta talstöðvarbúnað.

Sérstakt klapp fengu bílstjórar og bækistöðvarhópur á M6 fyrir góðan stuðnig. Einnig NII sem sáu um móttöku á búnaði á M6 ásamt fleiri félögum HSSR. Einnig kom fram mikil ánægja með hversu vel gekk að virkja eldri félaga. Þetta útkall reyndi á, aðstæður voru erfiðar en í heildina gekk það vel. Stjórn HSSR vill þakka öllum félögum sem komu að aðgerðinni.

—————-
Texti m. mynd: Þreyttir en það er eitthvað við þetta
Höfundur: Haukur Harðarson

Leit við Sólheimajökul heldur áfram

Leitin að sænskum ferðamanni við Sólheimajökul hefur enn ekki skilað árangri. Í gær voru rúmlega 30 félagar í HSSR við leit á svæðinu við erfiðar aðstæður, auk nokkurra félaga í bækistöð á M6. Leitin heldur áfram nú á laugardegi. Tjald HSSR hefur nú verið sett upp við vettvangsstjórn og hópar að búa sig til leitar í birtingu. Nú þegar eru farnir 32 félagar í HSSR af stað austur. Meðal annars hópur fyrrum undanfara sveitarinnar sem brugðust skjótt og vel við beiðni um aðstoð. Var þessi mynd tekin af þeim áður en þeir lögðu af stað í morgun.

—————-
Texti m. mynd: Eldri félagar svöruðu kallinu og mættu
Höfundur: Gunnlaugur Briem

Leit á Fimmvörðuhálsi og Sólheimajökli

Leitin er orðin mjög umfangsmikil og mætingin frá okkur verið mjög góð. Alls hafa 63 HSSR félagar farið austur auk bækistöðvarfólks, stjórnar hér í bænum og NII sem hafa komið að frágangi á M6. Alls eru þetta um 80 manns

Tjaldið okkar var sett upp við Baldvinsskála og nýttist mjög vel til að veita súpu og yl. Sleðar og Boli voru virkjaðir en eftir að leitinn færðist yfir á Sólheimajökul er allt leitað á fæti. Gerum ráð fyrir að halda áfram á föstudag og helgina ef þarf. Erum að prófa að nota vegginn á D4H til að veita upplýsingar um gang og brottfaratíma hópa. Endilega nýtið ykkur það.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Tvö útköll í dag

Í dag var HSSR kölluð út tvisvar. Fyrst um hádegisbil til aðstoðar konu sem var slösuð á fæti rétt við Rauðhóla og tóku 10 félagar þátt í þeirri aðgerð. Um hálftíu leytið var sveitin aftur kölluð út til að leita að manni á Reykjavíkursvæðinu. Tóku 20 manns þátt í þeirri aðgerð. Fannst maðurinn heill á húfi eftir skamma leit.

—————-
Höfundur: Gunnlaugur Briem

Útkall F2 gulur á Esjunni

Kl. 14:10 brugðust 10 félagar í HSSR við útkallsboðum frá Neyðarlínu, en göngumaður hafði slasast við stiku 3 á Esjunni. Alls voru tveir hópar tiltækir frá sveitinni. Vel gekk að koma hinum slasaða til bjargar og var hann kominn í sjúkrabíl um klukkutíma síðar.

—————-
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson

Útkall F2 gulur á Fimmvörðuhálsi og hálendisgæsla

Í dag tóku 26 félagar í HSSR þátt í útkalli á Fimmvörðuhálsi þar sem leitað var að erlendum ferðamanni. Alls voru fjórir hópar sendir á vettvang. Útkallið fékk farsælan endi þegar maðurinn fannst heill á húfi upp úr kl. 19.

Þá er gaman að geta þess að í dag mannaði HSSR einnig tvær vaktir í hálendisgæslu. Sú fyrri er vikulöng dvöl fjögurra félaga norðan Vatnajökuls og er sú vakt liður í árlegri og reglubundinni gæslu á hálendinu á vegum aðildarsveita Landsbjargar.

Seinni vaktin er tilkomin vegna aukin álags á umferð að fjallabaki eftir að þjóðvegur 1 fór í sundur við Múlakvísl. Fjórir félagar í HSSR hafa verið þar í þrjá daga og aðstoðað ferðafólk við að komast leiðar sinnar. Voru þeir á því að mörgum ferðalangnum hefði ekki leiðst þessi útúrdúr, enda er farið um afar fallegt landssvæði.

—————-
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson

Tveir hópar við störf fyrir austan

Tveir hópar frá HSSR lögðu af stað í bítið á fimmtudagsmorgni og voru komir á Vík kl. 8.00. Hóparnir gista fyrir austan og vinna föstudaginn. Þegar rætt var við þau að kvöldi fimmtudags voru þau að góðu yfirlæti, dagurinn búin að vera góður og á leið í hvíld. Alls eru 11 félagar fyrir austan.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Leit að þýskum ferðamanni á Sprengisandi

Kl. 16.30 var sleðahópur HSSR kallaður út til aðstoðar við eftirgrennslan eftir þýskum ferðamanni á Sprengisandi. Maðurinn hafði náð að gera vart við sig í síma, en nákvæm staðsetning hans var óljós. Fimm sleðamenn svöruðu kallinu og héldu austur á þremur bílum. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar fann ferðalanginn um kl. 18 og var útkall afturkallað skömmu eftir það.

Alls komu 15 manns að þessu útkalli fyrir hönd HSSR.

—————-
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson