Tækjahópur

Nú er starf tækjahóps komið í fullan gang eftir lágdeyðu sumarsins og eru verkefnin sem koma á borð okkar margvísleg og skemmtileg. Í næstu viku mun hópurinn til dæmis sjá um námskeið fyrir erlenda ráðstefnugesti Björgunar. Farið verður með þá á Langjökul þar sem þeim verður kynnt notkun tækja við leit og björgun á jöklum. Verkefni sem þetta skilar bæði tekjum en einnig góðri reynslu í reynslusafn þeirra sem taka þátt.

Þá hafa orðið breytingar á stjórn tækjahóps þar sem Guðmundur Jón Björgvinsson hefur tekið við keflinu af Baldri Gunnarssyni sem annar tveggja formanna hópsins. Við bjóðum Gumma, sem er búinn að starfa í sveitinni frá því elstu menn muna, velkominn og þökkum Baldri vel unnin störf síðastliðin ár.

—————-
Texti m. mynd: Reykur 3 í hálendisgæslu sumarið 2010.
Höfundur: Davíð Örvar Hansson

Tækjahópur

Stjórn HSSR hefur ákveðið að leggja niður bíla- og beltaflokka í núverandi mynd og setja á laggirnar tækjahóp sem hefur umsjón með öllum bifreiðum og snjóbílum HSSR. Markmiðið með þessari breytingu er að mynda öflugan hóp með fjölþættum tækjakosti sem er eftirsóknarvert fyrir tækjasinnaða félaga HSSR að starfa í.

Fulltrúar stjórnar kynntu þessa breytingu fyrir bíla- og beltaflokksmönnum á fundi í gær og mæltist hún almennt vel fyrir. Hlynur Skagfjörð Pálsson og Jóhannes Rögnvaldsson hafa tekið að sér að leiða starfið í tækjahópi HSSR næstu tvö árin. Þessi breyting verður kynnt frekar fyrir félögum HSSR á sveitarfundi í lok september.

Næsta vinnukvöld tækjahóps HSSR verður mánudaginn 6. september kl 20:00 og eru allir áhugasamir hvattir til að mæta.

—————-
Höfundur: Páll Ágúst Ásgeirsson