Íslenska alþjóðasveitin er nú stödd á æfingu í Danmörku. Aðstaða til að æfa rústabjörgun er með besta móti, en æfingasvæðið hefur verið sett upp eins og um bæ sé að ræða. Alls fóru 45 félagar með sveitinni en hún samanstendur af rústabjörgunarmönnum, læknum, bráðatæknum, samhæfingarhópi, skyndihjálparmönnum, fjarskiptahóp, búðahóp, stjórnendum og félögum úr hundabjörgunarsveit. Þar af eru níu félagar HSSR.
Verkefnið sem er verið að leysa er björgun eftir jarðskjálfta af stærðargráðunni 8,1 á Richter og flóðbylgju í kjölfarið sem hefur haft mikil áhrif í hinu ímyndaða Eulandi. Íslenska alþjóðasveitin hefur farið í gegnum alla þá þætti sem gerast í venjulegu útkalli, svo sem undirbúningi, ferð út, tollskoðun, uppsetningu móttökustöðvar fyrir erlendar sveitir á leið inn í landið, uppsetningu búða og ekki síst björgun úr rústum. Þegar þetta er skrifað hefur 17 sjúklingum verið bjargað úr rústunum af íslenska björgunarfólkinu.
Sumir hafa verið fluttir á Field Hospital sem er rekinn af tékkneskri sveit lækna og hjúkrunarfræðinga sem einnig taka þátt í æfingunni en auk þess er hér bresk rústabjörgunarsveit að æfa. Aðstæður eru því mjög raunverulegar og gagnast sveitinni mjög vel í að auka færni sína. Síðustu fjóra tíma hefur snjóað og það er kalt úti sem gerir verkefnið allt mjög krefjandi. Fólk þarf að hafa fyrir því að halda á sér hita hvort sem það er úti að vinna eða í hvíld ofan í svefnpoka. Allt gengur þó vel og andinn í hópnum góður.