Category Archives: Útköll

Útköll um helgina

Á laugardagsmorgninum 10. júlí var kallað út til innanbæjarleitar og tóku um 20 félagar HSSR í leitinni. Leitin var í meðallagi umfangsmikil en lauk seinni part laugardags þegar maðurinn fannst heill á húfi. Á sunnudeginum barst síðan útkall vegna einstaklings sem var í vandræðum í Esjuhlíðum. Sex félagar HSSR tóku þátt í útkallinu en það var stutt, þyrla LHG hífði viðkomandi upp, enda skammt frá að sinna vegaeftirliti.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Slösuð kona í Esju.

10 HSSR félagar komu að útkalli í Esjuhlíðum nú síðdegis er fótbrotin kona var flutt á börum úr gönguleiðinni á Þverfellshorn.

Við störf í fjallinu voru 25 manns frá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu og Slökkviliðinu.

Aðgerðin gekk vel og var allt samstarf til sóma.

—————-
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Slasaður maður í Esju.

Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu og Akranesi voru kallaðar út rétt fyrir klukkan þrjú í dag þegar maður maður hrapaði í klettum í Heljaregg í Vesturbrún Esjunnar. Um er að ræða vinsælt klifursvæði og var maðurinn þar við klifur ásamt tveimur félögum sínum. Talið er að fallið hafi verið um 6-8 metrar. Einnig var Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og þyrla LHG kölluð út og var maðurinn hífður um borð í hana laust fyrir kl. 16.00. Alls tóku 10 félagar frá HSSR þátt í aðgerðinni.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Umfangsmikil innanbæjarleit

Umfangsmikil innanbæjarleit stóð yfir á síðastliðnum sólarhring. Í fyrstu voru eingöngu kallaðir út sérhæfðir leitarhópar en stuttu síðar var öll sveitin kölluð út. Þegar leit hafði staðið í 12 tíma var hafist handa við skipta út hópum og hvíla þau sem tekið höfðu þátt í leitinni fram að því. Alls tóku um 40 félagar HSSR þátt í aðgerðum.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Mikið að gera

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar standa nú vaktir við lokunarpósta á svæðinu þar sem eldgossins í Eyjafjallajökli gætir helst. Lokanir eru við Sunnuhvol, Fiská, Þverá og við Markarfljót. HSSR hefur verið með vakt frá 12 á miðnætti aðfarnótt laugardags og til rúmlega hádegis og síðan aftur á aðfarnótt sunnudags og til hádegis á sunnudag. Konur í Dagrenningu hafa séð um að gefa fólki að borða og sjá um kaffi og veitingar. Þær munu vinna á vöktum alla helgina.
Einnig voru undanfarar kallaðir út vegna öklabrots í Esjuhlíðum um miðjan dag á laugardag. Maðurinn var fluttur á börum niður hlíðar Esjunnar í sjúkrabíl.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Útkall í Esju

Að kvöldi miðvikudags var útkall vegna leitar í Esju. Gott viðbragð og nálagt 30 félagar komir í hús eða búin að tilkynna sig á leiðinni þegar útkallið var afturkallað um 20 mín eftir að það hafði borist. Fyrir marga nýinngengna félaga var þetta fyrsta útkall og var ánægjulegt að sjá hversu vel þau skiluðu sér.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Leit að Fjallabaki

HSSR tók þátt í leit að Fjallabaki 6. apríl. Í fyrstu var óskað eftir sleðum en síðar var óskað eftir gönguskíðafólki. Alls tóku um 25 félagar þátt í aðgerðinni með viðeigandi tækjabúnaði.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Takk fyrir matinn

Eftir viðburðaríkan dag 1. apríl, var okkur boðið í mat af Slysavarnardeild kvenna í Reykjavík. Mættum við lúnir eftir daginn og var tekið á móti okkur með kostum og kynjum að Heimalandi undir Eyjafjöllum. Langar bara að koma á framfæri þakklæti. Takk fyrir mig : )

http://picasaweb.google.com/simbason/EldgosAFimmvorUhalsi#

—————-
Texti m. mynd: Huggulegt
Höfundur: Gunnar Sigmundsson