Category Archives: Frá félögum

Þetta eru ferðasögur og hvaðeina sem félagar birta upp á sitt einsdæmi.

Fagnámskeið í fjallamennsku

3.-7. mars fóru Ásdís, Hanna Lilja og Katrín á fagnámskeið í fjallamennsku á Gufuskálum. Markmið námskeiðsins er að dýpka þekkingu þátttakenda í fjallafræðunum og gera þá hæfari sem kennara. Kennslan hófst að morgni miðvikudags á fyrirlestri líkt og allir dagarnir. Síðan var farið í kletta rétt við Gufuskála og tryggingar og fleira í þeim dúr æft. Næsta dag var farið í félagabjörgun og voru áherslunar aðrar en við höfðum æft. Í stað þess að einblína á fjallabjörgun var björgunin æfð miðað við að tveir klifrarar hefðu lent í vandræðum. Næsta dag var farið í ísklifur fyrir utan Grundarfjörð í 8°C, 20 m/s og grenjandi rigningu. Aðstæður voru jafngóðar og veðrið og sá litli ís sem var til staðar um morguninn var næstum horfinn þegar við yfirgáfum svæðið. Á laugardaginn var síðan farið upp á Snæfellsjökul. Við fórum á glæsilegum Höglund upp á jökul. Í þennan litla snjóbíl komust 9 manns, tonn af skíðum og 20 bakpokar. Okkur leið eins og sardínum í dós og sem betur fer var enginn snertifælinn! Þann daginn frysti svo að færið var vægast sagt hart og erfitt og ekki bætti úr skák að hífandi rok var líkt og fyrri daginn. Við byggðum ýmsar útgáfur af neyðarskýlum, bæði snjóhús og skýli ásamt því að fara í ýlaleit. Úr varð fínasti dagur sem lauk með bayonskinku sem að meistari Þór staðarhaldari eldaði og heitum súkkulaðimöffins í eftirrétt. Námskeiðið endaði á sunnudaginn á kennslufyrirlestrum og ýmsir lausir endar hnýttir, næstum því bókstaflega!

Kennararnir gerðu miklar kröfur til allra og námskeiðið var mjög krefjandi. Við lærðum heilan helling og margt sáum við í fyrsta skipti. Kynjahlutfallið var mjög skemmtilegt, 15 strákar og 4 stelpur, þar af 3 frá okkur! Þór staðarhaldari á miklar þakkir skyldar, hann sá um að elda dýrindiskvöldmat í lok hvers dags sem lögðust vel í mannskapinn.

—————-
Höfundur: Hanna Lilja Jónasdóttir

Ráðgjöf um eldfjallavá og hættur

Freysteinn Sigmundsson félagi okkar í HSSR er nú staddur á Komoróseyjum. Þessi pistill kom frá honum og Landsbjörgu.

Landsbjörg tekur þátt í leiðangri Sameinuðu Þjóðanna til Komoróeyja

Landsbjörg í samvinnu við Utanríkisráðuneytið er virkur þátttakandi í viðbragðsteymi Sameinuðu Þjóðanna um mat á hamförum og samhæfingu viðbragða (United Nations Disaster Assessment and Coordination team, UNDAC). Á undanförnum árum hafa nokkrir meðlimir Landsbjargar hlotið sérstaka þjálfun til að starfa í þessum hóp og svo farið í leiðangra á hans vegum í kjölfar náttúruhamfara. Nú tekur Landsbjörg í fyrsta sinn þátt í UNDAC leiðangri þar sem á að undirbúa samfélag fyrir náttúruhamfarir áður en þær gerast (disaster preparedness mission). Slíkt er gert í fátækum löndum þar sem Sameinuðu Þjóðirnar vinna fyrir að hjálparstarfi, samkvæmt beiðni frá yfirvöldum.

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur á Norræna eldfjallasetrinu, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, var sérstaklega valinn í hóp til að meta hættur af eldvirkni á Komoróeyjum og viðbrögð við þeim, en Komoróeyjar liggja í sundinu milli Afríku og Madagaskar. Stærst þeirra er eyjan Grande Comore og þar er eldfjallið Karthala sem margsinnis hefur gosið. Byggð er allt í kringum eldfjallið og hættur stafa af hraunstraumum og öskufalli.

Samkvæmt Freysteini hafa fyrstu dagar verkefnisins falist í viðtölum við stjórnvöld og aðila sem koma að viðbrögðum við náttúruhamförum. Framundan eru svo verkefni hjá Freysteini þar sem hann fer um Grande Comore eyjuna og metur hættur af eldfjallinu sem er á henni miðri. Um 300 þúsund manns búa í hlíðum eldfjallsins sem hefur gosið 4 sinnum síðan árið 2000.

—————-
Texti m. mynd: Komoróseyjar norður af Madagaskar
Höfundur: Ólafur Loftsson

Hjálpasveita félagar í Norður Ameríku

Við erum staddir í litlum smábæ í BC, Kanada að nafni Golden. Erum búnir að koma okkur vel fyrir á móteli hérna í bænum.Hvað erum við að gera hérna ? Við erum staddir í hér til þess að hafa gaman.

Í 13km fjarlægð erum við með eitt af flottustu skíðasvæðum í Norður Ameríku. (www.kickinghorseresort.com ) Einnig erum við með flottar ísklifur leiðir í aksturs fjarlægð og mjög flott svæði til utanbrautar skíðunar í bakgarðinu hjá okkur.Í lok mars munum við kveðja Golden og taka stefnuna suður til Bandaríkjanna. Þar munum við finna okkur flotta kletta til að klifra í. Við höfum ekki ákveðið nákvæmlega hvert við munum fara. En allavegana munum við keyra suður þangað til okkur lýst vel á hitann.

Þið getið fylgst með okkur á www.icecommunity.wordpress.com

Kveðja.

Ásbjörn Hagalín Pétursson, Daníel Guðmundsson og Róbert Halldórsson

—————-
Texti m. mynd: Robbi og Ási ferskir!
Höfundur: Ásbjörn Hagalín Pétursson

Hlaupahópur á fimmtudögum.

Nú ætlum við að auka þrekið og þolið (og þar með ánægjuna af fjallgöngunum) og hlaupa saman.
Stefnum á að hittast á Malarhöfðanum kl. 17 á fimmtudögum. Þar í kring eru ótal skemmtilegar hlaupaleiðir. Malbikaðir og ómalbikaðir, upplýstir og dimmir, sléttir og mishæðóttir stígar eru út um allt. Við stefnum á að hafa leiðirnar auðveldar í byrjun, en getum svo þyngt þær eftir því sem á líður eða andinn í hópnum býður upp á hverju sinni. Það er líka hægt að hlaupa mislangt þar sem leiðirnar í Elliðaárdal bjóða upp á að sumir fari styttri leiðir á meðan aðrir fara lengri. Svo erum við með sturtu og gufu á staðnum ef það þarf að skola af sér og kasta mæðinni eftir hlaup.
Við hvetjum alla til að mæta og vera með, þar sem þetta eiga ekki að vera nein „ofurhlaup“ nema fólk viljið þróa þetta út í slíkt síðar.

Bara mæta, hlaupa saman og hafa það gaman.

Fyrsti sprettur verður fimmtudagnn 7. janúar. (fyrirvarinn er stuttur í dag, en við höldum áfram að kynna þetta síðar)

Hanna Kata og Árni Tryggva

—————-
Texti m. mynd: Nokkrir vaskir hlauparar í Hrafntinnuskeri.
Höfundur: Árni Tryggvason

Jöklapælingar

Félögum er bent á áhugaverðan fyrirlestur um jökla og afdrif þeirra:

Í tilefni af nýútkominni bók Helga Björnssonar Jöklar á Íslandi munu Jöklarannsóknafélag Íslands og Hið íslenska náttúrufræðafélag standa að sameiginlegum fundi mánudaginn 30. nóvember. Þar mun Helgi Björnsson jöklafræðingur halda fyrirlestur undir yfirskriftinni Jöklar á Íslandi við upphaf 21. aldar og framtíðarhorfur. Fundurinn verður haldinn í Salnum í Kópavogi og hefst klukkan 17:15.

—————-
Höfundur: Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir

Dagsferð í nýföllnum snjónum

Sex nýliðar (N1+N2) heldu af stað í morgun í dagsferð. Smá hríð var þegar við lögðum af stað en það var bara til að hressa við mannskapinn. Við lögðum af stað upp Sleggjubeinsskarð og gengum yfir í Reykjadal og niður Rjúpnabrekkur. Skemmtileg ganga í nýföllnum snjó sem náði okkur stundum upp í mitti og það var nokkuð um það að fólk stingdist á kaf í snjóinn með mismiklum tilþrifum.

Anna Dagmar og Óli Jón

—————-
Höfundur: Anna Dagmar Arnarsdóttir

Fjall kvöldsins í kvöld – Vífilsfell

Í kvöld þriðjudaginn 3. nóvember verður Vífilsfell fjall kvöldsins.
Allt útlit er fyrir prýðilegt gönguveður, hæg NA átt og nokkurra gráðu frost. Snjóföl á fjallinu og fullt tungl á heiðum himni. Getur ekki orðið betra.
Göngubyrjun er við Jósepsdal og er göngutími um 3 – 4 tímar.
Við hvetjum alla til að taka þátt og mæta með góða gönguskó og galla, höfuðljós og nasl í poka á M6 kl. 17:45 en brottför verður kl. 18:00.
Fjall kvöldsins er ekki eingöngu nýliðaferð heldur ferð fyrir alla HSSR félaga.

Fararstjóri verður: Hilmar Már Aðalsteinsson.
Sjáumst hress!
Gufa á M6 fyrir þá sem vilja eftir ferð.

—————-
Texti m. mynd: Aðstæður eins og í dag. Mynd, Árni Tryggva.
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Ferð nýliða á Högnhöfða 11. október

Ljómandi góð ferð sprækra nýliða var farin á Högnhöfða sunnudaginn 11. október. Upphaflegt plan hafði reyndar verið að fara tjaldferð en ferðaveður var ekkert þessa helgi fyrr en á sunnudeginum og var því bara þeim mun meira gengið á þeim eina degi. Gengið var upp í Brúarárskörð og þaðan upp á Högnhöfða og síðan niður af honum hinum megin um þónokkuð brattar hálffrosnar skriður. Alls þrömmuðu um 30 manns vel yfir 20 km sem ferðin var. Um 25 nýliðar og 5 félagar í fylgd með þeim.

Myndir frá ferðinni eru t.d. á Flickr og svo er hellingur af myndum á myndasíðu nýliðahópsins á Facebook.

—————-
Texti m. mynd: Í snjóskafli á leið á Högnhöfða
Höfundur: Einar Ragnar Sigurðsson

Hjólaferð 11.-13. september

Helgina 11.-13. september verður farið í hjólaferð á vegum HSSR. Þetta eru alltaf skemmtilegar ferðir sem engin ætti að láta fram hjá sér fara. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hvert ferðinni er heitið en nánari upplýsingar um áfangastað og ferðatilhögun berst á næstu dögum. Hins vegar er ljóst að brottför verður undir kvöldmat á föstudeginum en komið verður til baka um svipað leyti á sunnudeginum. Yfirgnæfandi líkur eru til þess að gist verði í skálum. Ég reikna með því að við munum hjóla uþb 50-60 km á laugardeginum en heldur styttra á sunnudeginum.
Vonandi sjá sem flestir sér fært að koma með. Hingað til hefur dugað ágætlega að vera í meðalslöku formi til að hafa þessar ferðir af. Hins vegar mæli ég með því að þeir sem hyggja á þátttöku viðri hjólið og sjálfan sig nokkrum sinnum áður en lagt er í hann, bæði til að tryggja að hjólið sé í sæmilegu ástandi og til að venja sitjandann við.

Nánari upplýsingar um ferðatilhögun og skráningu berast á næstunni.

—————-
Texti m. mynd: Stefán Páll veður yfir Kísu
Höfundur: Eyþór Örn Jónsson