Author Archives: Hjálparsveit skáta í Reykjavík

Formlegt upphaf flugeldavinnunar

Þriðjudagurinn 13. des 20:00.

Farið verður yfir helstu atriði flugeldasölunar, kynning á nýjum sölustað (Norðlingahollti) og verslunarstjórum ásamt hefðbundnum dagskrárliðum.

Unnur og Sigga (hér eftir þekktar sem smurskvísunar), tóku við smurbrauðinu af bingó í fyrra, ætla nú að þreyta frumraun sína innan hjálparsveitarinnar í heitri súkkulaðigerð og smákökubakstri.

—————-
Höfundur: Frímann Ingvarsson

Austurbær – Alvöru menn

Austurbær vill bjóða 200 björgunarsveita/slysavarnafólki af höfuðborgarsvæðinu á sýninguna Alvöru menn í Austurbæ við Snorrabraut. 100 miðar eru í boði á sýningu föstudagskvöldið 9. des kl. 20:00 og 100 miðar laugardagskvöldið 10. des, kl. 20:00. Þeir sem hafa áhuga á að sjá sýninguna þurfa sjálfir að sækja miðana í Austurbæ en miðasalan er opin sýningardagana frá klukkan 13:00-16:00 og 18:00-20:00. Vinsamlegast bregðist fljótt við því fyrstur kemur, fyrstur fær. Nefnið Slysavarnafélagið Landsbjörg í miðasölunni og fáið miða fyrir ykkur og félagana, eða fjölskyldumeðlimi 🙂 Upplýsingar um sýninguna má fá hér: http://midi.is/leikhus/1/6636

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Borgarstjórn í heimsókn

Mánudaginn 5. desember kom hluti borgarstjórnar Reykjavíkur í heimsókn á M6. Heimsóknin var í tilefni af degi sjálfboðaliða og tilgangurinn var að kynnast starfi SL og aðildareininga þeirra. Eftir kaffi, kynningar og lífrænt ræktuð epli var búnaður HSSR skoðaður og endað á því að sparka í nokkur dekk. Skemmtileg heimsókn og það ánægjulegasta við hana var að hún var af frumkvæði borgarinnar og áhuginn einlægur.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Fjallahópur á Skessuhorni

Sunnudaginn 4 desember fóru átta félagar í Fjallahópi í fjallgöngu á Skessuhorn. Spáð hafði verið nístingskulda og roki en nokkuð rættist úr veðri því þennan dag var frost vægt og vindur léttur norðan Skarðsheiðinnar.

Nokkuð þungfært var upp að toppi þar sem gljúpur snjór lá yfir öllu svo hópurinn skiptist á að ryðja slóðina frá vegi upp að Skessuhorni. Greiðlega gekk að finna leið upp sjálfa hlíðina en uppi á hryggnum var undirlagið ísi lagt. Göngumenn smelltu því undir sig broddunum fyrir síðasta spottann eftir hryggnum og upp á topp.

Gott skyggni var til austurs og vesturs og fallegt útsýni yfir hamrabeltin í Skarðsheðinni norðanverðri allt frá Heiðarhorni og inn að Skorradalsvatni. Eftir stutt stopp til að næra sig og njóta útsýnisins var svo haldið niður til að ná niður fyrir brattasta kaflann fyrir myrkur.

Sérdeilis prýðileg ferð og góð byrjun á vetrarvertíðinni.

—————-
Texti m. mynd: Fjallahópsliðar nálgast tindinn.
Höfundur: Martin Swift

Vélsleðahópur á æfingu á Langjökli

Fyrsti sleðatúrinn í vetur: Haldið var á Langjökul og áttum við góðan dag þar. Á leiðinni var mikil hrímþoka, máttum við hafa okkur alla við að brjóta ís af gleraugum til að sjá hvert við vorum að fara. Við þessar aðstæður reyndi á blindaksturshæfileika ökumanna sem er aldrei of oft æft. Við Þursaborg birti til svo þar gátum við sprett úr spori og gert nokkrar tækniæfingar.

Á heimleiðinni var haft samband við okkur og beðnir að aðstoða við böruburð í Reykjadal. Þótti okkur sniðugt að geta notað daginn vel bæði í sleðaferð og fjallgöngu

Vélsleðahópur

—————-
Texti m. mynd: Við Þursaborg
Höfundur: Eiríkur Lárusson

Skessuhorn á Sunnudaginn.

Nú er komið að þessu lang skemmtilegasta. Það er semsagt fjallaferð á sunnudaginn kemur og ákveðið að gönguleiðina á Skessuhorn.
Mæting er á M6 á sunnudagsmorgun klukkan 06:00 og brottför mjög fljótlega eftir það. Allir skulu hafa meðferðis brodda, ísexi, hjálm, belti og annað sem tilheyrir fjallaferð að vetrarlagi.

Athuga skal að forkröfur í ferðina eru þær að hafa lokið námskeiðunum Fjallamennska 1, Fjallamennska 2 og Snjóflóðanámskeiði.

Skráning (þátttaka) miðast við sætafjöldann í R1 og eru áhugasamir beðnir að skrá sig sem allra fyrst hér: https://hssr.d4h.org/team/events/view/29141

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Aðalfundi lokið

Þriðjudaginn 22. nóvember var aðalfundur HSSR haldinn. Hann var hefðbundinn, skýrsla stjórnar, lagðir fram reikningar og kosnig í helstu embætti. Einnig var stjórn veitt heimild til að greiða niður lán sem hvílir á Malarhöfða 6, ef það þætti hagkvæmt.

Þrír félagar hættu í stjórn, það eru þau Frímann, Helga Björk og Örn. Þeim eru öllum þökkuð vel unnin störf en þess má geta að Örn hefur setið í stjórn í sex ár að þessu sinni.

Haukur bauð sig fram til sveitarforingja, í stjórn til tveggja ára voru þrír í framboði, Kristjón, Einar Ragnar og Björk og Sigþóra í framboði til eins árs. Engin önnur framboð bárust og voru allir því sjálfkjörfnir. Fyrir sátu í stjórn og eiga eitt ár eftir af sínu kjörtímabili Anna Dagmar og Hilmar Már.

Fundurinn var mjög vel sóttur, um 100 manns sóttu hann. Skýrslu stjórnar er að finna hér á heimasíðunni undir gögn og meðfylgjandi er mynd af nýkjörinni stjórn.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Fræðslukvöld í endurlífgun á fimmtudagskvöld

Fræðslukvöld í endurlífgun í boði sjúkrahóps er fimmtudagskvöldið 24/11 kl 20:00 á M6. Kvöldið er ætlað öllum meðlimum sveitarinnar og vonumst við sérstaklega eftir að sjá eldri félaga sem ekki hafa farið nýlega á námskeið í Fyrstu hjálp.

Aðkoma að meðvitundarlausum einstaklingum er eitthvað sem hver sem er getur lent í, hvar sem er, og eru rétt viðbrögð það sem skiptir öllu máli varðandi útkoma þessa einstaklinga, sérstaklega þegar sérhæfð hjálp er ekki nærri. það geta allir veitt fyrstu hjálp!

Hvort sem þið eruð í rauða gallanum í starfi sveitarinnar eða jólaboðinu með ættingjum og vinum eru skjót og rétt viðbrögð aðalatriði, og því gott fyrir alla að fríska upp á þessa kunnáttu sína, hvort sem þeir eru virkir í starfi sveitarinnar eða ekki.

Með von um að sjá sem flesta,

Helgi

—————-
Texti m. mynd: Hringja-Hnoða
Höfundur: Helgi Þór Leifsson

Árskýrsla komin á vefinn

Árskýrslu HSSR fyrir síðasta starfsár er nú að finna á vefnum. Hún nær frá september 2010 til september 2011. Hún er á opnu svæði undir gögn. Aðalfundurinn byrjar klukkan 20.00. Það gleymdist að setja það í fundarboðið. Endilega mætið tímanlega, það þarf ákveðin fjöldi fullgildra félaga að mæta til að fundurinn skoðist löglegur og geti hafist.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson