Author Archives: Hjálparsveit skáta í Reykjavík

Belinda Eir og Tommi gjadkeri handsala samning sumarsins.

Samningur HSSR við Orkuveituna

Belinda Eir og Tommi gjadkeri handsala samning sumarsins.

Belinda Eir og Tommi gjaldkeri handsala samning sumarsins.

Nú í morgun var skrifað undir samning HSSR og Orkuveitu Reykjavíkur um viðhald gönguleiðakerfis OR á Hengilssvæðinu. Þetta er tíunda árið í röð sem að HSSR sinnir þessu verkefni fyrir OR og hefur samstarfið gefist vel fyrir báða aðila. Þrátt fyrir að samningur hafi ekki verið undirritaður fyrr en í morgun hafa HSSR félagar þó þegar hafið störf á svæðinu. Sumarbyrjunin hefur reyndar verið bæði köld og vætusöm og því viðbúið að verkefnið teygist eitthvað lengra fram á sumarið en undanfarin ár.

Nú er um að gera að sitja um góðu dagana og nýta þá vel á Hengilssvæðinu.

Útkall F2 gulur, leit á Vestfjörðum

Útkall F2 gulurAðfaranótt laugardagsins 1. júní barst sveitinni ósk um aðstoð vegna leitar að franskri konu í Mjóafirði við Ísafjarðardjúp.  Í fyrstu var óskað eftir sérhæfðum leitarmönnum en síðar breyttist boðun í heildarútkall.

Frá HSSR fór einn hópur göngumanna vestur fyrir hádegi. Eftir kvöldmat fór Reykur 1 með tvo gönguhópa til viðbótar og félaga með leitarhund og búðatjaldið. Alls komu 25 manns frá HSSR að leitinni. Um þriðjungur þeirra tók líka þátt í fótboltagæslu fyrr um daginn en leitin féll saman við gæslu sem sveitin annaðist á landsleik kvenna í knattspyrnu, Ísland – Skotland.

Landssöfnun Landsbjargar

Fjallabjörgunarmenn að búa sig.Í gær, föstudag, var haldin landssöfnun fyrir Landsbjörgu þar sem meðal annars var safnað í Bakvarðasveit félagsins. Meðlimir HSSR stóðu vaktina, hvort tveggja í innhringiverinu og uppi við Búhamra þar sem fjallabjörgunarhluti útsendingarinnar fór fram.

Búðahópur setti upp tjaldið við stjórnstöðvarbíl Svæðisstjórnar, Björninn, og fjallahópur hélt upp í hamrana þar sem sett var upp kerfi til að slaka þolanda niður klettana.

Allt gekk að óskum og veðrið spilaði með, hellidembunni sem spáð var stytti upp svo samræmi var milli beinu útsendingarinnar og uppfylliefnisins sem tekið var upp um miðjan mánuðinn.

Continue reading

Hjólahópur HSSR

Heiðmörk á góðum degi.

Heiðmörk á góðum degi.

Nú í vor var lagt af stað með formlegan hjólahóp innan HSSR. Hefur hópurinn farið í nokkrar ferðir út frá höfuðstöðvum sveitarinnar að Malarhöfða 6.

Síðustu fjóra sunnudagsmorgna hefur hópurinn farið um stíga Heiðmerkur og Hólmsheiðar, kringum og yfir Úlfarsfell, hring um Reykjavík og aðrar skemmtilegar leiðir á höfðuborgarsvæðinu.

Vonast er til að hópurinn eflist enn frekar og verði hægt að nota hann í sérhæfð útköll í framtíðinni.
Hópurinn er með facebook síðu og er öllum félögum HSSR velkomið að taka þátt í að skipuleggja eða koma með hugmyndir af ferðum fyrir hópinn:
https://www.facebook.com/groups/520384934689260/

Úlfarsfell-Mosó-Ströndin

Úlfarsfell-Mosó-Ströndin

GSM miðunarverkefnið NORRIS

Á dögunum var komið að máli við nokkrar björgunarsveitir á Höfuðborgarsvæðinu með að aðstoða við verkefni sem Rögg er að þróa í samstarfi við Landhelgisgæsluna. Verkefnið gengur út á að miða út GSM síma úr þyrlu með því að fljúga yfir leitarsvæði með sérhannaðan búnað. Með þessu má hvort tveggja finna síma utan þjónustusvæðis og auka nákvæmni miðunarinnar úr um 530 metrum niður í um 60 metra.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur verið að gera tilraunir við að miða út síma í mismunandi landslagi. Fyrir mælingar í jökulsprungum var kosið að leita til björgunarsveitanna við að finna og koma símum niður í sprungur.

Flogið var með TF-SIF á Sólheimajökul og hentugir svelgir fundnir. Veður var með afbrigðum gott og aðgerðin gekk vel.

Continue reading

Allir öruggir heim

Þorbjörg ásamt nokkrum kátum vestisþegum.

Þorbjörg ásamt nokkrum kátum vestisþegum.

Nú í maí hafa félagar í HSSR farið í nokkra grunnskóla í Reykjavík og afhent skólunum endurskinsvesti til eignar. Vestin eru ætluð nemendum í fyrsta bekk þegar þau fara í ferðir út fyrir skólalóðina.

Það er Slysavarnafélagið Landsbjörg, í samvinnu við Alcoa Fjarðarál, Dynjanda ehf, EFLA verkfræðistofu, Eflingu stéttafélag, HB Granda, Isavia, Landsvirkjun, Neyðarlínuna, Tryggingamiðstöðina, Umferðarstofu og Þekkingu, sem gefur öllum grunnskólum landsins þessi endurskinsvesti til að nota í vettvangsferðum barna í 1. bekk. Á vestunum kemur fram númer Neyðarlínu, 112, en engar aðrar auglýsingar.

Þema þessa verkefnisins er „Allir öruggir heim“ því öll eigum við rétt á því að koma örugg heim og á það ekki síst við um þau sem eru að hefja skólagöngu sína. Að sjálfsögðu göngum við sem eldri eru á undan með góðu fordæmi og notum ávallt viðeigandi öryggisbúnað.

Undirbúningur fyrir söfnunarþátt á RÚV

Hvert augnablik fest á filmu.

Hvert augnablik fest á filmu.

Sunnudaginn 12. maí héldu nokkrir vaskir meðlimir HSSR upp undir Búahamra til undirbúnings fyrir söfnunarþátt sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg stendur fyrir í samvinnu við RÚV. Gert er ráð fyrir blandaðri dagskrá; innslög eru t.d. viðtöl við fólk úr sveitum og deildum, skjólstæðinga og aðstandendur, klippur úr starfi félagsins, tónlist, grín og glens.

Lagði sveitin fram búðatjaldið og mannskap í það auk fjallabjörgunarhóps til töku á forunnu efni. Tjaldið var sett upp undir hömrunum við stjórnstöðvarbílinn Björninn en fjallabjörgun sett upp í klettunum. Continue reading

Samæfing í fjallabjörgun

Danni og Brynjar ganga frá öllum spottum áður en sá síðarnefndi sígur niður til Bjarka sem þurfti að bjarga

Danni og Brynjar ganga frá öllum spottum áður en sá síðarnefndi sígur niður til Bjarka sem þurfti að bjarga

Samæfing HSSR í fjallabjörgun í umsjón undanfara var haldin 4. apríl. Farið var í Stardal þar sem þrír nýliðar dingluðu í línum fastir í háum þverhníptum kletti. Það þurfti að ná þeim niður og bera í börum niður í bíl. Unnið var í þremur hópum undir leiðsögn Ásdísar, Ottós og Dana Más og tókst að ná öllum þremur niður og koma á börur. Einkar vel heppnuð æfing í blýðskaparveðri með um 30 þátttakendum. Myndir frá æfingunni má skoða hér.

Vilt þú verða nýliðaforingi?

Auglýst er eftir áhugasömum félögum til að taka að sér umsjón með nýliðum sem hefja þjálfun næsta haust.  Leitað er að tveimur félögum sem:

  • Hafa starfað með sveitinni sem fullgildir félagar í a.m.k. 2 ár
  • Eru vel tengdir innan sveitarinnar og hafa reynslu af sem flestum þáttum í starfinu
  • Eiga gott með að vinna með alls konar fólki
  • Eru reiðubúnir að sjá um nýliðastarf þangað til nýliðarnir ganga inn í sveitina árið 2015
  • Eru gjarnan af sitt hvoru kyninu

Einstaklingar geta sótt um en svo er líka hægt að sækja um tvær, tveir eða helst tvö saman.  Þeir sem hafa áhuga sendi upplýsingar til Einars Ragnars á netfangið eragnarsig@gmail.com fyrir næsta stjórnarfund sem er þriðudag 16. apríl kl. 18. en þá verða umsóknir skoðaðar.

– Stórn HSSR

Páskaferð á Snæfellsjökul

Hópurinn sem gekk á Snæfellsjökul

Almenn páskaferð HSSR þetta árið var skíða- og gönguferð á Snæfellsjökul. Dagurinn vandlega valinn skírdagur, þannig að skyggni yrði ekkert og ekkert nema helvítis rok á fjallinu! Það var reyndar meinleysisveður þegar lagt var af stað en það hvessti eftir því sem ofar dró. Fréttum frá vélsleðamönnum á keiðinni að aðstæður vera afleitar eða hefðu í öllu fallið verið það daginn áður. Jökullinn eitt klakastykki og erfiður yfirferðar. Ekki neitt harðfenni heldur bara klaki. Það hafði hins vegar snjóað eitthvað þannig að klakinn var ekki til trafala til að byrja með.

Hópurinn hafði auðvitað ekki neinn sérstakan áhuga á því að elta snjóbílasóð og fóru sínar eigin leiðir áleiðs upp. Þar var boðið upp á góðan hliðarhalla og á köflum einhverja snjóflóðahættu en samt allt innan marka. Það hvessti alltaf meira og meira og varð svo að lokum skítkalt. Klakinn var hins vegar næstum alla leið upp hulinn góðu snjólagi sem hafði komið líklega nóttina áður. Það brást svo rétt fyrir neðan þúfurnar og varð það til þess að snúið var við. Þetta átti víst eftir allt saman mestmegnis að vera skemmtiferð en ekki bara æfing í að ganga á skíðum eða ekki skíðum upp brekku í vondu veðri án þess að sjá nokkurn skapaðan hlut. En jú, þetta endaði á að vera hvort tveggja!

Niðurferðin gekk að sjálfsögðu bara vel og var skíðað af kappi. Hópurinn var haldinn á jöklinum en svo var bara skíðað eða ekki skíðað eftir getu hvers og eins. Margir voru á fjallaskíðum og kunnu með þau að fara. Það var loks hressa liðið sem skildi eldra og lélegra skíðaliðið eftir. Svo voru aðrir eins og undirritaður sem hafði ekki stigið á svigskíði í heilt ár og var einhvern veginn á dularfullan hátt kominn í plógskíðabeygjustílinn! Aðrir voru á gönguskíðum og var hver með sinn stíl en skinnastíllinn var vinsæll í efri hluta fjallsins þar sem brattinn var meiri. Nú og svo mátti líka alveg vera gangandi þarna líka. Sem sagt allt leyfilegt á fjöllum!