Author Archives: Hjálparsveit skáta í Reykjavík

HSSR gerir samstarfssamning við Storm

Skrifað undir samning á milli HSSR og Storms.

Haukur Harðarson og Ásdís Skúladóttir undirrita samninginn.

HSSR og Stromur hafa gert með sér samkomulag um kaup á vélsleðum og rekstrarvörum. Samkomulagið er til þriggja ára. Markmið samkomulagsins er m.a. að tryggja HSSR bestu kjör á sleðakaupum, rekstrarvörum og varahlutum. Samningurinn tryggir einnig félögum HSSR góð kjör á ýmsum búnaði sem seldur er í verslun Storms. Sleðaflokkur HSSR stefnir að þvi að vera með alla sína sleða sömu tegundar, en það einfaldar rekstur og þjálfun.

Haukur Harðarson sveitarforingi HSSR og Ásdís Skúladóttir framkæmdastjóri Storms skrifuðu undir samninginn í gær á árlegri sleðasýningu Storms þar sem nýjustu Polaris sleðarnir voru sýndir.

Stjórn skiptir með sér verkum

Stjórn skiptir með sér verkum

Yfirlit yfir verkaskiptingu stjórnar HSSR 2012-13.

Ný stjórn hefur fundað tvisvar frá aðalfundi og eitt af hennar fyrstu verkum var að skipta með sér ábyrgðarstöðum og ábyrgðarsviðum. Þorbjörg er 1. aðstoðarsveitarforingi, Hilmar 2. aðstoðarsveitarforingi, Kristjón heldur ritarastarfinu og Tómas tekur við starfi gjaldkera. Meðstjórnendur eru Sigþóra og Einar Ragnar.

Nánar má lesa um ábyrgðarsvið á töflu í andyri auk þess að upplýsingar um þau eru sett sem gögn á heimasíðuna.

Fulltrúaráðsfundur SL

Fulltrúaráðsfundur Slysvarnafélagsins Landsbjargar var haldinn í Háskólanum í Reykjavík í dag. Um 130 fulltrúar eininga sátu fundinn. Fjárhagsáætlun ársins var kynnt og hún samþykkt eftir nokkrar umræður en ljóst er að fara verður í töluverðan niðurskurð á rekstrinum. Meðal annars er gert ráð fyrir samdrætti í starfsmannahaldi, fækkun björgunarskipa, minnkandi framlags til Alþjóðasveitar, lokun Gufuskála auk fleiri aðgerða.

Hörður Már Harðarson, formaður SL kynnti hugmyndir að nýjum fjáröflunarleiðum sem eru til skoðunar. Að því loknu var farið yfir stöðuna í máli fráfarandi framkvæmdastjóra, flutt skýrsla um hálendisvaktina og farið yfir húsnæðismál félagsins og Slysavarnaskóla sjómanna. Sigþóra, Kristjón og Haukur sátu fundinn fyrir hönd HSSR.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Afmælissamæfing 2012

Afmælissamæfing HSSR 2012 verður haldin laugardaginn 24. nóvember nk. Þetta er útkallsæfing og verða þátttakendur boðaðir með SMS kl. 8 um morguninn, en hópar eiga að vera tilbúnir í verkefni kl. 9.
Í æfingunni verður reynt á ólíka þætti björgunarstarfsins. Þátttakendur eru beðnir um að gæta þess að vera vel merktir í Landsbjargarfatnaði og með allan venjulegan persónulegan öryggisbúnað.
Lokafrestur til skráningar er kl. 10 árdegis föstudaginn 23. nóvember og eru félagar hvattir til þess að gera grein fyrir mætingu sinni fyrir þann tíma.

—————-
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson

Ofurhópurinn sigraði

Ofurhópurinn sigraði Erikurall HSSR þetta árið. Keppnin var mjög hörð þetta árið, um 16 lið tóku þátt í keppninni og erfiðleikastuðull var hár. Verðlaunin voru að sjálfsögðu afhent á árshátíðinni og á myndinni fagna þær stöllur glæsilegum árangri. Í þriðja sæti var lið Óstjórnar en eins og venjulega er liðið í öðru sæti gleymt.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Fjallamennska 1 árið 2012

Fjallamennska 1 var haldin þetta árið á Fimmvörðuhálsi. Þriðjudaginn 13. nóvember mættu nýliðarnir á undirbúningskvöld á M6 þar sem farið var yfir helstu efnisatriði og rennt yfir búnaðarlistann, hnútar kenndir, sig æft og lánsbúnaði útdeilt.

Að kvöldi föstudagsins 16. var svo haldið austur að Skógum og upp slóðann á Fimmvörðuháls. Færið var nokkuð þungt en Eiríkur Odds náði þó að koma Ásnum um tveimur kílómetrum að vaðinu þegar ákveðið var að halda áfram fótgangandi. Þaðan var svo þrammað í nöprum norðankalda og hressilegum skafrenningi upp að nýja Baldvinsskála þar sem gist var um nóttina.

Morguninn eftir var spáð allhvössum vindi sunnan við Hálsinn og því var ákveðið að halda norðuryfir, reyna að fara yfir helstu atriði námskeiðsins á leiðinni og ná niður í Bása um kvöldið. Veður lægði eilítið eftir morgunmat en batnaði mjög þegar yfir hálsinn var komið og Tindfjallajökull og Mörkin blöstu við í allri sinni dýrð. Sunnudagsmorguninn héldu hóparnir upp að Réttarfelli og hlíðunum ofan Bása í mikilli veðurblíðu til að fara yfir þau efnisatriði sem ekki náðist að klára daginn áður. Þrátt fyrir heldur lítinn og lausan snjó fengu nýliðarnir nasaþefinn af þessum helstu atriðum fjallamennsku.

Námskeiðið varð því að öllu meiri fjallamennskuferð en gert hafði ráð fyrir og stóðst hópurinn þetta verkefni með prýði.

Continue reading

Erikurallið 2012

Hefst klukan 13:30 10. nóv. sem er núna komandi laugardagur. Staðsetnig er við Siglingaklúbinn í Nauthólsvík. Sunnan við Háskólann í Reykjavík og við Ylströndina. Ef þú ratar ekki 849-2618. Reikna má með því að keppnin taki 3 tíma verdur hún blásin af eftir þann tíma. Hvet alla til að mæta enda býður staðsetningin upp á áhorfendur.

Til liða sem eru að takka þátt. Það er hjálmaskylda á liðunum. Búningsaðstaða er á staðnum svo mælt er með því að taka sparifötin með sér, eftir bað í pottinum. Sundfatnaður leyfður en ekki skylda í pottinum. Mælt er með því að mæta í fötum sem mega blotna og skemmast, en þau þurfa að vera hlý. Ekki skylda að vera í búningum en þeir veita mögulega aukastig ef fólk stendur sig illa í rallinu. Einnig þurfa kependur að mæta með koddaver sem má skemmast. Tekið er fram að þetta er kepnni og það má svindla ef dómara taka ekki eftir því og múta þeim til að líta undan. Lið þurfa vera mætt eigi siðar en 13.20. Leikar hefjast 10 mínútum síðar.
Dómarar í ár eru Halldór Ingi, Kári Logason, Kjartan Óli, Árni þór, Ásgeir Björnsson

—————-
Höfundur: Halldór Ingi Ingimarsson

Árshátíð, aðalfundur, miðasala og borðapantanir

Þá er aðalfundurinn á morgun þriðjudag, muna það.

Og á morgun lýkur miðasölu á árshátíðina á laugardaginn, sjá nánar: https://hssr.is/main/frettir.asp?t=2&id=1799

Þeir sem vilja sitja saman við borð á árshátíðinni þurfa að mæta á aðalfund, þar verð ég að skrá borðapantir. Til vara má senda mér línu með óskum á ornson@gmail.com.

Taka þarf fram hvað það eru margir í hópnum. Til viðmiðunar þá eru hringborðin í salnum best með, en hóparnir mega vera af öllum stærðum:

8 manns sleppur er ekki of lítið 9 manns allt í góðu10 manns besti fjöldinn11 manns hægt en örlítið þröngt

—————-
Höfundur: Örn Guðmundsson

Uppstilling til stjórnar HSSR haustið 2012

Uppstillingarnefnd HSSR gerir hér með heyrinkunnuga uppstillingu til stjórnar HSSR en kosið verður í stjórn á aðalfundi á morgun, þriðjudaginn 6. nóvember.

Haukur Harðarson gefur kost á sér til sveitarforingja en kosið er til eins árs í senn. Kosið er um sæti meðstjórnenda til tveggja ára í senn.

Eftirfarandi sitja þegar í stjórn og eiga 1 ár eftir:

Kristjón SverrissonEinar Ragnar SigurðssonEftirfarandi gefa kost á sér í 4 laus sæti í stjórn:

Hilmar Már Aðalsteinsson (hefur nýlokið setu í stjórn) Sigþóra Ósk Þórhallsdóttir (hefur nýlokið setu í stjórn) Þorbjörg Hólmgeirsdóttir Tómas Gíslason Jafnframt er kosið um nýjan félagslegan endurskoðanda en Svava Ólafsdóttir býður sig fram í embættið.

Félögum er bent á að öllum er frjálst að bjóða sig fram til stjórnar HSSR.

Uppstillingarnefnd,
Hálfdán, Helgi og Helga

—————-
Höfundur: Hálfdán Ágústsson

Óveður á höfuðborgarsvæðinu.

Stundum er eins og að allt þurfi að gerast á sama tíma.
Í miðri Neyðarlkallssölu skellur á landinu eitt versta illviðri sem lengi hefur gengið yfir.
Flestar björgunarsveitir landsins eru með sinn mannskap að störfum og samhliða því seljum við Neyðarkalla eins og við verður komið.
Núna eru fimm hópar frá HSSR að störfum úti auk fólks í bækistöð. Þá eru margir nýliðar og eldri félagar við Neyðarkallssölu.

Ert þ.ú búinn að fá þinn Neyðarkall?

—————-
Texti m. mynd: Yfirlit yfir útkallshópana.
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson