Fjórir vaskir félagar Fjallahóps, Charlotte, Ívar, Tinni og Tommi auk Hersis, hunds Tomma, héldu á Tröllakirkju í Kolbeinsstaðarfjalli á sunnudaginn. Spáin var sérdeilis góð og kappar því fullir tilhlökkunar enda lýsingarnar af útsýninu ofan af þessum tindi ákaflega heillandi.
Lagt var upp frá bænum Mýrdal inn af Kolbeinsstöðum. Ferðalangar höfðu útvegað sér feril en völdu sér leið nokkru sunnar, eftir dragi í stað þess að fylgja gilinu. Heildarhækkunin kemur í tveimur hlutum en þegar upp hinn fyrra er komið tekur við nokkur flati upp að Kirkjunni sjálfri.
Þegar upp á fyrri brúnina var komið blasti Tröllakirkjan við og virtist vænlegast að halda upp snjólínu eina í greinilegu gili, sunnanmegin í klettunum. Þegar nær dróg seinni hlutanum kom í ljós að þeir voru ekkert svo brattir og því ákveðið að leita að leið í gegnum hamrana.