Category Archives: Fréttir

Æfing hjá búðahópi

Búðahópur HSSR efndi til stórrar æfingar að kvöldi þriðjudagsins 29. maí sl. þar sem haldið var á grasflatir í Elliðaárdalnum og búðum slegið upp. Öllu var bókstaflega tjaldað sem til var og voru þátttakendur sammála um að æfingin hefði gengið vel.
Í heildina fóru upp 13 vinnu-, birgða- og svefntjöld með vinnu- og svefnaðstöðu fyrir 40 manna sveit. Búðirnar voru standsettar með rafmagni í öllum vinnutjöldum og voru þær því fyllilega starfhæfar og tilbúnar til notkunar.
Búðahópur er hluti af Íslensku alþjóðasveitinni og sér um rekstur búða fyrir hana í útköllum. Í hópnum eru um 25 manns og þar af starfa 10 beint með ÍA.

—————-
Texti m. mynd: Glæsilegar búðir í Elliðaárdal
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson

Nýliðastarf næsta vetrar í undirbúningi

Frímann og Einar Ragnar hafa tekið að sér að sjá um nýliðastarfið næsta vetur og eru komnir af stað með undirbúning. Gert er ráð fyrir nokkuð hefðbundnu starfi en þó eru alltaf einherjar áherslubreytingar. Bæklingur til að kynna nýliðastarfið verður gefinn út og kynningarfundur haldinn í byrjun september að vanda.

—————-
Texti m. mynd: Alltaf gaman hjá nýliðum… og leiðbeinendum…
Höfundur: Einar Ragnar Sigurðsson

UNDAC

Um síðastliðin mánaðarmót var þriðji HSSR félaginn á UNDAC námskeiði í Sviss. UNDAC er samhæfingarteymi Sameinuðu þjóðanna vegna náttúruhamfarir og skyndilegrar vá.

Í dag eru þrír virkir UNDAC liðar, Sólveig Þorvaldsdóttir HSSK, Víðir Reynisson og Ólafur Loftsson HSSR og innan skamms bætist Hilmar Már HSSR í hópinn.

Nánari upplýsingar um UNDAC (The United Nations Disaster Assessment and Coordination) má finna hér.

—————-
Texti m. mynd: 37 manna hópur UNDAC liða í Genf
Höfundur: Hilmar Már Aðalsteinsson

Búðahópur kaupir 5kW ljósavél

Búðahópur Hjálparsveitar skáta í Reykjavík festi nýverið kaup á 5kW Herkules eins og þriggja fasa ljósavél sem gengur fyrir diesel eldsneyti. Vélin er flokkuð sem hljóðlát og mun því henta vel til þess að knýja búðir sveitarinnar og þá sér í lagi þar sem er að finna svefntjöld. Þá er vélin hugsuð sem varaaflstöð fyrir bækistöð sveitarinnar að Malarhöfði ef hnökrar verða á dreifingu rafmagns á höfuðborgarsvæðinu, enda annar hún vel lágmarks þörf sveitarinnar fyrir rafmagn í aðgerðum.

—————-
Texti m. mynd: Nýja Herkules ljósavélin
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson

Gæsla á Landsmóti hestamanna

Landsmót hestamanna 2012 hefur samið við björgunarsveitir um gæslu á mótinu í Reykjavík í sumar. Sveitirnar sem annast gæsluna eru FBSR, Ársæll, Kjölur og HSSR. Mótið fer fram í Víðidal dagana 25.júní til 1.júlí. Um nokkuð stórt verkefni er að ræða og er það vonandi geta félagar séð degi eða dögum við gæslu á mótinu.

Fyrir hönd HSSR munu þeir Tómas og Stefán Baldur halda utan um verkefnið ásamt Hlyn, starfsmanni HSSR. Á næstu vikum verður gengið frá vaktaplani og þá verður opnað fyrir skárningu.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Samningur við KSÍ endurnýjaður

Samningur um gæslu á Laugardalsvelli milli KSÍ, Hjálparsveitar skáta í Reykjavík og Hjálparsveitar skáta í Garðabæ hefur verið endurnýjaður til tveggja ára. Gert er ráð fyrir sjö til átta gæsluverkefnum og eins og venjulega tengjast þau fótbolta, landsleikjum og bikarkeppni. Leikirnir þetta sumar verða líklega átta til níu.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Styrkur frá ISAVIA

Úthlutað var úr styrktarsjóði Isavia á formannafundi Landsbjargar sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík sl. laugardag. Helsta markmið sjóðsins er að styrkja viðbragð björgunarsveita í hópslysum og er sérstök áhersla lögð á sveitir sem gegna hlutverki við flugslysaviðbúnað á áætlunarflugvöllum landsins. Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia sagði hann að með stofnun styrktarsjóðs Isavia vildi félagið leggja sitt af mörkum til þess að styðja frábært starf björgunarsveitanna sem lékju afar mikilvægt hlutverk í öllum hópslysaviðbúnaði í landinu.

HSSR fékk styrk að upphæð 350 þúsund og á stjórnarfundi var ákveðið að HSSR legði 150 þúsund til viðbótar við upphæðina. Þannig verður upphæðin sem varið verður til kaupa á búnaði sem nýtist í hópslysum 500 þúsund og verður stýring á ráðstöfun í höndum sjúkrahóps.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Rötunar- og ferðamennskunámskeið fyrir almenning

Í tilefni af 80 ára afmæli Hjálparsveitar skáta í Reykjavík verður ferðafólki boðið upp á námskeið í rötun og ferðamennsku. Þetta er grunn kynning á notkun korta, áttavita og GPS auk þess sem farið verður yfir helsta búnað sem ferðafólk ætti að hafa með sér á ferðalagi um landið.
Fyrir nokkrum árum síðan bauð HSSR rjúpnaskyttum og ferðafólk upp á sams konar námskeið og mæltust þau vel fyrir. Öll þekking á meðferð korta og leiðsögubúnaðar eykur öryggi í ferðamennsku og gerir ferðina betri.
Námskeiðið verður haldið í húsnæði HSSR að Malarhöfða 6 (fyrir ofan Ingvar Helgason) þriðjudaginn 15. maí kl. 20. Það er öllum opið og aðgangur er ókeypis.

—————-
Texti m. mynd: Áttaviti á að vera staðalbúnaður
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson

Flugslysaæfing – Viðbragðsáætlun Keflavíkurflugval

Í dag 5. maí héldu 13 félagar úr HSSR til Keflavíkur þar sem stór flugslysaæfing var haldin. Æfingin er haldin í kjölfar þess að viðbragsðáætlun fyrir flugvöllin hefur verið endurgerð. Um þrjú ár eru síðan slík æfing hefur verið haldin syðra. Æfing sem þessi hefur gríðarlega þýðingu þar sem hún sýnir fram á virkni áætlunarinnar þegar á þarf að halda. Reynt er að líkja fullkomlega eftir raunverulegu flugslysi til að þjálfa fólk í erfiðum aðstæðum. Þeir sem tóku þátt í æfingunni eru björgunarsveitir, slökkvilið, lögregla og heilbrigðisstarfsmenn af öllum Suðurnesjum, og fleiri, auk mannskapar frá Reykjavík, þar á meðal HSSR. Við sendum tvo sex manna björgunarhópa á 2 bílum (R1 og R4) á staðin. Óli Jón var sem fyrr mættur á myndavélina og fylgdi okkur hvert fótmál. Hópar héldu áleiðis í Straumsvík um kl 10:20 en um svipað leiti var fyrsta boðun útkallsins hækkuð úr hættustig gulur —> í neyðarstig gulur. Við lentum í Straumsvík skömmu fyrir ellefu en vísað rakleitt áfram á móttökusvæði í Keflavík.
Á keflavíkurflugvelli sinntum við margvíslegum verkefnum. Á slysstað fékk okkar fólk umsjón yfir bæði söfnunarsvæði sjúklinga sem voru að fara í flutning og einnir settir í gæslustörf. R1 flutti 1 sjúkling á börum og 6 sitjandi einstaklinga frá slysstað yfir á Söfnunarsvæði slasaðra (SSS) í einni ferð og sannaði þar enn og aftur notagildi sitt í stærð og flutningsgetu. Í kjölfarið var okkur úthlutað verkefnum á SSS, bæði sett í áverkamat og aðhlynningu slasaðra, flutning á allavega 3 sjúklingum á börum niður í Heiðarskóla (sem var ígildi sjúkrahúss á æfingunni), bæði á R1 og R4.

Æfingin heppnaðist í alla staði vel og var ánægja meðal þátttakenda með sína aðkomu að deginum. Eftir æfingu var rýnifundur í Heiðarskóla þar sem stjórnendur verkþátta gáfu yfirlit yfir hvernig gengið hefði.
Á leiðinni í bæinn spruttu upp fjörugar umræður í báðum hópum um hvað betur mætti fara sem héldu áfram á M6 og dagurinn tekinn saman. Þar var tekin sú ákvörðun að senda út blað á þáttakendur frá okkar hóp til að koma með ábendingar í sitthvoru lagi. Stefnum á að vinna úr þeim upplýsingum í kjölfarið og taka þær saman í eitt skjal og senda á viðeigandi aðila þann lærdóm sem okkur finnst að megi draga af þessari æfingu.
Sjúkrahópur HSSR stóð sig með príði og fær þakkir fyrir að mæta og taka þátt.

—————-
Texti m. mynd: Mynd af SSS-þar má glöggt sjá nokkra úr okkar hóp.
Höfundur: Helgi Þór Leifsson

Þyrluæfing með TF-LÍF

Fimmtudagskvöldið 3.mai tóku félagar í fjallahóp og búðahóp þátt í æfingu með þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-LÍF. Gekk æfingin mjög vel og lærðu félagar heilmikið um hvernig það er að umgangast þyrlu í raunveruleikanum.

Fjallahópur bjó sjúklinga til flutnings í þyrlunni og var þeim síðan flogið frá Hafravatni upp á Úlfarsfell þar sem tjaldi sveitarinnar ( sem hafði verið selflutt upp á Úlfarsfell ásamt mannskap ) var tjaldað á mettíma eða 6 mínútum.

Ekki spillti fyrir að rjómablíða var allan tímann sem gerði þessa upplifun bara skemmtilegri.

—————-
Höfundur: Sigríður Gyða Halldórsdóttir