Author Archives: Hjálparsveit skáta í Reykjavík

MODEX 2013

ÍA í Danmörku á æfingu

MODEX 2013

Félagar í ÍA við störf sín í æfingunni MODEX 2013 sem haldin var í Danmörku í janúar 2013.

Íslenska alþjóðasveitin er nú stödd á æfingu í Danmörku. Aðstaða til að æfa rústabjörgun er með besta móti, en æfingasvæðið hefur verið sett upp eins og um bæ sé að ræða. Alls fóru 45 félagar með sveitinni en hún samanstendur af rústabjörgunarmönnum, læknum, bráðatæknum, samhæfingarhópi, skyndihjálparmönnum, fjarskiptahóp, búðahóp, stjórnendum og félögum úr hundabjörgunarsveit. Þar af eru níu félagar HSSR.

Verkefnið sem er verið að leysa er björgun eftir jarðskjálfta af stærðargráðunni 8,1 á Richter og flóðbylgju í kjölfarið sem hefur haft mikil áhrif í hinu ímyndaða Eulandi. Íslenska alþjóðasveitin hefur farið í gegnum alla þá þætti sem gerast í venjulegu útkalli, svo sem undirbúningi, ferð út, tollskoðun,  uppsetningu móttökustöðvar fyrir erlendar sveitir á leið inn í landið, uppsetningu búða og ekki síst björgun úr rústum. Þegar þetta er skrifað hefur 17 sjúklingum verið bjargað úr rústunum af íslenska björgunarfólkinu.

Sumir hafa verið fluttir á Field Hospital sem er rekinn af tékkneskri sveit lækna og hjúkrunarfræðinga sem einnig taka þátt í æfingunni en auk þess er hér bresk rústabjörgunarsveit að æfa. Aðstæður eru því mjög raunverulegar og gagnast sveitinni mjög vel í að auka færni sína. Síðustu fjóra tíma hefur snjóað og það er kalt úti sem gerir verkefnið allt mjög krefjandi. Fólk þarf að hafa fyrir því að halda á sér hita hvort sem það er úti að vinna eða í hvíld ofan í svefnpoka. Allt gengur þó vel og andinn í hópnum góður.

Reykur 7

Opið hús að Malarhöfða 6

Reykur 7

Reykur 7, Ford Transit bifreið HSSR.

Mánudaginn 28. janúar verður “opið” hús hjá HSSR. Við erum búin að fá óskir frá öðrum sveitum um að skoða rafræna svörum í útköllum og nýjan bíl sem við vorum að taka í notkun. Því ákváðum við að slá þessu saman auk þess sem alltaf skemmtilegt að fá félaga í heimsókn. Þetta verður allt á óformlegu nótunum, við verðum á staðnum frá kl. 19.00 til 21.30 og lengur ef áhugi er fyrir því. Líklega höfðar þetta mest til tækja og bækistöðvarhópa auk stjórnarmanna í öðrum einingum en allir áhugasamir eru velkomnir.

Meðal þess sem hægt verður að sjá:

  • Nýjan bíl sem við vorum að taka í notkun. Þar er um að ræða Ford Transit, 9 manna bíl sem fluttur var inn í gegnum Bílaleigu Akureyrar en breytt í Póllandi. Bíllinn er eftirársbíll og tiltölulega ódýr kostur.
  • Rafrænt kerfi sem við notum við svörun útkalla og til að auðvelda bækistöðvarhóp að fá yfirlit yfir stöðu, röðun í hópa og gefa upplýsingar til þeirra sem mæta í útkallið. Kerfið hefur verið kynnt í tímaritinu Björgun.
  • D4H kerfið (utanumhald, dagskrá, útköll, mætingar). Kerfi sem nokkuð margar sveitir hafa tekið í notkun en nú er komin tæplega tveggja ára reynsla hjá okkur á það og við höfum ákveðið að nýta það áfram.
  • Einnig verða Polaris sleðar sem eru að komast á snjó á staðnum.

Kaffi á könnunni og nammi sem ekki kláraðist í flugeldasölunni. Tækjahópar, bækistöðvarhópur og stjórnarmenn verða á staðnum

Stjórn HSSR

Útkall F1 rauður

Leit að göngumanni á Esju

Hjálparsveit skáta í Reykjavík var kölluð til leitar að göngumanni í Esjunni í dag. Maðurinn, sem varð viðskila við félaga sinn, var á ferð á Kerhólakambi og villtist. Fóru þeir sitthvora leiðina niður. Þegar annar þeirra skilaði sér ekki var kallað eftir aðstoð frá Neyðarlínu. Maðurinn fannst 5 tímum síðar, heill húfi. Aðstæður voru erfiðar framan af, vindur 18-20 m/s og slæmt skyggni, en þegar leið á aðgerðina rofaði til.

Alls komu 30 félagar HSSR að þessu útkalli.

Slysavarnafélagið Landsbjörg

Yfirleiðbeinandi í fyrstu hjálp óskast

Slysavarnafélagið Landsbjörg

Merki Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Björgunarskólinn auglýsir eftir umsóknum um lausa stöðu yfirleiðbeinanda í fyrstu hjálp.
Skólinn leitar að öflugu björgunarsveitarfólki með mikla reynslu á sviði fyrstu hjálpar. Starf yfirleiðbeinanda Björgunarskólans felst meðal annars í:

  • kennslu sem yfirleiðbeinandi við Björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar
  • vinnu við gerð og fullvinnslu kennslugangna og tryggja að námsefni sé uppfært reglulega
  • setu í skyndihjálparráði fyrir hönd Björgunarskóla SL
  • samskipti við erlenda tengiliði á sviði fyrstu hjálpar

Einnig skal yfirleiðbeinandi:

  • fylgjast með nýjungum á sviðið fyrstu hjálpar sem skólinn mun gefa út og nota fyrir nemendur skólans sem og við námskeið á vegum félagsins
  • halda utan um fagnámskeið í faginuendurmenntun leiðbeinenda
  • fjarnámskeið auk þess að vera virkum leiðbeinendum í fyrstu hjálp innan handar.

Umsækjendur skulu skila inn yfirliti yfir menntun og reynslu.

Ekki er um að ræða fulla stöðu heldur er gerður verktakasamningur við viðkomandi. Umsólknarfrestur er til 1. febrúar næstkomandi og er gert ráð fyrir að gengið verði frá ráðningu fyrir 15. febrúar 2013. Frekari upplýsingar veitir Dagbjartur Kr. Brynjarsson, skólastjóri Björgunarskólans, í netfanginu dagbjartur@landsbjorg.is.

Ferð vélsleðahóps í janúar 2013.

Vélsleðahópur í viðgerðum á veðurstöð

Ferð vélsleðahóps í janúar 2013.

Leiðin sem farin var í ferð vélsleðahóps í janúar 2013.

Ferðin í gær gékk vel þrátt fyrir lítinn snjó og mikinn ís. Tekið var af við Sigöldu og ekið eftir veginum í gegnum hraunið þar sem var mikill ís og stórir pollar inn á milli. Brunað var framhjá Höllinni og stoppað stutt við Glaðheima. Þaðan var ekið um Grænalón og vestan Kattarhryggja, en þar tók Stubburinn upp gamla siði og fór að ganga illa. Skildu því leiðir og héldum við fjórir áfram á meðan hinir brösuðu við sleðana.

Veðurstöðin sem gera þurfti við er staðsett við Lónakvísl skammt frá Botlangatjörn. Vindrella á stöðinni var löskuð og þurfti því að fella 10m. mastur til að skipta henni út og einnig var skipt um vigt í úrkomumæli. Þegar við komum aftur til baka voru strákarnir enn að brasa við sleðann og var því ekkert annað að gera en að draga sleðann. Þegar búið var að draga sleðan daggóðan spöl var reynt að gangsetja og komst sleðinn fyrir eiginn vélarafli niður að bíl.

Þetta var fyrsti túrinn á nýja sleðanum og reyndist hann mjög vel og þar kom berlega í ljós hvað hann er góður á svelli enda eru ansi mörg kíló af nöglum í beltinu.

Skönnun gamalla ljósmynda

Laugardaginn 26. janúar verður skönnunardagur í HSSR, en þá munu nokkrir félagar hittast á M6 og skanna gamlar ljósmyndir úr sveitarstarfinu af pappír og filmu. Af því tilefni eru eldri félagar hvattir til þess að kíkja í gömul myndaalbúm, finna myndir og koma þeim til skrifstofu HSSR fyrir þann tíma svo hægt sé að koma þeim inn í ljósmyndasafn sveitarinnar.

Frekari upplýsingar gefur Óli í netfanginu olijon@gmail.com eða síma 699-1000. Hafið endilega samband ef eitthvað er.

Áhugasamir félagar sem eiga góða skanna og fartölvu eru hvattir til þess að líta við á M6 og taka þátt í skemmtilegu og þörfu verkefni.

Æfingin MODEX 2013

SAREX 2012

Frá æfingunni SAREX á Grænlandi haustið 2012

Síðustu daga hefur búðahópur verið önnum kafinn við að undirbúa þátttöku á MODEX 2013, en hópurinn tekur þátt í æfingunni sem hluti af Íslensku alþjóðbjörgunarsveitinni (ÍA). Æfingin fer fram í Tinglev í Danmörku dagana 25.-28. janúar nk. ÍA hópurinn mun samanstanda af 45 einstaklingum, þar af sex úr búðahópi HSSR. Einnig eru þrír aðrir HSSR-ingar þátttakendur á æfingunni í gegnum aðrar aðildareiningar ÍA. Á æfingunni verða einnig bresk rústabjörgunarsveit (MUSAR) sem við kynntumst aðeins á Haiti og tékknesk sveit (AMP) sem mun setja upp sjúkrahús (e. field hospital).

Í Tinglev er æfingasvæði fyrir rústabjörgun á vegum dönsku almannavarnanna, Danish Emergency Management Agency (DEMA). Markmið æfingarinnar er að kanna hvort ÍA standist þær kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra rústabjörgunarsveita og munu eftirlitsmenn fylgjast með sveitinni allan tímann.

Kostnaður vegna þátttöku ÍA í æfingunni er greiddur með styrk frá Evrópusambandinu.

Takk fyrir stuðninginn

Flugeldasala Hjálparsveitar skáta í Reykjavík gekk vel. Enn eitt árið sýndu borgarbúar hversu vel þeir kunna að meta okkar starf með því að versla flugelda frá okkur. Einnig var óvenju mikið um bein peningaframlög til sveitarinnar, fólk kom á sölustaði og rétti peninga yfir borðið án þess að kaupa flugelda. Það er okkur mikils virði að finna þann mikla velvilja sem er ríkjandi í okkar garð.

Flugeldasalan heldur okkur gangandi og með góðri sölu er okkar viðbragð tryggt. Takk fyrir stuðninginn.

Haukur Harðarson,
sveitarforingi Hjálparsveitar skáta í Reykjavík.

Enn meiri flugeldar!

Sölustaðir flugelda 2012.

Flugeldasölustaðir Hjálparsveitar skáta í Reykjavík 2012.

Veðurspáin fyrir miðnætti á gamlársdag er góð og því kjörið tækifæri að kveðja árið sem er að líða með stæl.

Á gamlársdag er opið frá kl. 10:00 til 16:00. Sölustaðir eru á eftirfarandi stöðum:

  • Malarhöfði 6
  • Mjódd
  • Spöng
  • Bílabúð Benna
  • Norðlingaholti
  • Við Húsasmiðjuna í Grafarholti
  • Skátaheimili Skjöldunga við Sólheima

Munið eftir öryggisgleraugum, vettlingum og víkja vel frá.

Takk fyrir stuðninginn nú í ár sem á liðnum árum