Category Archives: Frá félögum

Þetta eru ferðasögur og hvaðeina sem félagar birta upp á sitt einsdæmi.

HSSR á Landsæfingu Landsbjargar

Landsæfing Slysavarnafélagsins Landsbjargar fór fram í Borgarfirði og nágrenni sl. helgi. Um 20 meðlimir HSSR í þremur hópum tóku þátt í verkefnum af ýmsum toga, m.a. aðkomu að hópslysi, fjallabjörgun, leit, fyrstu hjálp, björgun úr straumá og fleira.

Fjallahjólaferð HSSR

Þann 6. – 8.september sl. var farið í árlega Fjallahjólaferð HSSR.

013Dagur 1: 26km

Leiðin lá í Úthlíð þar sem byrjað var að hjóla um kvöldmatarleytið. Hjólað var slóða sem liggur austan við Högnhöfða og yfir Hellisskarð um Rótarsand að Hlöðuvöllum í nýuppgerðan skála Ferðafélags Íslands.

Dagur 2: 63km

104

Hjólað var vestan við Hlöðufell að Þórólfsfelli og inn á línuveginn norðan við Skjaldbreið áleiðis að Litla-Brunnavatni þar sem snæddur var hádegisverður. Þaðan var farið inn á Uxahryggjaleið, inn á línuveg við Eiríksvatn, niður Skorradal og meðfram Skorradalsvatni að næsta gististað við Stóra-Drageyri með viðkomu á Vöfflustöðum. Þessi leggur var fljótfarinn enda með mikið meðvind alla leiðina öllum til ómældrar gleði.

Dagur 3:27km

194Þennan dag skipti hópurinn sér niður á tvær leiðir að áfangastað í Leirársveit. Annar hópurinn fór Dragann,  austur Svínadal að Neðra Skarði á meðan hinn hópurinn fór yfir Skarðsheiðina og niður snarbrattar hlíðar Snóksfjall. Leiðin sóttist hægt sökum mikils mótvinds og úrkomu.

Ferðin tókst í alla staði vel og var strax farið að leggja drög að næstu ferð sem farin verður fyrstu helgina í september 2014.

204

Avalanche operations Level 1

Frá Róberti Halldórssyni:

Síðastliðinn vetur lagði ég land undir fót til Kanada að sækja mér þekkingu í snjóflóðafræðum.  Kanada varð fyrir valinu þar sem þeir eru leiðandi í heiminum í snjóflóðafræðum og rannsóknum á því sviði og lá það vel við að læra þar sem hlutirnir voru fundnir upp.


Kanadísku snjóflóðasamtökin (Canadian Avalanche Assosiation eða CAA) hafa verið að störfum í 20 ár og verið leiðandi í snjóflóðarannsóknum, snjóflóðahættumati og snjóflóðaspám fyrir vegagerð og öryggi almennings. Snjóflóðastofa eða Canadian Avalanche Center var svo sett á fót árið 2004 sem vettvangur til að sameina rannsóknir, kennslu og halda utan um upplýsingar í fræðigreininni. Stofnunin er ekki ríkisfyritæki og er ekki rekin með gróðasjónarmiði heldur til þess að auka öryggi og þekkingu almennings og halda þekkingu og kennslustöðlum uppi á háu stigi. Continue reading

Hjólahópur HSSR

Heiðmörk á góðum degi.

Heiðmörk á góðum degi.

Nú í vor var lagt af stað með formlegan hjólahóp innan HSSR. Hefur hópurinn farið í nokkrar ferðir út frá höfuðstöðvum sveitarinnar að Malarhöfða 6.

Síðustu fjóra sunnudagsmorgna hefur hópurinn farið um stíga Heiðmerkur og Hólmsheiðar, kringum og yfir Úlfarsfell, hring um Reykjavík og aðrar skemmtilegar leiðir á höfðuborgarsvæðinu.

Vonast er til að hópurinn eflist enn frekar og verði hægt að nota hann í sérhæfð útköll í framtíðinni.
Hópurinn er með facebook síðu og er öllum félögum HSSR velkomið að taka þátt í að skipuleggja eða koma með hugmyndir af ferðum fyrir hópinn:
https://www.facebook.com/groups/520384934689260/

Úlfarsfell-Mosó-Ströndin

Úlfarsfell-Mosó-Ströndin

Ísklifurfestival á Ísafirði

09Síðustu helgi fóru 4 meðlimir HSSR á Ísklifurfestival ÍSALP sem haldið var á Ísafirði. Reykur 7 var fenginn að láni og lagt af stað á föstudagseftirmiðdegi kl. 17.30. Með í för voru einnig þrír frá HSSK og gist var í heimili Björgunarfélags Ísafjarðar.

Við fórum snemma á fætur á laugardagsmorgni og hittum fleiri meðlimi ÍSALP í Dýrafirði um kl. 8.30. Þaðan var gengið inn í Eyrardal en þar er mikið af óklifruðum ísleiðum. Við völdum góðan stað í dalnum og gengum upp langa og bratta snjóbrekku til þess að komast í ísinn. Lítið sem ekkert hefur verið klifrað þarna og því voru margar „first ascent“ farnar þennan daginn. Ottó og Katrín klifruðu ónefnda ca. WI4 ísleið, fulla af grýlukertum og regnhlífum. Danni, Charlotte og félagar HSSK æfðu sig í annarri 2-4 gráðu ísleið, eftir getustigum. Um kvöldið hittust ísklifrarar á Bræðraborg þar sem þeir  gæddu sér á æðislegri kjötsúpu og ræddu ævintýri dagsins fram og aftur.

Continue reading

Klifurkvöld á M6

Einu sinni var það þannig að klifursjúklingar hjálparsveitarinnar hittust upp á Malarhöfða á fimmtudagskvöldum til að svala klifurfíkn sinni. Við Daníel Másson ætlum að endurvekja þessi fimmtudags klifurkvöld og byrjar fyrsta kvöldið á morgun.

Það er öllum velkomið að mæta á þessi klifurkvöld, stórir sem smáir, feitir sem mjóir. Þeir sem eru vanir klifri geta komið og verið öryggir með að finna sér einhvern tryggjara og þeir sem hafa aldrei klifrað áður fá smá kennslu í klifri, leiðslu, tryggingartækni o.s.fr.

Ég og Danni munum mæta um 18:00 og við gerum ráð fyrir að fólk verði í veggnum til ca. 22.

Hlökkum til að sjá ykkur 😀

—————-
Texti m. mynd: Þessi mætir á morgun
Höfundur: Ottó Ingi Þórisson

Hjólaferð HSSR 2012

Hjólaferð um fjallabak tókst með afbryggðum vel enda veður tryggt þar sem Hálfdán Á var fararstjóra.

Hjólað var frá Hólaskjóli í Álftavötn, Strútslaug, Skófluklif, Mælifellssand, Hvanngil og endað í Álftavatnsskála FÍ á laugardag. Smá snjóhrets varð vart norðan Svartahnúksfjalla og á Mælifellssandi í samt frábæru stuttbuxnaveðri.

Á sunnudag var hjólað vestan Álftavatns, Hvítmögu, Króksleið, Mosa, Einhyrningsflatir og í Fljótshlíð í hreynt frábæru veðri enda var spáð fárviðri.

Þess má geta að fararstjórinn hafði einnig séð til þess að rétt hitastig væri á Strútslaug.

Æfð voru sundtök þegar hjólað var yfir Hvítmögu og eins voru ýmsar tilfærslur við reiðskjótana til að geta setið í trússbílnum hjá Árna bílstjór. Mjög vel heppnuð ferð í alla staði!

—————-
Texti m. mynd: Alsæll hjólahópur
Höfundur: Hilmar Már Aðalsteinsson