Category Archives: Útköll

Alþjóðasveitarhópur á heimleið

Alþjóðasveitin kvaddi Haítí í gær eftir erfiða og krefjandi viku við björgunarstörf á skjálftasvæðinu. Hópurinn er væntanlegur heim seint í kvöld eða nótt. Búið er að manna alla þætti varðandi móttöku hópsins og frágang á búnaði.

—————-
Höfundur: Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir

ICE-SAR sveit á heimleið

Nú hefur Íslenska Alþjóðabjörgunarsveitin (ICE-SAR) kvatt Haiti og er lögð af stað heim á leið.

Von er á félögum heim úr erfiðu úthaldi seint á fimmtudagskvöld og munu þau drífa sig heim strax við lendingu.

Birgðahópur mun taka við farmi sveitarinnar og koma honum í flokkun og sendingar til viðkomandi umsjónarhópa og eiganda búnaðar. Reiknað er með að nota tækjageymslu M6 við þá vinnu.

Til hliðar er loftmynd frá flugvellinum í Port a Prince þar sem að björgunarlið víða að úr heiminum hafði aðsetur. Búðir ICE-ASR sem merktar eru inn á myndina voru að hluta skildar eftir, til að þjóna áfram þessum alþjóðlegu tjaldbúðum.

Megi almættið standa með íbúm Haití á erfiðum tímum.

—————-
Texti m. mynd: Frá flugvellinum
Höfundur: Örn Guðmundsson

Alþjóðasveit á heimleið

Gert er ráð fyrir að Alþjóðsveit komi heim á fimmtudagskvöld eða aðfaranótt föstudags. Það fer vél héðan til að sækja þau og búnað, auk þess sem þessi sama vél fer með hjálpargögn frá Rauða krossinum á Íslandi.

Ekki er vitað hvort eitthvað af búnaðinum okkar verður eftir, en það mun koma í ljós á miðvikudag. Helst hefur verið rætt um að það væri not fyrir tjöld og vatnshreinsibúnað. Jörgen Valdimarsson ásamt stuðningshópnum okkar sjá um móttöku búnaði sveitarinnar og líklegt er að það verði að virkja hluta af tækjageymslu til þurka og ganga frá.

—————-
Texti m. mynd: Hilmar á kaffinu
Höfundur: Haukur Harðarson

Fréttir frá Haítí

Í gær fóru þrír úr okkar hópi þau Gunnar Kr., Svava og Ólafur Lofts á nýtt svæði nær upptökum skjálftans, til borgarinnar Léogane. Áætlað er að þar muni þau dvelja í tvo sólarhringa. Aðrir úr hópnum þau Hilmar Már, Björn, Kári og Dagbjartur eru á aðal búðasvæðinu við flugvöllinn í Port au Prince, þar sem þeir sjá um búðirnar og vatnshreinsun.

Hópurinn hefur það gott miðað við erfiðar aðstæður.

—————-
Höfundur: Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir

Fréttir af alþjóðasveitarhópi

Okkar fólk á Haítí hefur það gott miðað við aðstæður.

Fulltrúar stjórnar HSSR funda með baklandi Íslensku alþjóðasveitarinnar (ÍA) á hverju kvöldi í Skógarhlíðinni, til að fá fréttir af gangi mála og líðan fólks.

Nú er vatnshreinsibúnaður sveitarinnar kominn í gagnið og hreinsar neysluvatn fyrir fleiri hundruð björgunarmanna sem dvelja á búðasvæðinu á flugvellinum. Sem fyrr hafa okkar fulltrúar það hlutverk að stjórna skipulagi á búðasvæðinu – og stjórnstöð rústabjörgunarhópa staðsett í öðru tjaldinu, þaðan sem rústabjörgunarverkefnum er útdeilt.

Undirbúningur heimkomu ÍA er þegar hafinn, þó ekki sé komin endanleg dagsetning.

Sendum hlýjar hugsanir og kraft til Haítí.

—————-
Höfundur: Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir

Alþjóðasveitarhópur á Haítí

Fólkið okkar á Haítí hefur það gott miðað við aðstæður. Nú hefur rústabjörgunarsvetium fjölgað og eru þær um 35. Þær eru allar staðsettar á fugvallarsvæðinu og hefur íslenska sveitin fengið það hlutverk að skipuleggja og stjórna uppsetningu búða á svæðinu. Einnig hefur stjórnun á rústabjörgunarhópum verið sett upp á svæði íslensku sveitarinnar í öðru stóra tjaldinu. HSSR félagar hafa því mikið að gera. Fjarskiptasamband er að skána og smá saman er að komast meira skipulag á hlutina. Sameinuðu þjóðirnar telja þó að muni taka um 3-5 daga að fá gott yfirlit yfir skaðasvæðið. Allur hópurinn er vel á sig kominn og sefur með eyrnatappa því flugumferð er mikil. Sendum okkar fólki hlýjar hugsanir.

—————-
Höfundur: Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir

Alþjóðasveitin lent og allt gengur vel

Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin er komin til Haiti. Flugvél Icelandair sem flutti sveitina lenti á flugvellinum í Port au Prince í gærkvöldi. Þegar flogið var yfir borgina mátti sjá mikla eyðileggingu og fólk sem safnaðist saman á opnum svæðum. Innlendir vallarstarfsmenn fögnuðu komu sveitarinnar og þökkuðu henni vel fyrir.

Lokið er við að afferma vélina, er það var gert handvirkt þar sem enginn búnaður er tiltækur á flugvellinum. Samkvæmt viðltali í morgunútvarpi Rásar 2 við Gísla sem stýrir sveitinni er gert ráð fyrir að þau komi sér upp búðum innan flugvallargirðingar og haldi úti starfsemi þaðan. Á upplýsingafundi hjá SL í gærkvöldi kom fram að gert væri ráð fyrir því að meginverkefni sveitarinnar í fyrstu yrði að skipuleggja innkomu annarra sveita á svæði. Einnig yrði unnið að rústabjörgunarverkefnum.

http://maps.google.com/maps?t=h&hl=en&ie=UTF8&ll=18.576382,-72.29309&spn=0.059148,0.076818&z=14

—————-
Texti m. mynd: Myndin var tekin á flugvellinum í Port au Prince s
Höfundur: Haukur Harðarson

Alþjóðasveitarhópur HSSR virkjaður

Í kjölfar jarðskjálftans á Haiti í gærkvöldi bauð utanríkisráðuneytið, í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörg, fram aðstoð Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar (ÍA) sem er sérhæfð í rústabjörgun og er sveitin nú í viðbragðsstöðu.

ÍA er að ljúka undirbúningi fyrir flutning sveitarinnar til Haiti. Alþjóðasveitarhópur HSSR tekur þátt í útkallinu með stoðhóp sem aðstoðar við undirbúninginn fyrir ferðalagið og úthaldið. Hægt er að halda sveitinni úti án utanaðkomandi aðstoðar í allt að 7 daga.

Fjöldi alþjóðlegra björgunarsveita hafa nú boðið fram aðstoð og er beðið eftir viðbrögðum stjórnvalda á Haiti.

—————-
Texti m. mynd: Mynd af vef BBC
Höfundur: Örn Guðmundsson

Alþjóðasveit á leið til Haiti

Þrjátíu og fimm manna hópur úr íslensku alþjóðasveitinni er lagður af stað til hamfarasvæðisins á Haiti. Þar af eru 8 félagar HSSR í mismunandi hlutverkum. Þau Hilmar Már, Gunnar Kr, Svava, Björn, Kári og Dagbjartur sjá um búðir og vatnshreinsibúnað. Ólafur Loftsson fór út sem stjórnandi og Jóhann Viggó á vegum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Einnig fylgdu fleiri félagar með til Keflavíkur og berlega kom í ljós hve mikilvægir stuðningshópar við flutning og undirbúning eru í aðgerð sem þessari.

Það er ljóst að aðstæður eru erfiðar og sveitin verður ein af fyrstu björgunarsveitum á hamfarasvæðið. Veður er þó gott en fyrstu myndir sína að miklar skemmdir hafa orðið á byggingum. Alþjóðasveitin flýgur með vél Icelandair til Boston og mun taka þar eldsneyti. Vonast er til að stoppið verði stutt og síðan tekur við þriggja og hálfs tíma flug til Haiti.
Alls vigtaði búnaður svetarinnar tæp 15 tonn og tæplega helmingurinn af því er vatn.
Nú er um að gera að senda þeim góðar hugsanir því ljóst er að þetta verður erfið ferð.

—————-
Texti m. mynd: HSSR félagar á Keflavíkurflugvelli í nótt.
Höfundur: Haukur Harðarson

HSSR félagi gerir víðreiðst

Ólafur Loftsson, einn af stjórnendum Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar og meðlimur í Hjálparsveit skáta Reykjavík, er nú á leið til Filipseyja þar sem hann mun næstu tvær vikurnar stýra aðgerðum í björgunarstarfi eftir að mikil aurflóð urðu þar í kjölfar fellibylsins Lupit sem gekk yfir landið sl. föstudag. Ólafur fer á skaðasvæðið sem hluti af sjö manna teymi sérfræðinga á vegum UNDAG, sem starfar undir hatti Sameinuðu þjóðanna og aðstoðar við samhæfingu viðbragða alþjóðasamfélagsins eftir náttúruhamfarir. Slysavarnafélagið Landsbjörg á fjóra af um 200 sérfræðingum í UNDAG.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson