Category Archives: Frá félögum

Þetta eru ferðasögur og hvaðeina sem félagar birta upp á sitt einsdæmi.

Öræfajökull um Hvítasunnuna

Það var sprækur 17 manna hópur sem lagði af stað frá M6 föstudaginn 29. maí áleiðis í Skaftafell.
Takmarkið var að ganga á Hnúkinn (2109 m)..og ekkert minna en það enda samanstóð hópurinn aðallega af „nýjum“ hörkutólum úr Nýliðum 2 + reynsluboltunum Árna Tryggavasyni sem var fararstjóri ferðarinnar og Árna Árnasyni sem sá um að ferja liðið á Reyk 1.
Stutt stopp fyrir einn sveittann borgara á Hvolsvelli sem var hrein snilld.
Komið var svo á tjaldstæðið í Skaftafelli í kringum miðnætti, tjaldbúðum var slegið upp (og já, einum tjaldvagni sem tilheyrði Trailer Park genginu) og var ákveðið að sofa út morguninn eftir þar sem veðurspáin var ekki Hnúkaleg fyrir laugardaginn.
Eftir góðann lúr vöknuðu sumir kl 8, en aðrir kl 10, hellt var upp á tvær stórar expressókönnur og fékk tjaldvagninn nafnið Kaffivagninn J
Staðan var tekin og ákveðið að byrja á því að rölta að Svartafossi í mígandi rigningu. Nýliðar voru þó ekkert að láta það á sig fá enda algjör skylda að berja þann foss augum.
Eftir rölt að Svartafossi var pylsu –og Euorvision partýi slegið upp hjá Trailer Park genginu, sungið af mikilli innlifun; Is it true, is it over.. en aðrir ákváðu að leggja sig J
Eftir smá chill, lúr og söng fengu nýliðar smá forskot á sæluna en Árni farastjóri ákvað að ferja liðið að Svínafellsjökli, þar sem hópurinn fékk að speyta sig á broddagöngu, smá klifri, sprungubjörgun og sigi undir frábærri leiðsögn Árna.
Gott að æfa þetta áður en farið er uppá Hnúkinn, því aldrei er hægt að vita hvernig færð/veðrið er á jöklinum.
Þarna spókuðum við okkur í hreint stórkostlegu umhverfi og lét sólin meira að segja sjá sig í nokkar mínútur J
Undir kvöld gerði hópurinn sig klárann fyrir nóttina enda var tekin sú ákvörðun að leggja á Hnjúkinn kl. 0200.
Sumir voru „grand“ á því og grilluðu (Tófurnar) en aðrir elduðu núðlusúpur með pylsum, smurðu samlokur ,blönduðu orkudrykki eða settu kús,kús og kjúkling í box.
Klukkan var svo bara allt í einu orðin níu og brottför af tjaldsvæði var áætluð kl 01:15.
Nú var best að leggja sig aðeins.
Vöknuðum við eða fórum á fætur á milli 00:00-00:30, tókum okkur til og lögðum af stað frá tjaldsvæðinu kl 01:24.
Lagt var á Sandfellið kl 02:09 (samkvæmt sérlegum útreikningum Esra).
Veður var ágætt og gönguhraði frekar rólegur í byrjun enda um 14 tíma ganga framundan.
Komið var í snjó kl. 04:15 og skyggni þá orðið frekar lélegt.
Eftir klukkutíma rölt í snjó var komið í um 1300 m hæð og þá var græjað í þrjár línur og tekin góð matarpása. Þarna var skyggni orðið svo slæmt að varla sást á milli aftasta og fremsta manns í línu.
Aftur var haldið af stað og „brekkan“ endalausa tók við,við mættum einum hópi á leið niður en þau höfðu snúið við útaf veðri. Eitthvað lá sumum á þannig að hópurinn splittaðist og sáumst við ekkert aftur fyrr en undir Hnúknum sjálfum.
Veður var þá orðið mjög slæmt, fúlviðri var nefnt. Snjóflóðahætta var einnig til staðar, skyggni sama sem ekkert, djúpur snjór og klaki inn á milli.
Sprungur voru sýnilegar og þurfti að fara yfir að minnsta kosti eina. Við þessar aðstæður var gott að hafa tekið smá æfingar í sprungum deginum áður.
Hnúkurinn var toppaður á tímabilinu 10:35 – 11:15.
Stoppað var stutt vegna veðurs og vildi Árni Tryggvason og Árni Árnason koma okkur sem fyrst niður.
Niðurleiðin gekk vel hjá fyrri hóp en ekki allveg jafn vel hjá þeim seinni því öll spor voru horfin í snjó og GPS tæki voru ýmist ekki með korti eða virkuðu ekki sem skildi.
Þarna var gott að hafa reynslubolta eins og Árna Árnason úr Sprettum sem leiddi seinni hópinn áfram með glæsibrag.
Fyrri hópur kom niður kl 16:20 hinn örlítið seinna. Ákveðið var að taka smá lúr í Skaftafelli og bruna svo í bæinn.

Fyrir hönd hópsins viljum við þakka fyrir góða ferð sem hreint út sagt verður að endurtaka að ári.

Esra Þór Jakobsson og Melkorka Jónsdóttir

Fullt af myndum komnar á myndasíðuna 🙂

—————-
Texti m. mynd: Hnúkurinn toppaður 😉
Höfundur: Melkorka Jónsdóttir

Boli á Öræfajökli

Snjóbíllinn okkar-Boli-hefur frá því á laugardag verið á Vatnajökli sem einn af burðarásum vorferðar Jöklarannsóknafélags Íslands. Eftir að hafa komið 3 tonnum af eldsneyti á Grímsfjall var haldið í Kerkfjöll á sunnudag og þar hefur síðan verið við fjórða mann Hanna Kata HSSR félagi, við rannsóknir á gufuútstreymi. Boli var í eystri_Skaftárkatli í gær og aðstoðaði þar starfsmenn Veðurstofu Íslands við leit að mælitækjum sem töpuðust þar í síðasta Skaftárhlaupi. Boli fann reyndar ekki tækin. Eiríkur "Ungi" eins og JÖRFÍ félagar kalla hann, einnig félagi í HSSR setti upp nýjan fastmælingapunkt í norðanverðum Esjufjöllum í gær og í dag hefur hann ásamt fleirum verið á Bárðarbungu við uppsetningu mælitækja.

Við Boli erum hinsvegar svo ósköp óheppnir að hafa verið sendir suður á Öræfajökul ásamt tveimur sleðamönnum til Íssjármælinga. Við munum gista í Bola í nótt uppi í Öræfajökulsöskjunni og væntanlega ljúka mælingum á morgun. Að sjálfsögðu er þessi ferð farin með leyfi Vatnajökulsþjóðgarðsvarða, en annars er umferð vélknúinna ökutækja bönnuð á Öræfajökli á þessum árstíma.

Netsamband er hér gott og því varð ég að setja þessa frétt inn ofan úr norðanverðum Öræfajökli.

Jöklafarar ætla að reyna að ná heim fyrir boltagæslu á laugardag.

—————-
Texti m. mynd: Góðir saman Boli og Hvannadalshnjúkur
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Vatnajökulsvorferð

Það var frítt föruneyti sem lagði af stað frá M6 rétt fyrir klukkan 19 miðvikudagskvöldið 20. maí síðastliðinn á Reyk 1,2 og 3. Var förinni heitið í Jökulheima með tilheyrandi hamborgarastoppi í Hrauneyjum. Snemma á fimmtudagsmorgun vaknaði hópurinn við ómþýðan söng fararstjórans sem, eins og lóan, brestur í söng á fögrum sumarmorgnum sem þessum, enda sól í heiði og ekki ský á himni.

Á jökulsporðinum hittum við Bola sem tók við af Reyk 1 og stuttu eftir að komið var upp á sléttan jökul voru skíðin sett undir leiðangursmenn og stefnan tekin á fyrsta viðkomustað dagsins, Kerlingar. Var þaðan haldið sem leið lá yfir á Hamarinn og þaðan á Bárðarbungu. Var blíðan og fegurðin slík að einum varð á orði að nú ætti hann að hætta jöklaferðum, toppnum væri náð. Loks var haldið í Kverkfjöll þar sem skyldi hafst við um nóttina. Þar var kveikt í grillinu og snæddur kvöldverður við ekki sérlega dónalegt útsýni yfir lónið.

Á föstudagsmorgun var haldið norður eftir Kverkfjallahrygg í smá útsýnistúr og hluti hópsins fór að skíða niður Löngufönn á meðan aðrir fóru niður í Hveradal. Seinnipartinn var lagt af stað úr Kverkfjöllum suður í Grímsvötn. Þegar þangað var komið var aðeins farin að þyngjast brúnin á kára og farið að blása smávegis. Var smellt upp tjaldbúðum undir Grímsfjalli og svo haldið í útsýnistúr inn í vötn þar sem skoðuð voru ummerki síðust eldsumbrota. Eftir kvöldmat og kvöldkaffi í boði fararstjórans í Bola var farið að hvessa talsvert og gerði heldur leiðinlegt veður um nóttina og laugardagsmorguninn með heldur litlum svefni. Þar sem veðrið átti ekki eftir að skána var tekin sú ákvörðun að drífa sig niður af jöklinum og halda í bæinn.

Þrátt fyrir að ferðin yrði aðeins styttri en menn gerðu ráð fyrir skildu allir sáttir og örlítið sólbrenndir við eftir frábæra ferð á jökul.

—————-
Höfundur: Rún Knútsdóttir

Kveðjur frá Akureyri

Þingfulltrúar HSSR senda kveðjur af þingi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem haldið er á Akureyri. Þegar þetta er skrifað er átakalitlu þingi lokið og stefnan tekin á árshátíð SL. Aðeins eru þrjú lög þangað til JOHANNA stígur á svið í Ewróvision og stemmingin að ná hámarki. 18 stig og sól.

kveðja Helgi, Laufey, Palli, Örn og Haukur

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Góð mæting á myndasýningu Eftirbáta

Um 70 manns mættu á myndasýningu Eftirbáta í gærkveldi þar sem sýndar voru myndir úr gönguskíðaferð um Bárðargötu í lok mars. Fyrir þá sem misstu af sýningunni er smá sárabót á myndasíðu HSSR.

Gengnir voru 195 km frá Bárðardal um Gæsavötn, Vonarskarð, Jökulheima, Veiðivötn og endað við Vatnsfell.

—————-
Texti m. mynd: Vel mætt
Höfundur: Hilmar Már Aðalsteinsson

Fjallaskíðaferð niður Svínafellsjökul

Næstu helgi, 1. – 3. maí, munu undanfarar hafa umsjón með fjallaskíðaferð á Hvannadalshnjúk. Farið verður eina af flottari skíðaleiðum landsins, niður Svínafellsjökulinn. Leiðin er ansi krefjandi og því aðeins fyrir vana skíðamenn.

Brottför 30. apríl kl. 19:00 frá M6

Skráning með því að senda póst á helghal(hjá)gmail.com

—————-
Höfundur: Helgi Tómas Hall

Gönguskíði í Laugum

Síðastliðna helgi, 17. – 19. mars var af Undanförum og Viðbragðshópi skipulögð gönguskíðaferð í Landmannalaugum. Ekið var í Laugar á föstudagskvöldi og gekk ferðin feiknavel. Á laugardegi var gengið á Reykjakoll, Skalla og Brennisteinsöldu. Fantagóð ferð sem vonir standa til að marka megi upphaf endurvakningar á gönguskíðamennsku innan sveitarinnar. Sjá myndir á myndasíðu: https://hssr.is/adminimages/myndir.asp?flokkur=304

—————-
Texti m. mynd: Á Brennisteinsöldu.
Höfundur: Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir

Eftirbátar komnir heim.

Á föstudag 27. mars var gengið á fallegum en svölum degi úr Sylgjufelli í Jökulheima í góðu færi. Eitt skíði endaði lífdaga sína um 5 km frá skálanum. Með aðstoð góðra manna voru skíði send úr bænum frá flokksfélaga okkar sem nýttust vel það sem eftir var ferðarinnar. Í Jökulheimum biðu vistir, hangikjet og meðlæti og var vel tekið á því.

Á laugardag var lagt af stað kl. 8 í Veiðivötn, lengsta dagleiðin, um 36 km en spáð var versnandi veðri síðdegis. Eftir um 5 km göngu á Tungnánni gaf sig gormur í skíðabindingu hjá einum félaga sem gekk sem eftir var ferðar með “krabbateygju” bindingu á skíðinu. vonda veðrið skall á um 11 í morgunkaffinu og bara versnaði. Gengið var eftir áttavita og GPS og þurfti að troða og reyndi þetta á úthaldið. Díselvélarnar héldu allar en allir voru ákaflega fegnir að sjá skálana í Veiðivötnum um 18:30 að kveldi. Ekki var síðra að þangað höfðu góðir félagar sent lambakjöt ásamt meðlæti.

Sunnudagurinn var æði fagur í Veiðivötnum, nýfallin föl yfir öllu og bærðist ekki hár á höfði. Lagt af stað um 10, vaðið yfir Fossavatnskvísl með allar byrðar heilu og höldnu. Þær virka ótrúlega þessar díselvélar! Gengið að Vatnsfelli og alveg niður að virkjun því R1 sat fastur í fyrsta skafli! Bílinn fundinn um 18:30 og þá tók við að mokstur og ýting og bílnum komið á flot! Ýmislegt er Eftirbátum fært!! Endað í sveittum hammörum í Hrauneyjum – og postulínssalernin notuð. Komið í bæinn um 23, allir heilir, vel útiteknir og reynslunni ríkari með nokkra auma hæla, ristar og bólgnar tær. Ferð um Bárðargötu er lokið, um 200 km leið.

—————-
Texti m. mynd: Eftirbátar eru engir eftirbátar
Höfundur: Anna María Lind Geirsdóttir

Eftirbátar renna áfram

Bárðargötufarar þeir Eftirbátar renna enn eftir snjónum og gistu í gærkvöldi í Sylgjufellsskála og munu halda áfram í dag og verða sennilega í Jökulheimum í kvöld.

Talaði við Hilmar nú rétt fyrir kl. 18. Eftirbátar komnir í Jökulheima og allt gott að frétta. Ein skíði hafa þó gefið upp öndina en nýtt skíðapar var sent af stað með jeppamönnum á leið í Jökulheima nú síðdegis. Viðbót, Hlynur Sk.

—————-
Höfundur: Anna María Lind Geirsdóttir