Author Archives: Hjálparsveit skáta í Reykjavík

Vordagsferð Fjallahóps 2013

Kátur hópur.

Kátur hópur.

Fjórir vaskir félagar Fjallahóps, Charlotte, Ívar, Tinni og Tommi auk Hersis, hunds Tomma, héldu á Tröllakirkju í Kolbeinsstaðarfjalli á sunnudaginn. Spáin var sérdeilis góð og kappar því fullir tilhlökkunar enda lýsingarnar af útsýninu ofan af þessum tindi ákaflega heillandi.

Lagt var upp frá bænum Mýrdal inn af Kolbeinsstöðum. Ferðalangar höfðu útvegað sér feril en völdu sér leið nokkru sunnar, eftir dragi í stað þess að fylgja gilinu. Heildarhækkunin kemur í tveimur hlutum en þegar upp hinn fyrra er komið tekur við nokkur flati upp að Kirkjunni sjálfri.

Þegar upp á fyrri brúnina var komið blasti Tröllakirkjan við og virtist vænlegast að halda upp snjólínu eina í greinilegu gili, sunnanmegin í klettunum. Þegar nær dróg seinni hlutanum kom í ljós að þeir voru ekkert svo brattir og því ákveðið að leita að leið í gegnum hamrana.

Continue reading

Sveitarfundur HSSR 2013

Sveitarfundurinn var haldinn nú í kvöld og mæting góð enda hefð fyrir því að þar gangi inn stór hópur þeirra nýliða sem lokið hefur sínu öðru ári í nýliðaþjálfuninni og býður að því tilefni upp á myndarlegar kræsingar.

Að þessu sinni skrifaði undir eiðstafinn föngulegur fimmtán manna hópur; sjö karlar og átta konur. Búast má við að þau bætist á útkallsskrá á næstunni. Er sveitinni mikill sómi af þessu duglega fólki.

Nýliðarnir sem skrifuðu undir eiðstafinn ásamt félögum þeirra sem ganga inn á næstu mánuðum.

Nýliðarnir sem skrifuðu undir eiðstafinn ásamt félögum þeirra sem ganga inn á næstu mánuðum.

Meðal annarra dagskrárliða voru kynning á siðareglum sveitarinnar og afhjúpun eiðstafsins sem nú prýðir vegginn mót bækisstöðinni þegar komið er upp stigann á aðra hæð, Kristjón kynnti stöðu vefmála og Einar Ragnar reynsluna af sveitaræfingunum.

Að veislu veitinga lokinni var Birgir Blöndahl með stutta tölu og myndasýningu frá nýlegu námskeiði sem hann sótti í Chile í vetur.

Fjallamennska 2

Tveir hópar rétt undir hryggnum stuttu fyrir niðurferð.

Tveir hópar rétt undir hryggnum stuttu fyrir niðurferð.

Nú um helgina hélt vaskur hópur nýliða ásamt undanförum og undanrennum upp í Skarðsheiði að nema fjallamennskufræði. Lagt var af stað af Malarhöfðanum rétt fyrir dagrenningu á laugardeginum.

Stefnan var á skálina vestan við Skessuhorn og fann hópurinn ákjósanlegt tjaldstæði við Katlana rétt undir Horninu. Þar var slegið upp tjaldbúðum og svo haldið í ísaxarbremsuæfingar og broddagöngu. Aðstæður voru með besta móti; gott veður og glerhart hjarn.

Allir hópar voru svo komnir aftur niður rétt fyrir sólsetur. Fólk kom sér fyrir í tjöldum sínum, eldaði kvöldmat og hélt sátt og satt í háttinn eftir langan dag.

Continue reading

Sveitarfundur HSSR þriðjudaginn 19. mars

Sveitarfundur HSSR verður haldinn þriðjudaginn 19. mars næstkomandi Malarhöfða 6.  Fundurinn hefst klukkan 20:00 og eru allir félagar hvattir til að mæta.

Dagskrá fundarins er:

  • Útkallsmál, mæting og uppbygging útkallslista
  • Skýrsla stjórnar
  • Peningamál sveitarinnar
  • Dagskrá og stefnan í henni næsta árið
  • Ný heimasíða sveitarinnar
  • Siðareglur HSSR
  • Innganga nýrra félaga
  • Birgir Blöndahl verður með kynningu á ferð sinni suður um höf

N2 munu sjá fyrir glæsilegum veitingum í hléi!

Stjórn hvetur alla félaga sem nýliða til að fjölmenna á fundinn!

Útkall F2 gulur, fótbrotinn maður í Botnssúlum

Útkall F2 gulurHjálparsveitir á Svæði 1 var kölluð út í dag vegna manns sem fótbrotnaði í Botnsúlum. Frá HSSR fóru alls 10 manns með snjóbíl og snjósleða með í för.

Aðgerðin gekk vel, hinn slasaði var fluttur á börum áleiðis að þyrluni sem flutti hann á slysadeild. Veður var þokkalegt en heldur snjólítið var fyrir tækin okkar.

Alls komu 20 manns að aðgerðinni.

Ísklifurfestival á Ísafirði

09Síðustu helgi fóru 4 meðlimir HSSR á Ísklifurfestival ÍSALP sem haldið var á Ísafirði. Reykur 7 var fenginn að láni og lagt af stað á föstudagseftirmiðdegi kl. 17.30. Með í för voru einnig þrír frá HSSK og gist var í heimili Björgunarfélags Ísafjarðar.

Við fórum snemma á fætur á laugardagsmorgni og hittum fleiri meðlimi ÍSALP í Dýrafirði um kl. 8.30. Þaðan var gengið inn í Eyrardal en þar er mikið af óklifruðum ísleiðum. Við völdum góðan stað í dalnum og gengum upp langa og bratta snjóbrekku til þess að komast í ísinn. Lítið sem ekkert hefur verið klifrað þarna og því voru margar „first ascent“ farnar þennan daginn. Ottó og Katrín klifruðu ónefnda ca. WI4 ísleið, fulla af grýlukertum og regnhlífum. Danni, Charlotte og félagar HSSK æfðu sig í annarri 2-4 gráðu ísleið, eftir getustigum. Um kvöldið hittust ísklifrarar á Bræðraborg þar sem þeir  gæddu sér á æðislegri kjötsúpu og ræddu ævintýri dagsins fram og aftur.

Continue reading

Styrkur frá ISAVIA móttekinn

Isavia styrkir hjálparsveitir

Styrkur frá ISAVIA móttekinn

Félagar í HSSR taka á móti styrk frá ISAVIA.

Á nýliðnu ári veitti stjórn ISAVIA nokkrum hjálparsveitum fjárstyrk til að efla viðbragð sveitanna í hópslysum, þar á meðal í flugslysum. Síðastliðinn föstudag bauð ISAVIA þremur sveitum af höfuðborgarsvæðinu í móttöku þar sem fjárveitingin og tilgangur hennar var kynnt.

Hjálparsveit skáta nýtti styrkinn til kaupa á fjórum stórum töskum til að sameina allan neyðarbúnað sveitarinnar á einn stað í hverju farartæki. Jafnframt var innihald þeirra endurnýjað og er þar nú að finna m.a. bráðaflokkunartösku, nýja súrefniskúta, blóðþrýstingsmæla, reykbombur og neyðarblys og fjölmargt fleira, sjá einnig frétt frá maí 2012. Töskurnar eru handhægar og má með örfáum handtökum breyta þeim í bakpoka. Auðvelt er að grípa sjúkrabúnaðinn með sér, að hluta eða í heild. Einnig sýndi sveitin áfyllingartöskur sem voru keyptar. Þar er á einum stað búnaður til að fylla á sjúkratöskur björgunarmanna en hratt getur gengið á birgðir í litlum sjúkratöskum þeirra ef sinna þarf mörgum slösuðum.

Continue reading

Gönguskíði

Eftirfarandi er gönguskíðadagskrá HSSR fyrstu vikuna í febrúar:

  • Fimmtudagur 7. febrúar kl. 18, æfingaferð (líklega í Bláfjöllum).
  • Laugardagur 9. febrúar, dagsferð á skíðum.

Eftirbátar munu sjá um æfingar og kennslu.

Í Bláfjöllum verður hægt að fá leigð skíði fyrir þá sem ekki eiga og einhver ráð verða með að bjarga skíðum skíðalausum í dagsferðinni einnig.

Skráning er í D4H.

Víðir Reynisson

Almannavarnir í nútíð og fortíð

Víðir Reynisson

Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadaeildar ríkislöglustjóra.

Varðberg hefur beðið Víði Reynisson, deildarstjóra almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, að flytja erindi fyrir Varðberg í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands fimmtudaginn 31. janúar klukkan 12.00 til 13.00. Hann mun ræða um almannavarnir í nútíð, nýjar áskoranir og öryggi almennings. Undanfarin ár hefur reynt á almannavarnakerfið vegna náttúruhamfara. Óveður í haust og í vetur eru nýjustu dæmin um hvernig kerfið er virkjað til að tryggja öryggi almennings. Þetta mikilvæga öryggiskerfi alls almennings er í sífelldri þróun og mótun.

Samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna í Skógarhlíð er virkjuð þegar nauðsyn krefst að mati þeirra sem koma að stjórn leitar og björgunar eða viðbragða við hættuástandi. Liður í öflugum almannavörnum er miðlun upplýsinga um hlutverk þeirra og eðli. Víðir gekk í Hjálparsveit skáta í Reykjavík árið 1986 og hefur síðan tekið þátt í fjölmörgum aðgerðum í þágu almannaöryggis, þar á meðal umfangsmiklum björgunaraðgerðum eins og snjóflóðunum árið 1995. Upphaflega var hann almennur félagi, síðar stjórnandi hópa og að lokum þátttakandi í svæðisstjórn. Árið 2000 hóf Víðir störf hjá Almannavörnum ríkisins og varð starfsmaður við embætti ríkislögreglustjóra þegar málefni almannavarna voru flutt þangað árið 2003. Hann lauk prófi frá lögregluskóla ríkisins árið 2006 og tók í árslok við sem deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Hann hefur sem yfirmaður samhæfingarstöðvar almannavarna leitt samhæfingu milli viðbragðsaðila, opinberra stofnana og ráðuneyta.

Allir áhugasamir velkomnir.

MODEX 2013

Æfingu Alþjóðasveitarinnar í Danmörku að ljúka

MODEX 2013

Félagar í ÍA við störf sín í æfingunni MODEX 2013 sem haldin var í Danmörku í janúar 2013.

Æfingu Alþjóðasveitarinnar í Danmörku er nú að ljúka. Sveitin er komin í sk. ‘stand-down’ stöðu og meðlimir byrjaðir að týna saman búnað, þurrka verkfæri og skipuleggja heimför.

Æfingin hefur gengið vel síðasta sólarhringinn. Reynt hefur á marga mismunandi þætti eins og viðbrögð við slysi á björgunarmanni, samstarfi við tékkneska vettvangs spítalann og þátttöku í verkefnum með bresku sveitinni. Sveitin sinnti í dag fjórum mismunandi verkefnum í einu þ.e. leit í rústum, leit að flugvél sem hrapaði, hundaleit og mat á tjóni á öðrum vettvangi. Þannig hafa t.d. björgunarmenn, stjórnendur, fjarskiptafólk og OSOCC hópur fengið margvíslega þjálfun við fjölbreytt verkefni og mikla samhæfingu við marga aðila. Allt er þetta gert undir vökulum augum eftirlitsaðila frá Evrópusambandinu og þjálfara frá æfingastjórn. Þessir aðilar koma reglulega til að fylgjast með og spyrja fólk hvaða ákvarðanir hafa verið teknar og af hverju. Þetta hjálpar okkur til að skoða gagnrýnið okkar störf og meta hvað við erum að gera vel og hvað mætti bæta.

Það hefur hlýnað töluvert, nú komið upp fyrir frostmark, svo að fólk er slakara en búðirnar eru að breytast í drullusvað þannig að hitinn hefur sína kosti og galla. Búðahópur hefur venju samkvæmt framreitt dýrindis mat þannig að sveitin er vel haldin. Svo er það bara heimferðardagur á morgun en búðahópur er er væntanlegur á þriðjudag.