Category Archives: Útköll

Leit á Esju

Undanfarar og sérhæfður leitarhópur kallaðir út kl. 18.15 vegna göngumanns sem týndur var á Esju. 20 manns mættu. Farið var á þrem bílum upp að Esju. Þyrla fann manninn heilan á húfi um kl. 20.00, en þá voru fyrstu menn að nálgast hann.

—————-
Höfundur: Skúli Pálsson

Leit við Þríhjúkahelli

HSSR ásamt björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út rétt upp úr miðnætti aðfararnótt skírdags til leitar að þremur mönnum sem saknað var í eða við Þríhnjúkahelli í Bláfjöllum. Til leitar fóru alls 23 félagar á tveimur jeppum, snjóbíl Bola og tveimur vélsleðum. Mennirnir fundust heilir á húfi við hellinn um klukkustund eftir að útkall barst.

—————-
Höfundur: Gunnlaugur Briem

Óveðursútkall, 10. april 2011.

Spáð var hvössu veðri á suðvesturlandi upp úr hádegi. Talsvert meiri veðurhæð varð og fór veðurhæð í hviðum upp í 40 m/sek.

16.47 var óveðursútkall sem var svo ítrekað 17.10.

Alls mættu 32 í hús, 25 manns fóru á fjórum bílum og sinntu fjölmörgum verkefnum stórum og smáum.

20.15 kom síðasti bíll aftur í hús.

—————-
Höfundur: Skúli Pálsson

Útkallshópar – skipulag og kröfur

Búið er að uppfæra og endurútgefa bæklinginn um útkallsskipulag HSSR. Þar er eins og áður upplýsingar um útkallshópa, verkferla við svörun útkalla og kröfur til þeirra sem eru á útkallsskrá. Útkallsmál eru í stöðugri þróun og á sveitarfundinum á næstkomand þriðjudag verður áhersla á þau. Endilega kynntu þér bæklinginn, þannig ert þú betur undirbúin undir komandir útköll og umræðuna sem verður á sveitarfundinum. Bæklingurinn er að finna hér á heimasíðunni undir gagnahlutanum eða með því að smella hér https://hssr.is/images/gogn/ALM_0320_1505_29_1.pdf

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Óskað eftir aðstoð í Vindáshlíð

Um tvöleytið sunnudaginn 20.mars var óskað eftir aðstoð HSSR við að losa rútu sem farið hafði út af veginum við Vindáshlíð í Kjós og selflytja hóp eldri borgara sem dvalið hafði í Vindáshlíð um helgina. í verkefnið fóru 5 félagar á vörubílnum Reyk 6, Reyk 3 og Econoline í einkaeigu. Greiðlega gekk að koma rútunni aftur upp á veginn og selflytja fólkið síðan í rútuna.

—————-
Höfundur: Gunnlaugur Briem

Jarðskjálftar í Japan.

Í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgju í Japan var íslenska alþjóðabjörgunarsveitin fyrst sett í á vöktunarstig og síðan færð yfir á viðbúnaðarstig þegar líða fór á föstudag. Þrátt fyrir að aðstoðarbeiðni hafi ekki borist frá stjórnvöldum í Japan var nokkur undirbúningsvinna hafinn ef til þess kæmi að sveitin yrði send á skaðasvæðið.

Meðal annars hélt hluti sveitarinnar til Keflavíkur, búðahópur HSSR fór í innkaup á matvöru og nafnalisti útbúin yfir þá sem gáfu kost á sér til fararinnar ef að yrði. Alls voru það 8 félagar HSSR sem voru reiðubúnir til fararinnar. Um miðnættið var sveitin af viðbúnaðarstigi á vöktunarstig að nýju.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Boli til aðstoðar

Sunnudaginn 6.mars klukkan 19.30 var óskað eftir því að snjóbílar frá HSSR og Ásæl yrðu sendir austur til að aðstoða skíðagöngufólk sem voru í vandræðum við hábungu Snæbreiðar undir Hvannadalshnjúk. Snjóbílarnir Boli og Ísak ásamt áhöfnum voru sendir af stað. Ekki reyndist þörf fyrir að senda bílana upp en beðið var á Breiðamerkursandi eftir því að björgunarsveitir að austan kæmi niður. Um 9 leitið í morgun var verið að leggja af stað til Reykjavíkur. 12 félagar HSSR tóku þátt í aðgerðinni

Það er búið að vera mikið að gera um helgina, auk tveggja útkalla var fjallamennskunámskeið II hjá nýliðum og sleðanhópur var að ferðast. Mikið af "dóti" er í þurkun og bíður frágangs. Einnig hafa tæki HSSR fengið sinn skerf af bleytu og skít. Í kvöld er gott kvöld til frágangs og þrifa.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Leit að týndum vélsleðamönnum við Hrafntinnusker

HSSR var kölluð út laugardaginn 5.mars um kl. 14.30 til leitar að tveimur týndum vélsleðamönnum nálægt Hrafntinnuskeri. Óskað var eftir vélsleðum, snjóbíl og undanförum, og fóru m.a. nokkrar sveitir af höfuðborgarsvæðinu til leitar. Veður var mjög slæmt, skafrenningur og lítið skyggni. Annar mannanna skilaði sér í skálann í Hrafntinnuskeri en hinn maðurinn fannst um 7-leytið nálægt Hrafntinnuskeri, heill á húfi. Hafði hann grafið sig í fönn og beið björgunar. Alls tóku 15 manns þátt í leitinni frá HSSR á fjórum farartækjum auk tveggja vélsleða. Aðgerðum lauk um kl. 23.30.

—————-
Höfundur: Gunnlaugur Briem

Útkall innanbæjarleit

Útkall Gulur F2: heildarútkall. HSSR og fleiri sveitir á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út kl. 21:40 til leitar að Alzheimersjúklingi í Reykjavík. 25 manns tóku þátt í útkallinu. Maðurinn fannst heill á húfi og var leit afturkölluð kl. 22.49.

—————-
Höfundur: Gunnlaugur Briem