Category Archives: Útköll

Óveður í uppsiglingu?

Félagar í HSSR eru beðnir að vera í viðbragsstöðu vegna óveðurs sem gengur væntanlega yfir höfuðborgina í kvöld, fimmtudaginn 23. október. Við verðum ekki með hópa í húsi að þessu sinni, aðrar sveitir taka það að sér.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Innanbæjarleit á sunnudagskvöld.

Rúmlega tuttugu HSSR félagar tóku þátt í eða voru tilbúnir í húsi vegna innanbæjarleitar að karlmanni á Sundahafnarsvæðinu í gærkvöldi.

Af öðrum viðburðum helgarinnar er það helst að Eftirbátar fóru í æfingaferð á Fimmvörðuháls, Fjórhjólagengið fór í æfingaferð á sunnudag og um 20 manns stóðu gæslu á bikarúrslitaleik í Laugardal á laugardaginn.

Nú er komið haust, ef þú hefur ekki tekið eftir því. Það er því mikilvægt að útkallshópurinn okkar sé klár með sitt óveðurs og útkallsdót annaðhvort hér á M6 eða á vísum stað. Þá vill Bækistöðvarhópur minna 112 útkallshópinn á að svara öllum 112 boðum með SMS í útkallssíma HSSR með upplýsingum um það hvort menn komast eða ekki.

—————-
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Fyrsta óveðursútkall haustsins.

Þá er fjörið hafið og búið að opna lægðarennuna. 14 manns frá HSSR voru að störfum frá miðnætti til kl. fimm í morgun við ýmisskonar óveðursaðstoð. Stærsta einstaka verkefnið fólst í að fjarlægja 10 M háa ösp sem hafði brotnað, lagst utan í hús og brotið þar rúðu. Þrátt fyrir einstaklega öflugan mannskap eru takmörk fyrir öllu og var því kallaður út bíll með krana til að fjarlægja tréð undir öruggri stjórn okkar fólks.

Áfram er hvassviðri í kortunum næstu daga og allir hvattir til að ganga frá lausamunum.

—————-
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Tvö óveðursútköll í dag.

Vorum rétt í þessu að koma í hús eftir snúið verkefni í Bláfjöllum. Við ásamt Björgunarsveit Hafnarfjarðar fengum það verkefni að hindra frekara tjón á þaki og veggjum á 1200 fm húsi með 8 m lofthæð sem hefur verið reist tímabundið í Bláfjöllum. Sem betur fer var aðgengi að verkefninu innanfrá, þar sem vindhviður slógu upp í 30 ms.

—————-
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson

Útköll í Sumar

Sumarið í sumar hefur verið Hjálparsveit Skáta Reykjavík að mörgu leiti frábrugðið því sem við eigum að venjast á þeim árstíma, þar sem útköll hafa sjaldan verið fleiri en nú.

Leitir og björgun einstaklinga sem hafa týnst eða slasast hafa verið vel á annan tug en sem betur fer hafa leitirnar í langflestum tilvikum leitt til þess að viðkomandi hafa í fundist heilir á húfi.

Útkall vegna flugatvika hafa einnig verið nokkur í sumar.

Því miður kom það fyrir í einu tilviki í sumar að leit leiddi ekki til farsællar björgunar, það tekur á sálina þegar slíkt hendir, en við erum samheldinn hópur sem hjálpum einnig hvert öðru í gegnum erfiðleika sem koma upp.

Fyrir hönd útkallshóps

Helgi Reynisson

—————-
Höfundur: Helgi Reynisson

Týndur maður við Landmannalaugar

Átta félagar úr HSSR fóru um miðnætti í gærkvöldi af stað í Landmannalaugar að taka þátt í leit að týndum manni sem síðast hafði sést til síðdegis. Maðurinn fannst heill á húfi í morgun en hafði villst við Landmannalaugar og beið því björgunar en var orðinn nokkuð kaldur þegar hann fannst.

—————-
Höfundur: Hálfdán Ágústsson

Leit að manni á Esjunni

HSSR félagar tóku þátt í leit að manni, er sást á Esjunni í gærmorgun. Tilkynning barst um manninn um hálf tólf leitið í gærmorgun, þegar hann sást nakinn á gangi ofarlega í Esju Um 120 björgunarsveitamenn af höfðuborgarsvæðinu og nágrannasvæðum, ásamt lögreglu leituðu mannsins í gær og stóð leit frameftir nóttu. Þoka og rigning var á leitarsvæðinu í gær og rofaði ekki til fyrr en undir kvöld. Þyrlur Landhelgisgæslurnar tóku þátt í leitinni og flugu um svæðið þegar færi gafst. 23 félagar HSSR aðstoðuðu við leitina.

Í morgun hófst leit aftur og var þá hægt að notast við þyrlur þær fluttu leitarmenn upp á Esjuna ásamt því að leita svæðið, það var síðan um klukkan 10:30 í morgun að þyrlan GNÁ fann mannin neðarlega í Gunnlaugsskarði, hann var látinn.

.

—————-
Höfundur: Helgi Reynisson

Útköll 7 júlí

Mánudaginn 7 júlí var nokkuð annasamur dagur hjá HSSR. Tvö útköll, annað var innanbæjarleit og hins vegar var um að ræða björgun úr Esju. Í fyrra útkallið fóru þrír hópar frá sveitinni en tveir í það síðara.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Frágangur – mánudagskvöld

Mikið af búnaði sveitarinnar var virkjaður í jarðskjálftanu á fimmtudaginn. Sá búnaður hefur verið að koma í bæinn og einnig var ákveðið að hafa ýmsan búnað áfram í bílum sveitarinnar meðan hættuástand var. Nú hefur því verið aflýst og tími komin á frágang. Hvetjum alla félaga, jafnt þau sem komu í útkall og aðra að mæta á mánudagskvöld klukkan 20.oo og taka skorpu í tiltekt og frágang.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson