Category Archives: Tilkynningar

Tilkynningar til félaga.

Þverun straumvatna/jökulvatna

Laugardaginn 1. september verður haldið vað/sull- eða straumvatnsnámskeið í Markarfljótinu. Tilgangur námskeiðs er að kynna aðferðir við að komast yfir jökulvatn og það í venjulegum göngufatnaði. Farið í grunnatriði, hvernig best er að vaða og bera sig að í jökulfljóti með og án línu. Eru af mörgum talin ein skemmtilegustu námskeið sem haldin eru.
Fólk veður í gönguskóm og venjulegum fjallafatnaði. Gott er að vera sæmilega búinn, ullarnærföt æskileg innst klæða og ekki sakar að vera í góðum ullarsokkum.Auk þess er belti, hjálmur, vettlingar og þurr föt til skiptanna nauðsynlegur búnaður.

Námskeiðið er skyldunámskeið N2 en opið öllum áhugasömum fullgildum félögum og eru þeir sérstaklega hvattir til að skoða hvort þeir hafa þörf fyrir að rifja upp sullkunnáttu sína. Nánari upplýsingar og skráning á D4H.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Fréttir af bílamálum

Nýji bíllinn sem er Ford Transit 4×4 er væntanlegur fyrir miðjan október. Verið er að ganga frá aukahlutalistanum og gert ráð fyrir að vinna við að smíða inn í hann hefjist í vikunni. VW okkar er í yfirhalningu, verði er að rétta smádældir á hliðum og afturhurðir. Að því loknu fer hann í sprautuklefann og mætir glansandi til starfa í næstu viku.

Eins og komið hefur fram áður verða tveir minni þjóðvegabílar í notkunn í vetur hjá HSSR auk þess sem R1 og jepparnir verða áfram til staðar. Nánar verður fjallað um stefnu í tækjamálum á sveitarfundi í september.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Sumarfrí frá fjáröflunum.

Nú hefur Hengilsverkefni verið lokið að miklu leiti. Nokkur sértæk verkefni eru þá eftir og verða þau kláruð eftir miðjan ágúst.
Það hefur verið frábær mæting þessa síðustu daga enda tíðin góð og verkið því massast áfram.

Næstu fjáraflanir eru boltagæslur 15. og 18. ágúst auk þess sem Undanfarar munu sýna línubrúarbjörgun á Höfðatorgi um miðjan dag á Menningarnótt og svo mun HSSR að venju sjá um flugeldasýninguna sama kvöld.

Það er því komið opinbert sumarfrí frá öllu öðru en leit og björgun til 18. ágúst.

—————-
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Fjáröflunarverkefni sumarsins

Nú er að skýrast hvaða fjáröflunarverkefnum HSSR mun sinna í sumar. Fótboltagæslan fyrir KSÍ og stikuverkefni á Hengilssvæðinu er nú í fullum gangi, stikuverkefnið byrjaði reyndar seinna en venjulega vegna tíðarfars. Einnig munum við sjá um flugeldasýningu á Menningarnótt.

Aftur á móti mun ekkert verða af gæslu á Landsmóti hestamanna eins og fyrirhugað var. Ekki náðust samkomulag um umfang verkefnisins. Ekki verður heldur af sjúkragæslu í Reykjavíkurmaraþoni og stafar það af því að ekki náðist samkomulag um þörf á viðbragði vegna verkefnisins.

Stjórn vill hvetja alla félaga til að fylgjast vel með, skrá sig af fyrra bragði á D4H í verkefni.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Vesti

Mikið hefur verið um útköll í sumarbyrjun. Með hækkandi hitastigi og sól á lofti vill það gjarnan verða þannig að björgunarsveitarfólk verður ekki eins sýnilegt í útköllum þegar of heitt er í veðri til að klæðast jakka.

Stjórn HSSR hefur ákveðið af kaupa hlaupavesti frá 66°N sem eru ætluð til nota í útköllum þegar þörf krefur en
eru janframt hentug til útiveru þegar félagar vilja vera sýnilegir. Vestin verða merkt HSSR og nafni björgunarsveitarmanns HSSR.

Sendur hefur verið póstur á alla félaga með link þar sem þeir geta lagt inn pöntun.

—————-
Höfundur: Björk Hauksdóttir

Hengilsverkefnið á fulla ferð.

Nú förum við að setja fullan kraft í Hengilsvinnuna, snjóa hefur að mestu leyst og blíða dag eftir dag. Samkvæmt reynslu síðustu ára er mjög mikilvægt að við klárum sem mest af verkefninu í júnímánuði og fyrstu viku júlí.

Eftir það er eðlilega erfitt að fá fólk í verkefnið, flestir komnir í sumarfrí. Nú er búið að stofan vinnukvöld inn á D4H, endilega skráið ykkur en ef aðstæður verða þannig að ekki er hægt að sinna verkefninu vegna veðurs verður afboðað bæði með tölvupósti og SMS ekki síðar en 17.00 þann dag sem á að fara.

Allir í fjallið með dós og pensil.

Kv. Hengilsnefnd.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Breytingar á ferð

Árleg ferð HSSR á Hvannadalshnúk hefur verið breytt í Kerlingu í Eyjafirði. Vegna veðurs hefur verið hætt við að ganga á Hnúkinn.
Í stað hefur plan B sett í gang en það er að ganga á Kerlingu við Eyjafjörð. Ekki er nóg með það heldur er stefnan að ganga jafnvel frá Kerlingu norður með fjallgarðinum og enda á Súlum fyrir ofan Akureyri.
Planið er að leggja af stað á morgun, föstudag kl. 18:30 keyra norður og gista á tjaldsvæðinu á Akureyri. Á laugardeginum yrði svo gangan mikla.
Það færi svo eftir stemningu hvort keyrt yrði í bæinn á laugardagskvöldinu eða gist og gert eitthvað gott á sunnudeginum. Skráning og nánari upplýsingar á D4H

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Björgun 19. – 21 október

Ráðstefnan Björgun verður haldin 19.-21. október og að venju verður umfangsmikil dagskrá í kringum ráðstefnuna. Meðal þess sem búið er að skipuleggja eru námskeið dagana fyrir ráðstefnuna.
Sem dæmi um það sem þegar er búið að skipuleggja má nefna tveggja daga námskeið í þjálfun björgunarhesta sem Tomi’ Finkle, stjórnandi björgunarhestasveitarinnar TROTSAR Mounted Search and Rescue Team sem staðsett er í Maryland fylki í Bandaríkjunum. Einnig mun Marcel Rodriques vera með tveggja kvölda yfirgripsmikið námskeið í slysaförðun þar sem nýtt eru efni sem finnast á hverju heimili.
Stjórn HSSR vill hvetja félaga HSSR til að geyma 1-2 sumar-leyfisdaga til að nýta á þessum tíma.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Hvannadslahnúkur helgina 8-10 júní

Árleg ferð hjálparsveitarinnar á Hvannadalshnúk er á dagskrá aðra helgina í júní. Ferðin er á dagskrá nýliða 1 en er einnig almenn ferð sem allir félagar geta tekið þátt í.

Skráning á d4h: https://hssr.d4h.org/team/events/view/34175

—————-
Texti m. mynd: Úr ferð á Hnúkinn fyrir tveimur árum
Höfundur: Einar Ragnar Sigurðsson

Niðurgreiðsla á merktum fatnaði

Á stjórnarfundi í lok maí var tekin umræða um einföldun á niðurgreiðslu á fatnaði. Síðustu ár hefur sveitin niðurgreitt mismikið eftir því hvaða föt sé verið að kaupa. Talin var þörf á endurnýjun.

Tilgangur niðurgreiðsla á fatnaði til sveitarfélaga er að hafa sem flesta aðila merkta í útköllum og starfi sveitarinnar. Þetta hefur almennt gengið mjög vel síðustu ár og hafa félagar almennt verið duglegir að nýta sér niðurgreiðslur. Einnig hefur Landsbjörg á síðustu árum aukið mjög úrvalið af merktum fatnaði og ættu í dag allir að finna sér fatnað við hæfi.

Útlistun á þeim fatnaði sem er í boði er að finna á heimasíðu Landsbjargar: http://landsbjorg.is/category.aspx?catID=247

Nýtt fyrirkomulag verður á niðurgreiðslum sveitarinnar, þannig að hér eftir verða Jakkar (ytri skel) niðurgreidd um 15þ kr. Buxur (ytri skel) verða niðurgreiddar um 10þ og softshell jakkar verða niðurgreiddir um 10þ. Allt þetta verður óháð því hvaða framleiðandi verður fyrir valinu.

Til að fá niðurgreiðslu á fatnaði þarf félagi að vera virkur í starfi sveitarinnar og fatnaðurinn þarf að vera merktur einstakling og sveitinni.

—————-
Texti m. mynd: Vel merktir félagar eftir blautan dag á jökli
Höfundur: Kristjón Sverrisson